Skráarsafn fyrir flokkinn 'Ferðalög'

Mar 10 2014

Dubai ferð 2: Hæsta bygging í heimi

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Burj Khalifa er hæsta bygging í heimi. Í raun er alveg kjánalega mikill munur á henni og þeim byggingum sem voru áður hæstar. Pýramídarnir í Giza eru um 150 metra háir og Eiffel turninn rétt yfir 300 metrar. World Trade Center turnarnir voru rétt yfir 400 metra háir og Sears turninn í Chicago er rúmlega 500 metra hár með öllum möstrum.

Ég hef lengi verið heillaður af háum byggingum. Fyrir um 15 árum fór ég uppá efstu hæð í Sears Tower sem var á þeim tíma hæsta bygging heims. Um svipað leyti fór ég svo til Toronto í Kanada þar sem að CN turninn er (sem var þá enn hærri en Sears Tower) og fór þar í utanáliggjandi glerlyftu uppá útsýnispall með glergólfi, sem er svakalegasti útsýnispallur, sem ég hef farið á.

En allavegana, CN turninn er um 550 metrar og var hæsta frístandandi bygging í heimi – það eina sem var hærra en CN turninn var sjónvarpsmastur í Norður Dakota, en því mastri var haldið stöðugu af vírum og því fékk það ekki að vera á listanum yfir hæstu frístandandi byggingar heims. Mastrið er 628 metra hátt.

Margrét og Jóhann Orri hjá Burj Khalifa.

Margrét og Jóhann Orri hjá Burj Khalifa.

Semsagt, áður en Burj Khalifa var byggður þá voru hæstu byggingar heims annars vegar 550 hár CN turn og svo 628 metra sjónvarpsmastur, sem var haldið stöðugu af vírum. Og hvað gerðu menn í Dubai? Jú, þeir ákváðu að þetta skyldi toppað. Og til þess að tryggja það að einhverjir aðrir klikkhausar myndi ekki toppa Burj Khalifa strax þá var ákveðið í sjálfu byggingaferlinu að fara enn hærra með bygginguna. Þannig að hún endaði í 828 metrum! Það er sléttum TVÖ HUNDRUÐ metrum hærra en sjónvarpsmastrið. Semsagt, menn tóku hæstu byggingu í heima og bættu oná það jafngildi þriggja Hallgrímskirkna.

Útsýni úr Burj Khalifa yfir miðbæinn og í fjarlægð má sjá Burj Al Arab hótelið

Útsýni úr Burj Khalifa yfir miðbæinn og í fjarlægð má sjá Burj Al Arab hótelið

Þess vegna er smá skrýtið að standa fyrir utan þessa byggingu því maður getur ekki alveg áttað sig á því hversu há hún er án þess að rifja upp staðreyndirnar. Kannski væri þetta enn stórfenglegra ef að 300 metra hár Eiffel turn væri þarna til samanburðar. En við dáðumst að byggingunni, tókum myndir í hæfilegri fjarlægð og fórum svo uppá útsýnispallinn, sem var bæði inni og úti. Hann er þó “eingöngu” á 124. hæð (452 metrar) af um 160 hæðum í byggingunni. Útsýnið er skiljanlega gott yfir þessa furðulegu borg og þar á meðal er fínt útsýni yfir heims-eyjarnar rétt utanvið ströndina.

* * *

Einsog í svo mörgu öðru í Dubai virðist tilgangurinn á bakvið bygginguna vera fyrst og fremst að skapa umtal um Dubai og að laða að ferðamenn. Og það virkaði allavegana á mig því ég hef verið forvitinn um þessa borg þrátt fyrir að ansi margt við uppbyggingu hennar sé mér kannski ekki að skapi.

En það er ekki hægt að neita því að Dubai er að mörgu leyti frábær ferðamannastaður ef maður veit hvað maður vill fá útúr borginni. Ef maður vill sól um miðjan vetur, frábær hótel, frábærar búðir og líka eitthvað spennandi og skemmtilegt að sjá, þá er Dubai klárlega staðurinn. En ókostirnir fyrir ferðafólk eru líka margir. Fyrir það fyrsta er þetta dýr áfangastaður – þó að maður fái vissulega verðmæti fyrir peningana í hótelgistingu og mat. Annar gallinn er sá að áfengi er bara selt á hótelveitingastöðum, sem er ekki lítið pirrandi. Það er leiðinlegt að geta ekki fengið sér einn bjór á veitingastað eftir langan dag.

