Meðmæli

Fyrst ég er byrjaður að mæla með efni á þessu bloggi þá get ég haldið áfram að tína til það sem ég hef elskað síðustu mánuði.

Freedom eftir Jonathan Frantzen er frábær bók – sú besta sem ég hef lesið í mörgu ár. Ég elskaði The Corrections – las hana á einhverju ferðalagi fyrir nokkrum árum og var því spenntur fyrir Freedom. Ég og Margrét lásum hana bæði í Indlandsferðinni og við vorum bæði mjög hrifin. Ef þú lest bara eina bók á árinu, þá er Freedom góður kostur.

Besta bíómynd sem ég hef séð síðustu vikur er 50/50. Frábær mynd þar sem Joseph Gordon-Levitt leikur 27 ára gamlan strák sem fær krabbamein. Seth Rogen leikur besta vin hans og Anna Kendrick er frábær sem læknir hans (hún var frábær í Up in the Air og ekki síðri í þessari mynd).

Já, og ég held að ég hafi ekki skrifað um það á þessu bloggi en síðasta sería af Curb Your Enthusiasm (númer átta) er stórkostleg. Ég er á því að þetta séu fyndnustu sjónvarpsþættir í heimi . Sería 7 þar sem hann safnar saman Seinfeld leikurunum var ekkert rosalega góð að mínu mati, en áttunda serían, sem gerist að hluta til í New York, er frábær.

Steve Jobs ævisagan

Ég kláraði að lesa Steve Jobs ævisöguna í síðustu viku. Ég er búinn að vera að melta bókina síðan þá og líka lesið slatta af efni og hlustað á þætti um bókina.

Niðurstaða mín var svipuð og nokkurra Apple nörda, sem ég hef hlustað á – það er að bókin olli vonbrigðum. Walter Isacson, sem skrifaði bókina, var augljóslega lítið meðvitaður um tækni- og tölvumál og það er greinilegt af bókinni að hann hafði ekki áhuga á mörgu því sem Jobs var að gera. Hlutir, sem ég hefði viljað komast að, eru hundsaðir í bókinni og margt skilið eftir óútskýrt. Það er að mörgu leyti sorglegt því enginn mun nokkurn tímann hafa sama aðgang að Steve Jobs og Isacson hafði.

Það er í rauninni furðulegt hversu lítinn áhuga Isacson virðist hafa haft á því að rannsaka Steve Jobs og skapgerðarbresti hans. Jobs er augljóslega snillingur og einn merkasti framkvæmdastjóri og frumkvöðull allra tíma. En hann var líka afskaplega gallaður persónuleiki, sem var vondur við starfsfólk sitt og fjölskyldu. Maður sem sat heima á föstudagskvöldum og sendi niðrandi pósta á tölvublaðamenn bara af því að þeir væru fúlir yfir því að Apple gerðu eitthvað vitlaust. Isacson kafar aldrei dýpra og reynir að skilja Jobs eða hvað veldur þessu. Af hverju er Jobs miður sín kvöldið sem að iPad er kynntur bara af því að nokkrir aðilar skrifa á netinu að það vanti USB tengi á iPadinn?

Ég var mest spenntur yfir því að lesa um tímabilið frá því að Jobs tók aftur við Apple, því sá tími hefur verið mikið leyndarmál og lítið lekið út frá Apple. En umfjöllun Isacson um þann tíma er afskaplega takmörkuð. Farið er í gegnum söguna vöru eftir vöru, en litlu bætt við það sem við vissum ekki nú þegar.

Það eru auðvitað hlutir í þessari sögu sem eru nýjir og ég mæli með bókina fyrir alla þá sem hafa áhuga á Apple, en ég get ekki forðast þá hugsun að Steve Jobs hafi tekið ranga ákvörðun þegar hann réð Isacson í þetta verkefni og að Isacson hafi misst af einstöku tækifæri til að kafa dýpra í feril og persónu þessa merka manns.

Annars mæli ég með podcast hjá John Siracusa þar sem hann og Dan Benjamin ræða bókina og fara yfir margt af því sem mér finnst vera slæmt við bókina.

