Ég fæ heilablóðfall

Lífið er skrýtið.

Á þriðjudagsmorgni er ég á fullu í vinnunni. Ég byrja daginn í sænskukennslu og fer svo yfir á skrifstofuna á símafund um nýtt innstimplanakerfi fyrir starfsfólk Serrano.

Og núna ligg ég allt í einu á föstudagsmorgni inná þriggja manna stofu á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Ég er með leppa fyrir auganu og við hliðiná mér er verið að skipta á bleijum á einum sjúklingi á meðan að hinn kallinn í stofunni kvartar. Hvernig í ósköpunum gerðist þetta?

* * *

Um tvö leytið á þriðjudaginn var ég með mann á fundi á skrifstofunni minni. Hann hafði lýst yfir áhuga á því að opna Serrano stað í öðru bæ í Svíþjóð og óskaði eftir nokkrum mínútum með mér til að kynna sig og sínar hugmyndir. Þegar hann hringdi stökk ég niður og opnaði fyrir honum og hoppaði svo aftur upp tröppurnar á meðan ég spurði hvernig hann hefði það.

Um leið og ég kom inná skrifstofuna byrjaði mér að líða sérkennilega. Ég bauð manninum uppá kaffi en hann vildi bara vatn, svo ég hellti honum í glas. Mér svimaði hins vegar svo mikið og leið svo einkennilega að ég ákvað að drekka sjálfur vatnsglasið og hellti honum svo í annað.

Hann tók þá eftir því hvað ég var einkennilegur, svo ég baðst afsökunnar á því hve furðulegur ég væri á meðan ég settist. Ég gerði svo nokkrar tilraunir til að hefja fundinn með því að segja aðeins sögu Serrano. Sögu sem ég hef sagt 100 sinnum og kann utanbókar, en gat samt ekki komið upp neinu heillegu. Ég lokaði augunum og reyndi að segja honum söguna þannig, en allt var í rugli. Að lokum spurði hann mig hvort ég vildi ekki bara fresta fundinum og gera þetta seinna. Ég þáði það boð, en hafnaði því þegar hann bauðst til að hringja á sjúkrabíl.

Þegar ég var orðinn einn á skrifstofunni lokaði ég tölvunni minni og svo var einsog allt færi í rugl. Ég staulaðist á milli stólsins míns og skrifborðsins og gat hvorki séð neitt skýrt né staðið á fótunum Ég datt á gólfið og það leið sennilega yfir mig oftar en einu sinni. Ég eyddi ábyggilega einhverjum 10 mínútum að reyna það einfalda verkefni að taka tölvuna mína og setja hana í töskuna mína. Einhvern veginn tókst mér það og næsta verkefni var því að slökkva ljósin á skrifstofunni og koma mér út. Skrifstofan okkar, sem við deilum með íslensku fyrirtæki sem rekur tískuverslanir hérna í Stokkhólmi, er pínkulítil. En samt þá tókst mér að gleyma algjörlega hvar væri hægt að slökkva á ljósunum. Ég rembdist við það í nokkrar mínútur að samhæfa þá aðgerð að taka upp töskuna, slökkva ljósin og opna hurðina. Allt í kringum mig virtist snúast á 100 kílómetra hraða.

Ég komst út, datt næstum því í tröppunum og labbaði útá götu. Grev Turegatan er nokkuð vinsæl gata. Hún er göngugata og á henni eru vinsælir barir og veitingastaðir. Þegar ég labbaði útá götu þá gat ég bara farið í eina átt, til hægri. Ég endaði því með líkamann uppað búðunum hægra megin götunnar. Strax kom uppað mér strákur, sem spurði hvað væri að. Mér tókst að koma uppúr mér einhverju um að ég væri í lagi og þyrfi bara að leggja mig. Ég gat ekki komið setningunum almennilega uppúr mér og sum orðin komu fáránlega út auk þess sem það var hroðalega erfitt að reyna að halda fókus á andlitinu á stráknum. Loks tókst mér að komast frá honum og ég stönglaðist niður götuna, einhverja 50 metra. Þar lenti ég inní húsasundi, þar sem ég gat hvílt mig en ég var algjörlega örmagna eftir þetta 50 metra labb. Loks komu þar að mér tveir gaurar sem sannfærðu mig um að það væri vitlaust að ætla að taka strætó og þess í stað þyrfti ég leigubíl. Þeir náðu í einn og sannfærðu í leiðinni leigubílstjórann um að ég væri ekki fullur og sennilega ekki á neinum eiturlyfjum heldur.