En eftir 10 daga í borginni get ég allavegana sagt að þessi borg er einstök. Hún er klárlega ekki fyrir alla, en samblandan af veðrinu, einstakri þjónustu og merkilega spennandi hlutum að sjá, gerir hana allavegana að spennandi valkosti.

Skrifað í Stokkhólmi kl 20.44

Comments Off

Feb 25 2014

Dubai ferð 1: Hin ótrúlega og sturlaða Dubai borg

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Hvernig á að lýsa fyrirbærinu Dubai?

Jú, við fjölskyldan erum til að mynda á hóteli við smábátahöfnina í Dubai. Hótelið er staðsett á landi sem er núna eyja, en var hluti af meginlandinu fyrir 11 árum. Sjónum var veitt inní landið og úr því varð skurður, höfn og hluti landsins breyttist í eyju. Þar er núna hótelið okkar ásamt tugum annarra hótela og eftir 1-2 ár er gert ráð fyrir að um 120.000 manns muni búa hérna.

Hótelið okkar samanstendur af tveimur 48 hæða turnum. Það var byggt á tveimur árum frá 2003-2005. Ef maður fer uppá efstu hæð sér maður vel yfir Palm Jumeirah, sem er samansafn af eyjum, sem voru búnar til með því að moka sandi af botni Persaflóa, sem að saman mynda risavaxið pálmatré.

Maður getur tekið sporvagn frá rót pálmatrésins og alveg uppí topp þar sem að fyrir er Atlantis hótelið með sínum 1.537 herbergjum og vatnsrennibrautagarði og sædýrasafni í garðinum. Já og þar sem hægt er að bóka stærstu svítuna í eina nótt fyrir 2,3 milljónir íslenskra króna. Auk Atlantis eru 27 önnur hótel á þessum eyjaklasa, strandlengja þessa pálmatrés er 520 kílómetrar og þetta pálmatré var ekki til fyrir 12 árum! Já, og þetta er ekki eina pálmatréið því að fyrir sunnan er Palm Jebel Ali, sem á þegar það er tilbúið að vera heimili um 250.000 manna. Ef menn finna sér ekki ásættanlegan stað á pálmatrjánum þá er alltaf hægt að kaupa eina eyju í heims-eyjaklasanum, sem að er að mestu leyti tómur rétt utan við miðbæ Dubai.

* * *

Frá hótelinu er líka nokkuð auðvelt að taka metro-lest (sem opnaði fyrir 3 árum) niður í miðbæ Dubai þar sem hægt er að fara uppí hæstu byggingu heims, Burj Khalifa, eða eyða deginum í stærstu verslunarmiðstöð heims.

Dubai er einsog kapítalisminn að hlaupa sigurhring öskrandi að allt sé hægt með nógu miklum peningum, krafti og olíu.

Þetta er heillandi borg, ekki síst útaf öllum þessu brengluðu andstæðum. Af þeim borgum sem ég hef heimsótt líkist hún mest Las Vegas. Hún á sannarlega nær ekkert sameiginlegt með öðrum múslimaborgum sem ég hef heimsótt fyrir utan konur í hijab og stöku bænaköll.

Dubai er óður til kapítalismans. Hérna er ekki bara hægt að kaupa Rolex, heldur eru öll Rolex úrin með demöntum og úr gulli. Hér er ekki bara hægt að kaupa Fendi og Dior föt, heldur líka Fendi og Dior barnaföt og rúmföt. Ég hef labbað framhjá þremur Vertu búðum (Vertu selja drasl síma sem eru blingaðir upp og seldir fyrir einhverjar milljónir). En í verslunarmiðstöðinni slökknar samt á tónlistinni nokkrum sinnum á dag til að hægt sé að hlusta á bænaköll og réttarkerfið er að vissu leyti byggt á sharia lögum þar sem að vitnisburður kvenna gildir bara 50%.

* * *

Dubai er eitt af hinum sjö furstadæmum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Dubai er stærsta borgin og er ásamt Abu Dhabi (sem er langstærsta furstadæmið að flatarmáli) langmikilvægust furstadæmanna. Hér búa um 2 milljónir manns, en í furstadæmunum öllum búa rúmlega 8 milljónir. Landið liggur á norðausturhluta Arabíuskaga – Dubai er umlukið Abu Dhabi í vestri og suðri og Sharjah furstadæminu í austri – en sjálf Sameinuð Arabísku Furstadæmin eiga landamæri að Sádí Arabíu í suðri og Oman í austri. Fyrir norðan er svo Persaflói og hinum megin við hann er Íran.