Helgin og bækur

Ég á það til að taka bókalestur í kippum og lesa svo ekkert í margar vikur. Eftir [Skotlandsferðina](http://eoe.is/gamalt/2007/08/09/20.42.53/) talaði ég víst um það að ég ætlaði að skrifa um þær bækur sem ég las þar. Það varð eitthvað lítið úr því.

En allavegana, ég las nokkrar bækur en þetta var það skemmtilegasta sem ég las í Skotlandsferðinni:

[How to talk to a widower](http://www.amazon.com/How-Talk-Widower-Jonathan-Tropper/dp/0385338902/ref=pd_bbs_sr_1/105-8985785-3863669?ie=UTF8&s=books&qid=1192989432&sr=8-1) eftir Jonathan Tropper er frábær. Hún fjallar um strák á mínum aldrei, Doug Parker, sem missir eldri eiginkonu sína í flugslysi. Hann á í erfiðleikum með að hefja líf sitt á ný, sem felur það með sér að ala upp unglingsstrák, sem að eiginkona hans átti. Hann skrifar vinsæla pistla í tímarit um vandamál sín en á samt í vandræðum með að gera eitthvað annað í lífinu en að syrgja eiginkonu sína.

Smám saman neyðir þó systir hans hann til að reyna að hitta aðrar konur og hefja líf sitt á ný. Að mínu mati frábær bók, einstaklega skemmtileg. Ég lánaði vinkonu minni bókina og var ekki alveg viss um það hvort stelpa hefði jafn gaman af henni, en hún var alveg jafn ánægð með hana. Mæli með þessari bók.

[Dead Famous](http://www.amazon.com/Dead-Famous-Ben-Elton/dp/0552999458/ref=pd_bbs_sr_2/105-8985785-3863669?ie=UTF8&s=books&qid=1192988188&sr=1-2) eftir Ben Elton. Elton er klárlega einn af mínum uppáhaldshöfundum, held að ég hafi ekki enn verið óánægður með bók eftir hann.

Þessi fjallar um það þegar að morð er framið í raunveruleikasjónvarpsþættinum Big Brother. Einn af keppendunum er drepinn í beinni útsendingu og lögreglan þarf að komast að því hver framdi morðið á meðan að tökum á þættinum er haldið áfram. Gríðarlega skemmtileg “whodunnit” saga.

* * *

Í gær hélt ég matarboð þar sem þemað var bandarískir veitingastaðir. Það reynist mér alltaf frekar erfitt að halda sjö manna matarboð hérna heima sérstaklega þar sem ég byrja aldrei að plana hlutina fyrr en klukkan 4 og þá á ég vanalega eftir að elda, taka til og leggja á borð. Í gær tókst það auðvitað ekki á tíma, en einhvern veginn tókst mér samt að búa til pasta og hrísgrjónarétt, samlokur og tvær tegundir af pizzum. Ég á í dag afganga, sem gætu fætt fótboltalið.

Ég fór ekki á Airwaves þar sem að ég kann greinilega ekki að kaupa hluti á netinu. Hélt að ég hefði keypt miðann en þegar ég ætlaði að finna kvittunina og prenta hana út þá komst ég að því að því að ég hafði ekki klárað kaupin á miðunum. Þannig að helgarplanið fór í algjört fokk, en ég var búinn að plana það að fara á hátíðina með góðu fólki. Það fór víst í algert rugl. En svona er þetta.

Bækur á ferðalagi

Á ferðalagi mínu um Suð Austur Asíu las ég slatta af góðum bókum. Á einhverju netkaffihúsinu tók ég saman lista um það sem ég hafði lesið og ákvað ég núna í hausverks-þunglyndi að klára hann. Veit ekki almennilega af hverju, en þetta eru þær bækur sem ég las á ferðalagi mínu.

[A long way down](http://www.amazon.co.uk/Long-Way-Down-Nick-Hornby/dp/0140287027/sr=8-1/qid=1170368834/ref=pd_ka_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Nýjasta bókin eftir Nick Hornby er ekki alveg jafngóð og hans fyrri bækur, en samt skemmtileg lesning.

