Ferðasögur

Ég elska ferðabækur og þá sérstaklega ferðabækur eftir Bill Bryson. Ég hef lesið stærsta hlutann af bókunum hans, þar meðtalið [Lost Continent](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0060920084/qid=1106502191/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8830672-3264159?v=glance&s=books&n=507846) þar sem hann ferðast um Bandaríkin og [Neither here nor there](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0380713802/ref=pd_sim_b_2/102-8830672-3264159?%5Fencoding=UTF8&v=glance), þar sem hann rifjar upp bakpokaferðalagið hans um Evrópu. Þegar ég er á ferðalagi vegna viðskipta á ég það til að leiðast inní flugvalla bókabúðir og kaupa bækurnar hans. Á óspennandi viðskiptaferðalögum er yndislegt að láta sig dreyma um meira spennandi ferðalög en dagsferðir til Noregs.

Í Póllandsferðinni kláraði ég [In a Sunburned Country]( http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0767903862/ref=pd_sim_b_4/102-8830672-3264159?%5Fencoding=UTF8&v=glance), sem er ferðasaga Brysons frá því í Ástralíu. Ólíkt fyrri bókunum, þá er hann í þessari bók of heillaður af landi og þjóð til að vera jafn kaldhæðinn og vanalega. Bryson kolféll nefnilega fyrir Áströlum og landi þeirra. Og hann er alveg einstaklega góður í að lýsa kostum þeirra og í raun féll ég alveg fyrir Ástralíu bara af því að lesa bókina. Samkvæmt honum þá er Ástralía algjör paradís, full af hamingjusömu fólki, sem lifa í landi, sem er eitt hið ríkasta í heimi og njóta þess að hafa nærri fullkomið veður allan ársins hring. Ég get svo svarið það að oft á tíðum langaði mig að láta bókina niður og kaupa mér flugmiða beint til Sydney.

Ég hef reyndar kynnst nokkrum Áströlum um tíðina og þeir eiga það allir sameiginlegt að þeir geta ekki hætt að tala um Ástralíu. Þeir elska landið sitt og eru óendanlega stoltir. Þeir Ástralar, sem ég hef kynnst, eru einsog gangandi landkynning allan sólarhringinn. Þannig að það hlýtur að vera eitthvað verulega spes við þetta land. Mig langar allavegana að fara!


Hef annars klárað nokkrar bækur að undanförnu, sem eru þess virði að fólk lesi.

[What’s the matter with Kansas](http://www.amazon.com/exec/obidos/ASIN/0805073396/qid=1106502323/sr=2-1/ref=pd_ka_b_2_1/102-8830672-3264159) er frábær pólitísk bók, sem reynir að skýra hvernig Repúblikanar hafa smám saman náð völdum í miðríkjum Bandaríkjanna. Hún fjallar um það hvernig þeir fátækustu í landinu eru oft á tíðum dyggustu kjósendur Repúblikana, einungis vegna þess að fólk kýs útfrá trúarskoðunum í stað efnahagslegra ástæðna. Margt af þessu fólki hefur misst trúna á að stjórnvöld hjálpi við að bæta efnahagsástand þeirra og vona þess í stað að stjórnvöld beiti sér fyrir því að koma gildismati þeirra yfir á aðra. Þess vegna kýs þetta fólk Repúblikana, en efnahagsstefna þess flokks er þessu fólki beinlínis fjandsamleg.

Moral Values, sem þetta fólk telur mikilvægast allra málefna, breytist svo aldrei. Hollywood myndir halda áfram að versna, Howard Stern heldur áfram að vera vinsæll, fóstureyðingar eru ennþá löglegar og svo framvegis. Það eina, sem fólk hefur uppskorið eftir stuðninginn við Repúblikana eru skattalækkanir, sem hygla þeim ríkustu. Eða svo segir allavegana höfundurinn, Thomas Frank.

Las einnig [The Five People you meet in heaven]( http://www.amazon.com/exec/obidos/ASIN/0786868716/qid=1106502364/sr=2-1/ref=pd_ka_b_2_1/102-8830672-3264159), sem er góð. Já, og svo er [Moneyball](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0393324818/qid=1106502630/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8830672-3264159?v=glance&s=books&n=507846) frábær, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á baseball og viðskiptum.

Nei, Hannes, nei

Jæja, þá er komið að því að veita hin árlegu verðlaun [eoe.is](https://www.eoe.is) fyrir leiðinlegustu frétt ársins. Verðlaunin í ár hlýtur:

**Öll umfjöllun um bók Hannesar Hólmsteins um Halldór Laxness!!!**

Jiminn eini, hvað þetta er þreytt umræða. Var ekki nóg að eyða síðustu jólum í þetta röfl. Rifrildi á milli bókmenntafræðinga er ekki athyglisvert fréttaefni, sama hverjir eiga í hlut. Takk fyrir.