Landið er eitt stærsta olíuveldi heims, en yfirvöld hafa beitt sér mikið fyrir því að landið þurfi ekki að treysta eingöngu á olíu og því hefur ferðamannaiðnaðurinn vaxið gríðarlega. Stór hluti af því hefur verið að auglýsa Dubai og Abu Dhabi með alls kyns merkilegum hlutum einsog að byggja hæsta turn í heimi eða að breyta valdahlutföllum í breskri knattspyrnu með því að dæla peningum inní fótboltalið þar. Aðeins um 15% íbúa í Dubai eru innfæddir emíratar (er það orð? ég finn ekki íslenska þýðingu á emirati) á meðan að 74% íbúa koma frá Indlandi, Pakistan og Bangladesh!

* * *

Það er vissulega auðvelt að slappa hér af á góðu hóteli, sem gæti þess vegna verið á Tenerife eða öðrum evrópskum túristastöðum. En það er einmitt þessar ótrúlegu öfgar í einu og öllu, sem gera Dubai að svo spennandi borg.

Við Margrét og Jóhann Orri höfum verið hérna í viku og notið tímans. Við Margrét eigum von á okkar öðru barni í maí og því vildum við stað þar sem við gætum slappað af en einnig séð eitthvað spennandi. Því hefur ferðin verið blanda af hangsi við sundlaug og því að skoða alla geðveikina sem er Dubai. Hér er um 28 stiga hiti, sem er talsvert þægilegra en þegar ég millilenti hérna í 43 stiga hita fyrir nokkrum árum.

Við höfum labbað mikið en þrátt fyrir að borgin hafi byggst upp á allra síðustu árum og allt sé frekar miðstýrt þá er ótrúlega lítið hugsað fyrir gangandi ferðamönnum. Það er dálítið einsog borgin sé hönnuð með það að sjónarmiði að maður geti farið úr bíl inní loftkæld hús án viðkomu á gangstétt.

Þetta höfum við rekið okkur á nokkrum sinnum þegar við höfum hundsað ráð hótelstarfsmanna og ákveðið að labba í stað þess að taka leigubíl þegar við ætlum að fara á staði sem virðast ekki vera nema nokkur hundruð metra frá hótelinu. En þar sem að borgin er hönnuð fyrir bíla með 13 akreina hraðbrautum í gegnum hana endilanga, þá getur það reynst erfitt. Kannski er þetta ágætt þegar að hitinn er svo óbærilegur að allt lífið snýst um að fara úr einu loftkældu boxi í annað, en þegar að hitinn er jafn þægilegur og núna þá er það hálfger sóun.

Og það er reyndar ákveðinn rauður þráður í gegnum þetta allt að einhvern veginn sé maður partur af einhverju vandamáli með því að vera hérna. Það er ekkert vit í því að byggja skýjakljúfa úr stáli, steypu og gleri í miðri eyðimörkinni. Og auðvitað eiga ekki að vera ferskvatnssundlaugar 100 metra frá Persaflóa og hvað þá að hér eigi að vera gras á golfvöllum. Yfirvöld eru að reyna að breyta og bæta þetta með metnaðarfullum verkefnum, sem að vonandi hjálpa til. Þegar ég sá innanhús skíðabrekkuna í dag þá fannst mér þetta allt í einu vera komið skrefi of langt. Ég gat ekki eytt pening í það að skíða í loftkældu húsi í eyðimörkinni.

En það er einmitt öll þessi klikkun sem gerir þetta allt svo spennandi og skemmtilegt. Allavegana í nokkra daga.

Skrifað í Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum klukkan 00.15

Comments Off

Jun 16 2013

Sumarferðalag um Alpana

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Við fjölskyldan erum að reyna að púsla saman sumarfríinu okkar og á planinu er sumarferðalag um alpana. Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að heimsækja austurrísku alpana yfir sumartímann.

Við ætlum að keyra frá Svíþjóð niðureftir og vera í um 3 vikur í kringum alpana og enda hugsanlega við Garda vatn á Ítalíu. Ef þú hefur ferðast á þessum slóðum yfir sumartíma, þá hef ég nokkrar spurningar.