[Pol Pot – The history of a nightmare](http://www.amazon.co.uk/Pol-Pot-NIghtmare-Philip-Short/dp/0719565693/sr=8-1/qid=1170368899/ref=sr_1_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Ævisaga um fyrrverandi leiðtoga Kambódíu eftir Philip Short. Að mínu mati frábær ævisaga, sem er í senn saga Kambódíu á tímum Pol Pot. Nær að vissu leyti að útskýra marga hluti í kringum Rauðu Khmerana.

[First they killed my father](http://www.amazon.co.uk/First-They-Killed-Father-Remembers/dp/1840185198/sr=8-1/qid=1170368990/ref=pd_ka_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Ævisaga Loung Ung, sem var aðeins 5 ára þegar Rauðu Khmerarnir marseruðu inní Phnom Penh og fjölskylda hennar var send í vinnubúðir útí sveit. Frábær saga eins af milljónum fórnarlamba Khmeranna.

[Off the rails in phnom penh](http://www.amazon.co.uk/Off-Rails-Phnom-Penh-Heart/dp/9748303349/sr=8-1/qid=1170369053/ref=sr_1_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Bókin sem ansi margir bakpokaferðalangar lásu í Phnom Penh. Fjallar um hóp af Vesturlandabúum, sem lifa í Phnom Penh og nýta sér til fullnustu auðveldan aðgang að ungum hórum og eiturlyfjum.

[Kafka on the shore](http://www.amazon.co.uk/Kafka-Shore-Haruki-Murakami/dp/0099458322/sr=8-1/qid=1170369523/ref=pd_ka_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Þessi bók var búinn að liggja inní stofu hjá mér ansi lengi, en systir mín gaf mér hana í jólagjöf fyrir einu eða tveim árum. Fyrsta bókin sem ég les eftir Murakami, og mér fannst hún alls ekki jafn æðisleg og dómarnir vildu meina. Ágætis bók, en gerði mig ekkert sérstaklega spenntan fyrir því að lesa meira eftir höfundinn.

**Ben Elton** – Og þá hefst Ben Elton hlutinn í þessum bókalestri. Það var nefnilega þannig að í Kambódíu og Víetnam voru alltaf til slatti af ljósrituðum enskum bókum á helstu túristastöðunum og þessar bækur voru oftast það eina sem maður komst í. Af einhverjum ástæðum var Ben Elton vinsælastur meðal höfunda hjá ljósriturunum og því endaði ég á því að lesa slatta af bókum eftir hann. Ég las [Blast from the past](http://www.amazon.co.uk/Blast-Past-Ben-Elton/dp/0552146641/sr=8-3/qid=1170369609/ref=pd_ka_3/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books), sem mér fannst ágæt. [Inconceivable](http://www.amazon.co.uk/Inconceivable-Ben-Elton/dp/0552146986/sr=8-1/qid=1170369746/ref=pd_ka_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) sem var mjög fyndin og sirka 100 sinnum betri en myndin Maybe baby, sem var gerð eftir bókinni. [Gridlock](http://www.amazon.co.uk/Gridlock-Ben-Elton/dp/0552773565/sr=8-1/qid=1170369779/ref=pd_ka_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – sem var fín og að lokum besta bókin, sem var [High Society](http://www.amazon.co.uk/High-Society-Ben-Elton/dp/0552999954/sr=8-3/qid=1170369808/ref=pd_ka_3/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) sem fjallar á skemmtilegan hátt um breskan þingmann, sem ætlar að flytja frumvarp um lögleiðingu eiturlyfja.

[American Psycho](http://www.amazon.co.uk/American-Psycho-Bret-Easton-Ellis/dp/0330448013/sr=8-2/qid=1170369861/ref=pd_ka_2/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Innan um franskar bækur í Luang Prabang í Laos fann ég þessa bók, sem er ágæt. Ég hafði mun meira gaman af Glamorama og Lunar Park eftir Bret Easton Ellis.

