Rómarferð 2: Punktar um Róm og trúlofun

Margrét og ég, nýtrúlofuð

Einsog ég skrifaði í fyrri hluta bloggsins um Rómarferðina, þá er nánast ómögulegt að skrifa ferðablogg þegar maður er kominn heim.  Það á enn meira við núna þegar yfir mánuður er liðinn frá sjálfri ferðinni.  Ég ætla að reyna að koma þessu frá mér með punktabloggi.

  • Það skemmtilegasta við Róm er ekki Vatíkanið eða Colosseo, heldur að labba um endalausar götur, horfa á mannlíf, borða ís og njóta þess að vera í Róm.  Bestu stundirnar okkar í Róm voru þannig.  Róm hefur auðvitað alla þessa heimsþekktu túristastaði, en auk þess er yndislegt að bara vera í borginni.
  • Maturinn í Róm er frábær.  Við borðuðum nokkrar máltíðir, sem ég myndi telja með þeim betri sem ég hef borðað á ævinni.  Reyndar fannst mér aðalrétturinn oftast sísti hluti máltíðarinnar.  Forréttir og pasta voru vanalega betri.  Guð minn góður hvað pastað var gott.
  • Villa Borghese er stórkostlegt listasafn.  Á ferðalögum fær maður oft óþol fyrir málverkum og listaverkum eftir að hafa heimsótt 2-3 söfn.  En það er hreinlega ómögulegt að verða ekki heillaður af höggmyndum Bernini í Villa Borghese.  Þær eru stórkostlegar.  Það að sjá Appollo og Daphne á ljósmynd er ekki svo merkilegt, en að sjá þessar höggmyndir fyrir framan sig er stórkostlegt.
  • Ís í Róm er æðislegur.  Ef ég byggi í Róm væri ég eflaust 150 kíló af öllu þessu pasta og ísáti og allri þessari víndrykkju.  Allavegana ef ég hegðaði mér einsog túristi sérhvern dag.  Sem Ítalir sennilega gera ekki.
  • Laugardagskvöldið í Róm var eitt besta kvöld ævi minnar.
  • Við Margrét borðuðum stórkostlegan mat á veitingastað rétt hjá hótelinu.  Svo löbbuðum við um nágrennið og á tómri götu rétt hjá Spænsku Tröppunum bað ég hana að giftast mér.  Hún sagði já.
  • Við löbbuðum yfir á næsta veitingastað, pöntuðum þar kampavínsflösku, drukkum fyrsta glasið á veitingastaðnum og tókum svo flöskuna með okkur og drukkum kampavín á Spænsku Tröppunum.  Þetta var svoooo skemmtilegt.
  • Margrét er auðvitað skemmtilegasta, klárasta, sætasta og besta stelpa í heimi.  Og nú er hún mín.  Brúðkaup verður auglýst síðar.

*Skrifað í Stokkhólmi*