 1. Eru einhverjir staðir í Ölpunum sem þú myndir mæla sérstaklega með? Við höfum áhuga á styttri göngum, fallegu landslagi, að hjóla og einfaldlega slappa af í fallegri náttúru. Við höfum ekki séstaklega mikinn áhuga á að vera í borgum í þetta skiptið. Við verðum með 15 mánaða gamlan son okkar með.
 2. Við ætlum að keyra frá Stokkhólmi til Neuschwanstein kastala í nokkrum þrepum. Eru einhverjir staðir, sem þú mælir með á leiðinni?
 3. Hvernig er Garda vatn? Hvar á maður að gista? Hvað á maður að gera?

Enn sem komið er er ég bara búinn að merkja nokkra staði inná kortið til að fara á: Grossglockner vegurinn, Neuschwanstein kastali, Krimmler fossarnir og Garda vatn. En við höfum 3 vikur og því væri eflaust hægt að fjölga áfangastöðum án þess að vera of stutt á hverjum stað.

Comments Off

Jul 08 2012

Hvar er Matt? Árgerð 2012

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Ég hef áður tengt á myndbönd, sem að Matt Harding hefur gert af sér dansandi á hinum ýmsu stöðum í heiminum.   Allt frá því að hann setti inn fyrsta mydnbandið af sér árið 2005.  Myndböndin eru alls fjögur og staðirnir sem hann dansar á orðnir ansi margir.

Hérna er svo 2012 myndbandið komið og dansarnir eru orðnir aðeins betur þjálfaðir og fleira fólk sem aðstoðar.  Þessi myndbönd koma mér alltaf í gott skap og eru svo sannarlega innblástur fyrir ferðalög.

Comments Off

Apr 07 2012

Veitingastaðir í Stokkhólmi

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Ég hef lengi ætlað að setja saman lista um uppáhalds veitingastaðina mína í Stokkhólmi.  Ég og Margrét höfum borðað gríðarlega oft úti eftir að við fluttum hingað.  Við erum bæði miklir áhugamenn um mat og okkur þykir fátt skemmtilegra en að borða á nýjum og spennandi veitingastöðum.  Núna er þessi listi loksins kominn á netið hjá mér - og það er hægt að nálgast þessa síðu sem tengil í hausnum á þessu bloggi.

Stokkhólmur býður uppá ótrúlega mikið af frábærum veitingastöðum.  Það eru margir gallar við framboðið af stöðum (svo sem slæmt úrval af ódýrum stöðum, pizzum og asískum) en á mörgum sviðum er Stokkhólmur alveg frábær veitingastaðaborg.

Ég setti saman listann yfir okkar uppáhalds staði eftir flokkum.  Þarna eru bara staðir, sem ég myndi mæla með fyrir mína vini.  Allt frá ódýrum hádegisstöðum yfir í 2ja stjörnu Michelin staði.

Fyrir fólk, sem er að skipuleggja ferðalag til Stokkhólms þá mæli ég klárlega með að skoða þennan lista og plana fyrirfram á hvaða veitingastöðum er borðað því það þarf að panta borð á öllum bestu stöðunum.  Ef að fólk sleppir því að skipuleggja, þá endar það oftast á einhverjum hroðalegum túristagildrum á Gamla Stan, sem ég myndi ekki mæla með fyrir mína verstu óvini.

Comments Off

Apr 01 2012

Assad áróður í Sýrlandi

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Fyrir nærri því fjórum árum ferðaðist ég um Mið-Austurlönd og þar á meðal um Sýrland. Ég elskaði Sýrland. Fólkið var algjörlega frábært, maturinn var himneskur og landið býður uppá ótal marga merkilega túristastaði. Ég eyddi meðal annars tæpri viku í Damaskus, sem mér fannst frábær borg. Labbaði á hverjum degi um markaðinn í borginu og sat og naut veðursins inní Umayaad moskunni mögnuðu.

Sýrlendingar eru líka yndislegt fólk heim að sækja. Það voru afskaplega fáir túristar í landinu þannig að oft var komið upp að manni út á götu og fólk byrjaði að tala við mig að fyrra bragði. Það eina, sem pirraði mig við Sýrlendinga var að Ísraelum var kennt um öllum heimsins vandamálum.