[Slaughterhouse 5](http://www.amazon.co.uk/Slaughterhouse-5-Kurt-Vonnegut/dp/0099800209/sr=8-1/qid=1170369920/ref=pd_ka_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Stríðsbækur voru vinsælar í Víetnam og þessi er auðvitað ein af þeim. Mjög góð bók.

[The Accidental Tourist](http://www.amazon.co.uk/Accidental-Tourist-Anne-Tyler/dp/0099480018/sr=8-2/qid=1170369965/ref=pd_ka_2/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Ágæt bók.

[Man and boy](http://www.amazon.co.uk/Man-Boy-Tony-Parsons/dp/0006512135/sr=8-1/qid=1170369989/ref=pd_ka_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Fín bók.

Og að lokum besta bókin: [Sorrow of War](http://www.amazon.co.uk/Sorrow-War-Bao-Ninh/dp/009948353X/sr=1-1/qid=1170370017/ref=sr_1_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) – Algjörlega frábær frásögn úr Víetnamstríðinu sögð frá sjónarhóli Víetnama. Þessi bók ásamt [The Things they carried](http://www.amazon.co.uk/Things-They-Carried-Flamingo/dp/0006543944/sr=1-1/qid=1170370074/ref=sr_1_1/202-3663922-2339061?ie=UTF8&s=books) eru bestu bækurnar sem ég hef lesið um Víetnamstríðið. Mæli með Sorrow of War fyrir alla.

Semsagt, fulltaf bókum. Ef ég ætti að mæla með einhverjum þá væri það Pol Pot ævisagan, High Society eftir Ben Elton, First they killed my father og svo Sorrow of war.

Vaknaður?

Þetta finnst mér grúví: Laugardagsviðtal Blaðsins var við Andra Snæ Magnason, [höfund Draumalandsins](https://www.eoe.is/gamalt/2006/03/31/18.23.21/). Í viðtalinu, sem fjallar um bókina, kemur þessi spurning:

Draumalandid-eoe_bladid.jpg
Já, ég er vaknaður. Og ef ég hefði haft meiri tíma, þá væri ég sennilega búinn að skrifa meira um bókina. En ég er bara búinn að vera svo skemmtilega upptekinn af öðru. Það lagast væntanlega í páskafríinu.


Hitti í gær bloggara, sem ég hef kommentað hjá og sem hefur kommentað hjá mér. Heilsaði honum ekki. Var ekki viss um hvort það væri við hæfi. Þannig að ég horfði bara asnalega á hann. Ég þarf sennilega að vera drukkinn til að heilsa fólki, sem ég þekki bara af internetinu.

Draumalandið

draum.jpgKláraði að lesa *Draumalandið* eftir Andra Snæ inná kaffihúsi hérna í Amsterdam fyrr í dag.

Ég hef svona 20 sinnum við lestur bókarinnar skrifað hjá mér punkta vegna hugmynda, sem ég fékk að pistlum og öðru. Mig langar að skrifa svo ótrúlega mikið um þessa bók og þær tilfinningar, sem hún kallaði fram hjá mér. Ég man hreinlega ekki eftir bók sem hefur breytt sýn minni á samtímamál á Íslandi jafnmikið og *Draumalandið* hefur gert. Ég veit varla hvar ég á að byrja að skrif mín um hana. Ég táraðist, varð fáránlega reiður, fylltist bjartsýni og ofsalegri svartsýni við lesturinn.

Einsog ég segi, þá veit ég ekki hvar ég á að byrja. Ég ætla því bara að biðja fólk um að *lesa* bókina. Hún er einfaldlega **skyldulesning fyrir alla Íslendinga**. Það má vel vera að ekki séu allir sammála innihaldinu, en ég held að langflestir séu sammála um að hún vekji upp gríðarlega margar og áleitnar spurningar um stjórnvöld á Íslandi.

Jafnvel þótt þú hafir ekki áhuga á stóriðju og sért orðinn drepleið/ur á blaðri um Kárahnjúka, Alcoa og allt þetta drasl. Jafnvel þótt þú hafir tapað áhuganum á þessum málum, þá er þessi bók pottþétt leið til að vekja hann upp aftur. Ég er viss um að við lesturinn munu jafnvel þeir, sem hafa engan áhuga á stjórnmálum á Íslandi í dag, vakna til lífsins.