Uppáhaldsbækurnar mínar

Eftir að ég útskrifaðist úr skóla hef ég verið alltof latur við að lesa. Þannig að sennilega litast þessi listi mikið af þeim bókum, sem ég las í háskóla og á ferðalögum, sem ég hef verið á undanfarin ár.

10. Faust – Goethe – Nei, reyndar þá fannst mér hún hrikalega leiðinleg. Ég er bara ennþá stoltur að hafa komist í gegnum hana og skilið allavegana meirihlutann.
9. Nóttin- Eli Wiesel
8. Veröld ný og góð – Aldous Huxley
7. Dagur í lífi Ivan Denisovich – Aleksandr Solzhenitsyn
6. 1984 – George Orwell
5. Eugene Onegin – Aleksandr Pushkin – Ég hef aldrei verið hrifinn af ljóðum. Samt er þessi bók í uppáhaldi hjá mér, en hún er skáldsaga í ljóðaformi. Þurfti að lesa hana fyrir bókmenntatíma og það tók mig óratíma að komast í gegnum hana, en hún var þó sannarlega vera þess virði.
4. Bjargvætturinn í grasinu – J.D. Salinger
3. Glæpur og Refsing – Fyodor Dostoevsky – Reyndi þrisvar að klára bókina en komst aldrei nema á blaðsíðu 50. Tókst loksins að klára hana fyrir um ári og varð heillaður. Dostoevsky skyggnist á ógleymanlegan hátt inní hugarheim morðingja.
2. Lygn streymir Don – Mikhail Sholokov – Er eiginlega í jafn miklu uppáhaldi hjá mér og 100 ára einsemd. Stórkostleg bók, sem kveikti áhuga minn á Rússlandi svo um munaði. Samt virðist bókin vera alveg gleymd. Hún fæst nánast hvergi. Kennarinn minn í rússneskum bókmenntum þurfti að ljósrita bókina fyrir okkur, því hún var hvergi fáanleg!
1. 100 ára einsemd – Gabriel Garcia Marques – Engin bók hefur fengið mig til að gersamlega gleyma öllu í kringum mig líkt og 100 ára einsemd. Las hana þegar ég var á ferðalagi um Suður-Ameríku. Ótrúlegasta bók, sem ég hef nokkurn tímann lesið. Hrein snilld!

Eflaust er þessi listi litaður um of af bókum, sem ég hef lesið í tengslum við skólann (og kannski full rússneskur), þannig að bækur, sem ég las mér meira til skemmtunnar á árum áður fá minna vægi. En svona lítur þetta allavegana út í dag.

Ó Jón

Jens PR skrifar góðan pistil á síðuna sína um bókina hans Jóns Baldvins en hann er búinn að vera að eyða síðustu dögum í að lesa bókina.

Ég gaf einmitt pabba mínum bókina í jólagjöf enda hef ég grun um að hann sé krati inn við beinið. Ég og Jens erum náttúrulega sálufélagar í aðdáun okkar á Jóni Baldvini og því hlakka ég mikið til að lesa bókina (sem var önnur ástæða fyrir því að ég gaf pabba hana í jólagjöf smile

Annars er pistillinn hans PR fín lesning. Hann skrifaði líka áður um það að bókin, sem hafði mest áhrif á Jón Baldvin væri Hægt líður áin Don eftir Nóbelsverðlaunahafann Mikhail Sholokov. Það er einmitt uppáhaldsbókin mín (ásamt Hundrað ára einsemd eftir Garcia Marques) og á tímabili talaði ég (einsog Jens minnist á) um fátt annað um þá bók. Kannski að ég skrifi um hana á þessari síðu seinna.

Glæpur og refsing

Í fríinu mínu tókst mér loksins að klára að lesa Glæp og refsingu eftir Fyodor Dostoevsky. Þetta er kannski ekki ýkja merkilegt nema fyrir það að ég byrjaði að lesa þessa bók fyrir fjórum árum.

Ég keypti bókina fyrst á götumarkaði í Buenos Aires. Þar, í einhverju brjálæði, hélt ég að ég myndi fljúga í gegnum spænska þýðingu á bókinni, en ég gafst upp eftir um 100 blaðsíður og byrjaði að lesa styttri spænskar bækur, svo sem Animal Farm.

