Hjólhýsi og wife swap

Magga fjallar um [hjólhýsaæði landans](http://maggabest.blogspot.com/2005/07/hjlhsarusl.html). Hún er besti bloggari landsins, segi ég og skrifa.


Á þessi Wife Swap þáttur virkilega að vera skemmtilegur? Ég náði ekki að standa uppúr sófanum eftir að [Liverpool leikurinn kláraðist](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/07/13/20.56.38/) og festist yfir þessum þætti. Þetta er hryllilega leiðinlegt. Án efa í síðasta skipti sem ég hlusta á Bo Halldórs. “Nýjasta æðið í bandarísku sjónvarpi” my ass.

Ég er ferlega þreyttur. Fór í körfubolta eftir vinnu og svo komu nokkrir vinir í heimsókn til að horfa á Liverpool leikinn. Núna get ég varla staðið uppúr sófanum.


Færslan mín um [leiðinlega sumarveðrið](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/11/19.18.41) var listuð á [b2.is](http://www.b2.is) (gamla Batman) og það þýddi að 3000 manns skoðuðu þá færslu. Ekki einn af þessum þrjú þúsund kommentaði á færsluna, sem mér finnst magnað.

En allavegana, það er *ekki enn* búið að boða mig í Kastljósið til að tala um þessa stórkostlegu uppgötvun mína! Ég meina, *ég*, hagfræðingurinn Einar Örn uppgötvaði það að á Íslandi er leiðinlegasta sumarveður í heimi!!! Þetta er senninlega ein af fimm merkilegustu uppgötvunum Íslandssögunnar og mun sennilega hafa hræðilega afleiðingar fyrir íslenska þjóðarsál.

Veðurfræðingarnir í fréttunum passa sig á því að minnast alltaf á það þegar það er kalt í Evrópu eða rigning á Spáni, sérstaklega þegar það er sól á Austurlandi á sama tíma. Það er gert til að búa til þann ímyndaða rauveruleika að veðrið hérna sé eðlilegt og í einhverju samræmi við veður í öðrum löndum. Það er hins vegar bull.

En svona er þetta.

Leiðinlegasta sumarveður í heimi

Ég er vanalega ekki mikill svartsýnismaður, en þetta veður hefur alveg stórkostleg áhrif á mig. Veðrið fer nær aldrei í taugarnar á mér á veturna. Mér er alveg sama þótt að veturnir séu harðir. Hins vegar vil ég hafa almennilegt sumarveður, þar sem ég get verið úti á stuttermabol, get labbað um bæinn án þess að fjúka og get grillað án þess að blotna.

Ég lýsti í síðustu færslu eftir hugmyndum að því hvort það væri eitthvað land í heimi, sem þyrfti að þola jafn ömurlega leiðinlegt sumarveður og við Íslendingar. Einhverjar tillögur komu, til dæmis Grænland, Falklandseyjar, Bhútan og Mongólía.


Ég ákvað að skoða þetta aðeins betur og fletta upp veður-upplýsingum frá þessum stöðum og bera saman við Reykjavík. Það er auðvitað ekki hægt að bera saman veðurfar í heilum löndum, þannig að ég miða við höfuðborgir. Niðurstöðurnar eru magnaðar:

Hérna er meðalhitinn í Reykjavík. Meðalhitinn í besta mánuðinum, Júlí, er Júlí með heilar 13 gráður.

Ok, hvaða staðir koma þá til greina sem kandídatar fyrir leiðinlegasta sumarveður í heimi? Prófum höfuðborgina í Mongólíu. Nei, meðalhitinn þar í besta mánuðinum er 22 gráður. Hvað með Moskvu? Nei, hitinn er líka 22 gráður í heitasta mánuðinum þar, langt yfir Íslandi. Wellington á Nýja Sjálandi? Neibbs, hitinn er 19 gráður í bestu mánuðinum. En Alaska (teygjum þetta aðeins, líkt og Alaska væri sér land)? Veðrið hlýtur að vera verra þar! Ha? Neibbs, hitinn í besta mánuðinum þar er 18 gráður.

Í örvæntingunni minni þá ákvað ég að prófa Grænland og leitaði uppi meðalhitann í Narsarsuaq (það eru ekki til upplýsingar um Nuuk). Og vitiði hvað?

MEÐALHITINN Í NARSARSUAQ Á GRÆNLANDI ER HÆRRI EN Í REYKJAVÍK!!!

Meðalhitinn í Narsarsuaq í júlí er 14 gráður, eða 1 gráðu hærri en í Reykjavík. Þetta er hreinasta sturlun!