Einsog segir í [Tímariti M&M](http://www.tmm.is/default2.asp?strAction=getPublication&intPublId=323):

>Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp vekjandi efnisatriði þessarar bókar en ég vil síður tefja ykkur frá því að lesa hana sjálfir, lesendur mínir góðir. Fáið ykkur Draumalandið, takið hana að láni á bókasafninu, kaupið hana í bókabúðinni, lesið hana við bókaborðið eða stelið henni ef þið eigið ekki fyrir henni. Þessa bók VERÐA ALLIR ÍSLENDINGAR AÐ LESA, hvort sem þeir eru fylgjandi eða mótfallnir stóriðju. Við erum vel menntuð, vel læs þjóð, við eigum rétt á þeim upplýsingum sem þarna er að finna. Það hefur verið reynt að slá ryki í augu okkar, hræða okkur með hótunum og lygum frá því að afla okkur upplýsinga. Hér eru þær allar á einum stað. Notum okkur það og tökum svo sjálfstæða ákvörðun um hvernig það draumaland á að líta út sem við viljum að Ísland sé og verði.

Drífið ykkur útá bókasafn eða útí bókabúð NÚNA! Svo getum við talað saman.

Bækur

Ég ferðast… ég les. Afrakstur síðustu ferðalaga:

**[Bonfire of the Vanities](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0330305735/qid=1142893523/sr=8-1/ref=pd_ka_1/026-3498178-0664418) – Tom Wolfe**: Frábær bók! Á furðu vel við í dag, enda ástandið á Íslandi í dag kannski ekki svo ósvipað ástandinu í New York á þeim tíma þegar bókin er skrifuð. Frábær gagnrýni á yfirborðsmennsku, græðgi og snobb. Mæli með þessari bók fyrir alla.

**[Joe College](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/031228327X/qid=1142893585/sr=2-1/ref=sr_2_3_1/026-3498178-0664418) – Tom Perrotta**: ég elskaði Little Children eftir Perrotta. Joe College er virkilega skemmtileg en ekki alveg jafn frábær og Little Children. Mæli með henni, en mæli samt enn meira með Little Children.

**[The Tipping Point](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/1586217453/qid=1142893689/sr=2-1/ref=sr_2_3_1/026-3498178-0664418) – Malcolm Gladwell**: Gladwell fjallar um það hvernig “æði” verða til í dag. Hvað veldur því að hinir ýmsu hlutir (t.d. Airwalk skór) fara frá því að vera lítil merki til þess að allir verði að eiga þá á stuttum tíma. Mæli með þessu fyrir alla, sem hafa áhuga á markaðsmálum og viðskiptum.

**[A short history of tractors in Ukranian](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0141020520/qid=1142893798/sr=2-1/ref=sr_2_19_1/026-3498178-0664418) – Marina Lewycka**: Keypti mér þessa bók þegar ég beið eftir lest í Liverpool. Fjallar um úkraínskan innflytjenda í Bretlandi, sem ákveður að giftast stelpu, sem er 40 árum yngri en hann, dætrum sínum til mikillar skelfingar. Fín afþreying.

**Rokland – Hallgrímur Helgason**: Allir vita um hvað hún fjallar. Og Hallgrímur Helgason er snillingur. Semsagt, mjög góð bók.

Apríl verður mjög busy ferðamánuður hjá mér. Næ vonandi að komast yfir einhverjar af þeim 20 bókum, sem ég er búinn að safna upp.

Bækur á ferðalagi

Þessar rútuferðir, sem ég þurfti að þola í Mið-Ameríku, urðu til þess að ég hafði talsverðan tíma til að lesa á ferðalaginu. Ég var voðalega ánægður með allar bækurnar, sem ég las. Greinilega heppinn með valið.

Allavegana, þessar bækur komst ég yfir.