* * *

Leiðin heim á Södermalm er um 15 mínútur í traffíkinni um miðjan dag í Stokkhólmi. Ég reyndi á þeim tíma áfram að hringja í kærustuna mína. Ég er með iPhone – á þeim síma þarf maður að ýta á 3 takka til að hringja í Margréti, sem er efst á hraðvalslistanum. En sama hversu mikið ég reyndi, þá gat ég ekki hringt í hana. Það besta var að mér tókst að hringja í mann sem vinnur með mér en þegar hann svaraði vissi ég ekki hvað ég átti að segja þannig að ég hlustaði bara á hann spyrja hver þetta væri á meðan að ég starði útí loftið.

Þegar við vorum rétt hjá íbúðinni okkar á Söder spurði bílstjórinn hvort við værum komin. Ég sagði já, þótt að við værum ennþá um 100 metra frá henni. Einhvern veginn þótt mér það alltof flókið að útskýra það fyrir honum að íbúðin mín væri 100 metrum lengra niður sömu götu.

Ég fór því útúr bílnum og einsog áður leitaði ég alltaf til hægri og klesstist því uppað búðargluggunum. Í einni búðinni voru tveir stólar fyrir utan búðina og þar sem ég sá nánast ekki neitt þá klessti ég beint á þá og datt næstum því. Strákur kom uppað mér og vildi ekki sleppa mér fyrr en ég hafði sagt við hann 10 sinnum að ég byggi þarna rétt hjá.

Mér tókst svo að komast upp tröppurnar að byggingunni og einhvern veginn komst ég líka uppá 4. hæð að íbúðinni okkar. Þar rembdist ég við það í 2-3 mínútur að opna hurðina með lyklinum. Það var nánast óbærilega erfitt þar sem að allt var svo óskýrt og mér leið hálfpartinn einsog það væri líka einhver að elta mig allan tímann. Ég var reyndar á tímabili viss um að gaurinn sem ég hitti á fundinum hefði eitrað fyrir mér og svo elt mig og ætlað að ræna mér.

En að lokum opnaði ég hurðina, læsti á eftir mér, stönglaðist einhvern veginn í gegnum íbúðina og uppí rúm. Þar fór ég að sofa

* * *

Ég svaf með iPhone heyrnartólin í eyrunum en þrátt fyrir það þá vaknaði ég ekki við það að Margrét hringdi 6 sinnum í mig.

Ég var loks vakinn þegar að hún kom heim 4 tímum eftir að ég hafði sofnað uppí rúmi. Hún reyndi að tala við mig en þegar ég gat ekki komið almennilegum setningum útúr mér, þá brá henni gríðarlega og hún hringdi á sjúkrabíl. Stuttu seinna kom sjúkrabíllinn og sjúkraliðarnir gerðu einver próf á mér og ákváðu svo að fara með mig í burtu á Karolínska sjúkrahúsið, sem er rétt fyrir norðan miðbæ Stokkhólms. Þar er ég nú.

Eftir að ég kom þangað man ég hlutina ekkert sérlega skýrt. Ég man eftir Margréti grátandi og hringjandi í ættingja og ég man þegar að ég kom inná neyðarmóttökuna. Ég man svo eftir frábærum lækni, sem talaði við mig og reyndi að fá eitthvað af viti útúr mér. Þrátt fyrir að ég væri allur af vilja gerður þá kom oft ekkert nema bull útúr mér. Ég kvartaði yfir hausverk og yfir því að gosbrunnarnir í andlitinu á mér væru á fullu og talaði svo um að ég hefði labbað á fimm ísskápa. Og annað var eftir þessu. Ég man svo eftir að vera tekinn í cat scan og einhverjar fleiri prufur. Ég man þegar að vinir okkar komu og hjálpuðu Margréti og ég man eftir því hversu ruglaður ég var og þegar að ég tók svefntöflur um tíu leytið.