Þannig að með öðrum orðum, þá get ég ekki fundið land með verra sumarveður en Ísland!

Hvernig getum við mögulega verið hamingjusamasta þjóð í heimi þegar að við erum með leiðinlegasta sumarveður í heimi? Eru allir nema ég á prozac?


Uppfært (EÖE): Ágúst Fl. er með svipaðar pælingar á sinni heimasíðu og hann kemst að sömu niðurstöðu og ég.

Hálfvitar

[Djöfulsins hálfvitar](http://news.bbc.co.uk/1/hi/uk/4661059.stm)!

Systir mín býr í London og fer þarna oft um á leið heim til sín. Hún slapp þó við þessa árás. Guði sé lof.

Iceland Express og DV

Hvaða bjánaskapur er þetta eiginlega?: [Iceland Express hættir sölu á DV og Hér & nú](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1146365)

Ég nenni ekki að blaðra um þetta Hér og Nú mál. [Stefán Pálsson](http://kaninka.net/stefan/012779.html) og [Badabing](http://www.badabing.is/arc/002755.html#002755) fjalla skemmtilega um það mál. En mikið afskaplega finnst mér þetta nú hallærislegt hjá Iceland Express.

Hvaða tilgangi þjónar þessi ritskoðun Iceland Express? Þeir eru að takmarka úrval í flugvélunum sínum en ákveða samt að auglýsa það upp í Morgunblaðinu. Hver er tilgangurinn með því? Eru þeir að reyna að skora stig hjá almenningi með því að vera flugfélag, sem er á hærra siðferðislegu plani en flestar matvöru- og bókabúðir í landinu?

Talsmaður IE segir:

>Birgir segir að Iceland Express selji vel yfir tvö þúsund eintök af DV á mánuði. “Farþegar okkar hafa enga valkosti um hvort þeir sjá forsíðuna eða ekki þar sem gengið er með blaðið um gangana. Við viljum þá frekar selja vöru sem fólki líkar betur og er þar af leiðandi betri fyrir okkur,

“viljum þá frekar selja vörur sem fólki líkar betur”!!! Tvö þúsund manns keyptu DV af Iceland Express af fúsum og frjálsum vilja, en nei nei, núna vilja IE bara selja fólki blöð, sem fólkinu sjálfu “líkar betur” við. Hvað voru þessir 2000 einstaklingar, sem keyptu DV, eiginlega að spá? Var þetta fólk að kaupa blað, sem því líkar illa við? Þetta er einhver allra mesta vitleysa, sem ég hef lesið.

Með þessu fordæmi er Iceland Express að fara inná afar vafasama braut ritskoðunnar, með því að selja einungis efni, sem að eigendunum líkar við, ekki efni sem fólkið vill kaupa. Þekkt dæmi um svipað athæfi frá útlöndum er til dæmis sú ritskoðun, sem [Wal-Mart stendur fyrir á geisladiskum og annarri vöru í sínum búðum](http://www.pbs.org/itvs/storewars/stores3_2.html#censor). Sú ritskoðun fer fram með nákvæmlega sömu formerkjum, það er að Wal-Mart þykist vera að gera það, sem að viðskiptavinirnir vilja. Sem er náttúrulega tómt bull. Eflaust er einhver hópur viðskiptavina, sem fer í fýlu yfir því að sumir hlutir séu til sölu, en það er ekki hægt að réttlæta ritskoðun með því. Ég vil til að mynda helst ekki að Man U bolir séu til sölu í búðum, en það myndi engum verslunum detta í hug að hætta að selja þær treyjur bara vegna þess að ég fæ sviða í augun þegar ég sé þær treyjur inni í versluninni.

Iceland Express er ekki að gera þetta til hagsbóta fyrir sína viðskiptavini. Svo einfalt er það. Ég vona að fólk sjái þetta bara fyrir það, sem það er í raun. Flugfélag ritskoðar það, sem það selur, og reynir svo að nýta sér ritskoðunina sér til hagsbóta með því að þykjast vera einhverjir sérstakir siðferðispostular.

Fashion dos and don'ts

*Jæja, þá er komið að nýjum lið hérna á síðunni: Tískuhorn Einars.*

*Hérna er ein ráðlegging til íslenskra karlmanna.*

Það virðist vera svo að Capri buxur séu að verða vinsælli meðal íslenskra karlmanna. Þetta hefur verið að gerast smám saman síðustu ár, en núna í sumar virðist þetta vera voðalega vinsælt.