[Tuesdays with Morrie](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0751529818/qid=1129925218/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl/026-0996360-0266020) – Mitch Albom: Sami gaurinn og skrifaði “Five people you meet in heaven”. Jú jú, alveg nokkrir góðir punktar varðandi lífið og allt það. En samt ekkert sérstaklega minnistæð bók.

[Little Children](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0749083042/qid=1129925244/sr=2-2/ref=sr_2_3_2/026-0996360-0266020) – Tom Perrotta: Frábær bók! Fjallar um líf ungra foreldra í úthverfi í Bandaríkjunum. Ég las bókina á met-tíma. Með skemmtilegri bókum, sem ég hef lesið að undanförnu. Mæli hiklaust með henni.

[Being There](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0553279300/qid=1129925269/sr=2-1/ref=sr_2_3_1/026-0996360-0266020) – Jerzy Kosinski: Fín bók, sem ég hélt þó að væri betri.

[The Things they Carried](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0006543944/qid=1129925292/sr=1-1/ref=sr_1_11_1/026-0996360-0266020) – Tim O’Brien: Frábært samansafn af smásögum úr Víetnamstríðinu. Ein besta stríðsbók, sem ég hef lesið. Mæli líka með þessari.

[About a Boy](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140285679/qid=1129925322/sr=2-1/ref=sr_2_3_1/026-0996360-0266020) – Nick Hornby: Ég las tvær Hornby bækur í ferðinni. Þessi er góð, en þó skemmir það umtalsvert fyrir að hafa séð myndina.

[How to be Good](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140287019/qid=1129925338/sr=1-3/ref=sr_1_2_3/026-0996360-0266020) – Nick Hornby: Fín bók, en nær samt ekki þeim hæðum, sem hinar Hornby bækurnar ná.

[Popcorn](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0552771848/qid=1129925358/sr=1-1/ref=sr_1_2_1/026-0996360-0266020) – Ben Elton: Virkilega góð bók. Svartur húmor af bestu gerð.

[On the Road](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0142437255/qid=1129925374/sr=2-1/ref=sr_2_3_1/026-0996360-0266020) – Jack Kerouac: Jensi lánaði mér þessa bók á íslensku fyrir mörgum árum, en af einhverjum ástæðum hef ég aldrei komist í gegnum hana. Var alltaf hálf svekktur yfir því og ákvað því að kaupa mér hana á ensku og lesa hana þegar ég væri á ferðalagi. Fannst það mjög við hæfi. Þegar ég loksins komst yfir fyrstu kaflana, þá er bókin frábær.

Mæli einna helst með Little Children, The Things they Carried og On The Road. En allar bækurnar eru þó tímans virði.

High Fidelity

Ég skrifaði ferðasöguna til London í gær. Hún var alltof þunglynd. Eitthvað við það hversu yndislega vel mér leið útí London hafði áhrif á mig. Veit ekki hvort ég set hana hingað inn. Ætla að bíða með hana og melta í einhvern tíma.


Útí London las ég þrjár bækur. Merkust af þeim öllum er [High Fidelity eftir Nick Hornby](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140295569/qid=1123288275/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020). Flestir hafa sennilega séð myndina, sem er algjör snilld, en ef eitthvað er þá er bókin enn betri. Ég held að ég geti óhræddur sagt að þetta sé ein af uppáhaldsbókunum mínum. Allavegana á topp 5. Ég byrjaði að lesa hana á mánudagsmorgun og hætti ekki fyrr en seint á mánudagskvöld þegar ég var búinn. Las hana úti á Leicester torgi, inná Starbucks í Covent Garden, Starbucks á Oxford street, sem og heima á gistiheimilinu. Ég hef sjaldan farið svona hratt í gegnum bók.

*Ég elskaði bókina*. Hún talaði til mín á svo margan hátt og mér fannst svo margt í söguhetjunni höfða til mín. Svo margt í hans lífi passaði við mitt.