Ég var þó alltaf hálf svekktur yfir því að hafa gefist uppá bókinni. Fyrir um tveim árum las ég svo í Northwestern dagblaðinu viðtal við uppáhaldsprófessorinn minn, Irwin Weil, sem kenndi mér sögu Sovétríkjanna fyrir nokkrum árum. Í viðtalinu sagði Weil frá því hvernig hann heillaðist fyrst af Rússlandi. Hann var nemandi við University of Chicago þegar hann keypti sér á föstudegi bókina Glæp og refsingu. Hann tók hana með sér heim á heimavistina og byrjaði að lesa hana um kvöldið. Hann var svo heillaður af bókinni að hann hætti ekki að lesa fyrr en hann var búinn með bókina en það var á laugardagseftirmiðdegi. Eftir að hafa lesið bókina var hann svo staðráðinn í að læra rússnesku og hefur hann helgað ævi sinni rússneskri sögu.

Eftir að hafa lesið viðtalið varð ég aftur órólegur og fannst mér að ég ætti nú að drífa mig í að lesa bókina. Um jólin gaf Hildur mér svo eintak af enskri þýðingu bókarinnar. Ég byrjaði strax að lesa hana en einhvern veginnn tókst mér aldrei að klára hana… þangað til í fríinu fyrir um þrem vikum.

Allavegana, þá er bókin hrein snilld. Hún fjallar um Raskolnikov, sem er stúdent í St. Pétursborg. Hann er sannfærður um að allir merkustu menn mannkynssögunnar hafi þurft að fórna öðrum lífum til að ná sinni stöðu sem merkismenn sögunnar. Hann er sannfærður um að hann þurfi að taka líf annarra til þess að hann geti talist meðal þeirra manna, sem hann lítur upp til.

Snilligáfa Dostoevskys er augljós af því hvernig hann lýsir tilfinningum Raskolnikovs, hvernig hann reynir að sannfæra sjálfan sig um réttmæti glæpsins og hvernig hann glímir við sektina og hvernig ástin fær hann til að viðurkenna það að hann hafi gert eitthvað rangt.

Well, my name is Ernest in town and Jack in the country

Ég fór með þrem vinkonum mínum í bíó á sunnudag. Þær voru búnar að velja myndina og fékk ég að fljóta með. Við sáum The importance of being Earnest, sem er byggð á leikritinu eftir Oscar Wilde.

Þessi mynd var nokkuð góð en hún minnti mig náttúrulega á Þorstein Marínósson, enskukennara í Verzló. Allir nemendur í mínum árgangi voru látnir lesa þetta skemmtilega leikrit. Þorsteinn átti oft erfitt með að skilja áhugaleysi nemenda enda fannst honum, réttilega, þetta mjög fyndið leikrit. Þorsteinn átti því til að leika öll hlutverkin í leikritinu með miklum tilþrifum. Alltaf þegar ég sá Judi Dench í myndinni minnti hún mig á leikræna tilburði Þorsteins þegar hann las hlutverk Lady Bracknell.

Annars finnst mér alltaf hæpið að gera kvikmyndir eftir leikritum. Mig minnir að Dial M for Murder hafi verið gerð eftir leikriti og var það alltaf frekar augljóst, þar sem allir atburðirnir áttu sér stað á sama staðnum. Samt tókst þessari mynd að gera nokkuð vel úr leikriti Wilde.

Manfred

I gaer var eg ad leita ad upplysingum um “Manfred” eftir Lord Byron. Su leit bar litinn arangur, en eg endadi hins vegar inna thessari sidu. Sidan tilheyrir einhverjum kraftakarli, sem heitir Manfred Hoeberl. Hann kvedst vera med staerstu upphandleggi i heimi. Sidan er einkar athyglisverd. Eg maeli serstaklega med ljodi, sem einn addaandi sendi honum. Hver tharf a Byron ad halda, thegar madur hefur svona snilld.

Half.com

Ég verð að segja eins og er að mér finnst Half.com vera einhver allra besta síðan á netinu. Ég er nokkuð lengi búinn að vera að leita að eintaki af uppáhaldsbókinni minni, sem er Quiet Flows the Don, eftir Mikhail Sholokov. Hún er nær alls staðar “out of print”. Mér tókst loksins að finna eitt eintak á half.com. Eintakið er notað, en það sést varla á bókinni. Og ofan á allt, þá kostaði hún bara 10 dollara, þrátt fyrir að hún væri “hard cover”. Hreinasta snilld.

Gogol

Á morgun er ég að fara í próf í rússneskum bókmenntum. Viðfangsefnið er hinn mikli snillingur Nikolai Gogol. Ég á eftir að klára nokkra kafla af meistaraverkinu Dead Souls (ef þér leiðist, þá getur þú lesið alla bókina á þessari síðu).

Einnig á ég eftir að klára Taras Bulba, sem er úr sögusafninu Mir Gorod. Í tíma í gær horfðum við á myndina Taras Bulba, með Yul Brynner í aðalhlutverki. Það var afskaplega léleg mynd, en sagan er samt sem áður frábær.