Allavegana, gott og vel að karlmenn skuli ganga í Capri buxum. En ef þeir ætla að gera slíkt, þá má EKKI, ég endurtek EKKI, ég endurtek aftur EKKI ganga líka í strigaskóm og háum sokkum! Til dæmis svona

Neibbs, ef menn ætla að ganga í svona buxum þá eiga þeir annaðhvort að sleppa sokkunum eða vera í sandölum. [Like so](https://www.eoe.is/myndir/SanFran-NY-Vegas/Pages/IMG_3143.html).

Takk fyrir.


Annars getiði hérna lært að [rífa í sundur símaskrá](http://www.sandowplus.co.uk/Competition/Coulter/Stunts/stunts1.htm#1). Þetta gæti komið að gagni seinna. Ég er að spá í að æfa mig í þessu og svo næst þegar ég fer á stefnumót ætla ég að vera með símaskrá í bílnum. Ef allt er að fara til fjandans tek ég upp símaskrána, öskra, ber mér á brjóst, ríf svo símaskrána í sundur og heilla þar með stelpuna uppúr skónum.

Ég get svo svarið það, ég ætti að stofna ráðgjafaþjónustu.

Ný heimasíða

Jæja, þá er ég loksins búinn að klára heimasíðuverkefnið, sem ég tók að mér fyrir nokkrum mánuðum. Síðan er fyrir [fyrirtækið](http://www.danol.is/), sem ég vinn hjá dags daglega.

Útlitið er reyndar ekki hannað af mér, heldur af spekingunum í Vatíkaninu, sem er auglýsingastofan, sem ég vinn langmest með í vinnunni. Ég fékk útlitið í hendurnar fyrir ansi mörgum vikum, en hef dregið það lengi að klára síðuna. Aðallega vegna þess að ég er í fullri vinnu, á auk þess veitingastað og reyni að eiga líf fyrir utan þessa tvo hluti, þannig að það var ekki auðvelt að smella heimasíðugerð þar á milli. En allavegana, þið getið skoðað [síðuna](http://www.danol.is). Þar er m.a. þessi [ljómandi skemmtilega](http://www.danol.is/starfsfolk/004286.php) mynd af mér. Ég þarf að reyna að brosa oftar á myndum. Hef verið alltof alvarlegur hingað til. Glotti í mesta lagi. Jamm


Samkvæmt [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/), þá hlustaði ég 277 sinnum á Eels í síðustu viku. Það tel ég vera prýðis árangur. Það var kominn tími til að einhver færi að gefa Dylan smá samkeppni. Eels og Neil Young koma þar sterkir inn.

Klappstýrur

Ég [elska Bandaríkin](http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/4515377.stm). 🙂


Annars er ég búinn að vera inni í allan dag í vinnunni. Varð að reyna að klára eitthvað af þeim verkefnum, sem höfðu hlaðist upp meðan ég var úti. Það er einsog líkaminn minn hafi skynjað að það væri frídagur og sé svo að mótmæla þessari tölvuvinnu með því að gefa mér massívan hausverk.

Ekki gott.

Á föstu?

Vissir þú að af 17 þáttakendum í Ungfrú Reykjavík, þá eru 15 á föstu? Það er 88% hlutfall. [Sumir hlutir breytast aldrei](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/)

Annars, þá er ég ekki nándar nærri því jafn upptekinn af fegurðarsamkeppnum og efnistök á þessari síðu að undanförnu gefa til kynna. Ég hef bara svo lítið til að skrifa um. 🙂

Damn shit

Ég verð að játa að mér finnst þetta dálítið fyndið. Einhver gaur [tók sig til og fjarlægði](http://www.blog.ni9e.com/archives/2005/03/explicit_conten_1.html) allt úr laginu Straight outta Compton með N.W.A. *nema* blótsyrðin. Þannig að [þessi úrklippa](http://ni9e.com/nwa/straight_outta_compton_EDITED.mp3) er samansafn af öllum blótsyrðum í laginu. Nokkuð gott.


Annars mæli ég með piparsteikinni á Vegamótum. Fékk mér svoleiðis í kvöld. Það væri að ég held ágætis regla að fá sér alltaf steik á fimmtudögum. Af hverju datt mér þetta ekki fyrr í hug?

Fyrir utan það, þá veit ég hreinlega ekki hvað ég á að skrifa um. Er alveg stopp þessa dagana.

Jú, ég á að halda matarboð á laugardaginn, en veit ekkert hvað ég á að elda. Einhverjar hugmyndir?