Í grunninn fjallar hún um Rob, sem er nýhættur með kærustunni sinni. Hann reynir að gera lítið úr þeim sambandsslitum með því að rifja upp eldri sambönd, sem honum finnst hafa endað á verri hátt. Bókin fjallar svo um tilraunir hans til að komast yfir kærustuna og tilraunir hans til að reyna að ná henni aftur. Þetta hljómar kannski allt frekar sorglegt, en þetta er með fyndnustu bókum, sem ég hef lesið. Sambandsslitin verða til þess að Rob fer að hugsa um sína stöðu í lífinu. Hvort hann sé sáttur við vinnuna, vinina, sínar fyrrverandi kærustur og annað.

Þrátt fyrir að John Cusack túlki Rob frábærlega í [myndinni](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/B000055Z8M/qid=1123288307/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020), þá fann ég enga samsvörun með honum þegar ég sá myndina fyrst. Kannski var ég bara of ungur og vitlaus. Það var fyrir fimm árum síðan og ég hafði ekki uppgötvað ástarsorg nema einu sinni á ævinni og ég hafði sjálfur endað öll þau sambönd, sem ég hafði verið í. Núna er ég auðvitað eldri og reyndari og hef upplifað fleiri hliðar á samböndum. Sem er gott. (að ég held)

Þrátt fyrir að ég og Rob séum að mjög mörgu leyti ólíkir, þá fannst mér oft einsog þessi bók væri skrifuð fyrir mig. Endalaust oft stóð ég mig að því að brosa og tengja atburði bókarinnar við atburði í mínu lífi. Þetta hefur aldrei gerst jafnoft við lestur á einni bók. Á tímabili langaði mig m.a. að hringja í sumar manneskjur og spyrja viðkomandi af hverju hlutirnir enduðu á þann hátt, sem þeir enduðu. Það hefði allavegana verið fróðlegt. Ég er viss um að ef ég hefði drukkið bjór í stað kaffis með bókinni, þá hefði ég látið verða af því. 🙂

Allavegana, ég mæli með þessari bók, sérstaklega fyrir stráka. Allir strákar, sem eru komnir yfir tvítugt og hafa upplifað fleiri en eina hlið á samböndum ættu að geta fundið einhvern hluta af sjálfum sér í bókinni. High Fidelity er æði. Æði!


Hinar bækurnar, sem ég las voru [Lands of charm & cruelty](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0330333879/qid=1123288383/sr=1-1/ref=sr_1_8_1/026-0996360-0266020) og [Fever Pitch](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140295577/qid=1123288416/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020), sem er líkt og High Fidelity skrifuð af Nick Hornby. Ég ætla að fjalla um hana í sér færslu. Ég byrjaði svo að lesa [How to be Good](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140287019/qid=1123288464/sr=1-2/ref=sr_1_10_2/026-0996360-0266020), einnig eftir Hornby.

Ströndin

Meðan ég var andvaka í gær gerði ég svosem ýmsa hluti. Ég horfði á Cubs vinna baseball leik í beinni útsendingu frá Chicago og lét mig dreyma um að vera á þriðjudagskvöldi á Wrigley Field, drekkandi bjór og horfandi á baseball.

Kláraði einnig að lesa [The Beach eftir Alex Garland](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/1573226521/qid=1122383936/sr=8-1/ref=pd_bbs_sbs_1/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846). Þegar ég [spurðist](http://ask.metafilter.com/mefi/20387) fyrir um bækur tengdar Suð-Austur Asíu, þá var mælt með þessari bók. Ég hafði einhvernt tímann horft á myndina með Leo DiCaprio, en ég gafst uppá þeirri mynd eftir um klukkutíma. Bókin er umtalsvert betri. Samt öðruvísi en ég átti von á. Aðeins rólegri en ég átti von á miðað við allar lýsingarnar.

Þegar ég byrjaði að láta mig dreyma um ferðalög keypti ég fulltaf Suðaustur-Asíu tengdum bókum. Næst á dagskrá er [Lands of Charm and Cruelty : Travels in Southeast Asia](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0679742395/qid=1122384292/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl14/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846) og svo [The Things they carried](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0767902890/qid=1122384541/sr=8-1/ref=pd_bbs_sbs_1/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846)