* * *

Morgunin eftir vaknaði ég um sjö leytið með Margréti við hliðiná mér. Hún sagði mér betur frá því sem hefði gerst kvöldið áður, í hverja hún hafði hringt og hverjum hún hefði heyrt frá. Hún sagði mér líka frá því að mamma og pabbi væru á leið til Stokkhólms þá þegar um morguninn.

Síðustu dagar hafa því verið nokkurn veginn eins. Margrét hefur verið hjá mér mestallan tímann, dekrað við mig og haldið mér á lífi hér meðal gamla fólksins. Mamma og pabbi voru hérna hjá mér báða dagana, en þau fóru svo heim til Íslands þegar að það leit út fyrir að það versta væri afstaðið.

Næturnar hérna voru hálf erfiðar. Fyrstu nóttina var ég á nokkurs konar gjörgæsludeild þar sem að blóðþrýstingurinn var tekinn á mér á klukkutíma fresti og sífellt fólk að fara inn og útaf stofunni. Seinn var ég svo færður á rólegri deild þar sem ég ligg núna ásamt tveimur gömlum köllum. Annar þeirra reyndi að brjóta niður skilrúmið hjá mér í fyrri nótt þar sem hann ímyndaði sér að þar lægi klósettið – og hinn hóstar svo skelfilegum hósta á korters fresti að ég get varla komist hjá því að kúgast.

En ég get varla kvartað. Svona er þetta bara. Ég þakka Guði fyrir að hafa veikst á Norðurlöndunum, þar sem hérna er heilbrigðiskerfið stórkostlegt og eingöngu er tekið á móti manni á allra besta hátt þótt að ég hafi bara búið hérna í 3 mánuði og geti varla bjargað mér á sænsku.

Ég er svo búinn að fara í milljón próf. Síðast í dag í einhvers konar sónarskoðun á hjarta og svo í MRI. Og niðurstöðurnar eru komnar. Ég fékk heilablóðfall. Læknirinn segir að það hafi verið vægt en enn er ekki vitað hverjar orsakirnar eru. Ég ætti að vera langt frá áhættuhópnum. Ég er ungur, ég stunda líkamsrækt nánast á hverjum degi, ég borða hollt, ég reyki ekki og svo framvegis. Þannig að ennþá hafa læknarnir ekki fundið neina augljósa skýringu á þessu öllu.

Ég sé ekki alveg einsog ég sá áður. Allir hlutir eru tvöfaldir þegar að ég er með bæði augun opin og því þarf ég að vera með sjóræningjalepp á öðru hvoru auganu ef ég vill lesa eða horfa á sjónvarp. Einnig er jafnvægisskynið ekki gott. Alveg einsog þegar það versta gekk yfir, þá halla ég alltaf til hægri, en það er þó 20 sinnum betra í dag. Læknirinn, sem er íslenskur, segir að það muni lagast ásamt sjóninni á smá tíma.

Þannig að núna er ég á leið heim aftur. Það hittir akkúrat þannig á að við Margrét erum að flytja í nýju íbúðina okkar á mánudaginn. Ég mun því miður ekki taka mikinn þátt í því, en það er gott bara að komast aftur heim og geta sofið eðlilega.

* * *

Og hvað kemur svo útúr öllu þessu? Jú, ég get ekki lýst því hvað það hjálpaði mér mikið að heyra frá vinum og ættingjum. Margrét sá um að senda öllum póst um líðan mína og það að heyra aftur í fólki, hvort sem það var á pósti eða í síma, eða bara að heyra af því að það forvitnaðist um mig, var ómetanlegt. Og það var frábært að fá foreldra mína hingað í heimsókn.

Takk ÖLL!

Og það sannaðist það sem mig hafði grunað áður: Ég á bestu kærustu í heimi. Ég hef kannski ekki eytt púðri í það á þessari síðu að tíunda hversu ótrúlega kærustu ég á, en ég get vart lýst því hvað ég er ástafanginn. Hún er stórkostleg persóna, fáránlega skemmtileg, ótrúlega falleg og líka yndislega góð og hugulsöm. Ég veit ekki hvernig ég hefði getað komist í gegnum þetta án hennar.