Ferðapælingar – Indlandsferð

Fyrir tveim árum skrifaði ég lista yfir 15 staði, sem mig langaði verulega mikið til að heimsækja. Einsog ferðapælingarnar mínar eru akkúrat núna þá gæti ég hugsanlega heimsótt þrjá þessara staða núna í haust.

Ferðapælingarnar eru aðeins að taka einhverja skýrari mynd í hausnum á mér eftir að hafa lesið í gegnum ferðabækur og heimsótt ýmsar vefsíður. Ég er búinn að fá vegabréfsáritun til Indlands og vegabréfið mitt er á leið til London þar sem ég fæ vonandi vegabréfsáritun til Nepal.


Ég hugsa að ég hafi um tvo mánuði til að ferðast og það ætti að geta orðið ágætis ferðalag. Ég er að gæla við að sjá eftirfarandi lönd: Indland, Bangladesh, Nepal og Kína. Þarna eru auðvitað tvö fjölmennustu lönd veraldar, svo ég sé auðvitað ekki nema brot af þeim löndum.

Planið er semsagt núna að fljúga til Delhi. Ýmislegt veltur á því hversu miklum tíma ég ætla að eyða í Nepal, en ef ég sleppi lengri gönguferðum, þá ætla ég að reyna að eitthvað af vestur Indlandi, þar á meðal Amritsar og þar í kring. Ef ég labba mikið í Nepal þá ætla ég hins vegar að sleppa þessum hluta.

Allavegana, frá Delhi getur maður auðvitað séð Taj Mahal. Síðan myndi ég halda í austur og fara til Varanasi og þaðan upp til Nepal. Í Nepal myndi ég strax fara upp til Khatmandu dalsins og skoða umhverfið þar. Spurningin er svo hvort ég leggi í lengri gönguferð. Í Nepal eru tvær þriggja vikna göngur, sem að heilla mig. Annars vegar er það gangan uppað grunnbúðum Mt. Everest og hins vegar er það ganga um Annapurna fjöllin. Ég þarf eiginlega að gera upp við mig hvort ég nenni í svona langar göngur.

Allavegana, frá Nepal ætla ég svo að fara í hópferð upp til Tíbet. Ég komst að því að kínverska sendiráðið hérna á Íslandi gefur ekki út vegabréfsáritanir til fólks, sem er að ferðast til Tíbet þannig að ég þarf að skoða þau mál í Khatmandu. Í Tíbet er auðvitað draumurinn að skoða Potala höllina í Lhasa, sem mig hefur lengi dreymt um að heimsækja.


Ferðin til Tíbet er hringferð, sem endar í Khatmandu. Þaðan ætla ég að skoða Royal Chitwan þjóðgarðinn í Nepal þar sem ku vera ansi vinsælt að ferðast um á fílum.

Svo myndi ég væntanlega fara aftur inní Indland. Er ekki alveg búinn að gera upp við mig hversu mikið ég geri þar, en ég er allavegana að hugsa um að enda ferðina í Bangladesh. Þar ætla ég að fara til höfuðborgarinnar Dhaka og þaðan niður einhverja ánna niður til Sundarbarns. Þaðan eflaust upp til Dhaka og svo aftur til Delhi þar sem ég myndi fljúga aftur til London.