Það var líka nokkuð ljóst að maður mátti ekki tala um stjórnmál við Sýrlendinga. Ef að umræðan var flóknari en “Ísraelar gerðu þetta” eða “Þetta er síónistunum að kenna” þá bökkuð Sýrlendingar útúr umræðunni. Enginn vildi tala um Assad eða stjórnmál. Landið var líka frekar lokað og engar vestrænar vörur voru til þar. Það gerir upplifun ferðamannsins ekki minna spennandi, en ég var þó ansi illa haldinn af kaffiskorti í landinu þar sem ég átti erfitt með að finna Nescafé og kaffið sem var boðið uppá var svo hroðalega vont.

Allavegana, þegar ég var að fara í gegnum iPhoto myndir í morgun þá gat iPhoto ekki greint mun á mér og Bashar Assad þegar að forritið var að bera kennsl á andlit á myndum. Alls staðar í Sýrlandi var að finna áróðursmyndir af Assad. Hérna eru nokkrar þær, sem ég tók árið 2008.

Mynd af Assad

Assad áróður

Assad áróður

Og sennilega besta myndin var af þesu magnaða skilti, sem ég tók mynd af útí miðri eyðimörkinni hjá Palmyra

Bashar al-Assad er vinur þinn

Ef einhverjir hafa áhuga á að lesa um Sýrland sem ferðamannaland og skoða myndir frá landinu, þá get ég bent á ferðabloggið mitt og myndir á Flickr.

2 ummæli hingað til

Oct 22 2011

Myndir frá Indlandi

skrifaði í flokkinn Ferðalög,Myndir

Ég hef síðustu vikur sett inn slatta af Indlandsmyndunum á Flickr.  Við tókum gríðarlega mikið af myndum á Indlandi og það hefur tekið sinn tíma að laga til myndirnar, skíra og svo framvegis.

En fyrir áhugasama, þá eru hérna fyrstu myndirnar úr ferðinni.

1. hluti: Maharastra: Þetta eru myndir frá Mumbai og svo hellunum í Ajanti og Ellora.

Margrét og ég hjá Gateway to India

2. hluti: Rajasthan: Þetta var að mörgu leyti hápunktur ferðarinnar.  Þarna eru myndir frá Jaipur, Jodhpur, Udaipur og Thar eyðimörkinni.

Lake Palace

3. hluti: Delhi og Amritsar: Myndir frá höfuðborginni og Gullna Hofinu í Amritsar ásamt pakistönsku landamærunum.

Hjá hofinu

Ég set svo inn restina af myndunum á næstu dögum og vikum.

Comments Off

Aug 04 2011

Ryugyong hótelið

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Ryugyong hótelbyggingin í Pyongyang í Norður-Kóreu hefur lengi heillað mig. Hún byrjaði sem eitthvað brjálæðislegt verkefni Norður-Kóreustjórnar og átti að verða að aðal-kennileiti borgarinnar. Þrátt fyrir að í Norður-Kóreu séu nánast engir túristar þá átti þetta að verða hæsta hótelbygging í heimi þegar að þeir byrjuðu að byggja árið 1987. En málið var að penigarnir kláruðust og árið 1989 var byggingu hætt þegar að það var ennþá byggingarkrani oná sjálfu hótelinu.

Hótelið leit því næstu 20 árin svona út.

Þetta var frekar neyðarlegt fyrir Norður-Kóreustjórn. Official gædar fyrir túrista á vegum stjórnarinnar neituðu til að mynda að viðurkenna að byggingin væri til. Ég hef lesið sögur á netinu þar sem að gædinn neitaði að svara spurningum um bygginguna, þótt að hún væri beint fyrir aftan hann. Hún var einnig tekin útaf kortum af borginni. Allt var gert til að reyna að gleyma byggingunni, sem er auðvitað ómögulegt því hún gnæfði yfir alla Pyongyang borg með byggingarkranann oná og innviðina í rúst. Það mátti engin fara inn því menn voru hræddir um að þá myndi allt hrynja.

Þegar ég sá þessa frábæru myndaseríu í The Atlantic frá Norður-Kóreu þá sá ég að loksins er byrjað að klára hótelið. Það er víst egypskt fyrirtæki sem tók við verkefninu og núna hefur byggingin verið klædd að utan og þar á að opna veitingastaður á efstu hæðinni á næstu árum. Ryugyong lítur því svona út í dag. Talsverð breyting, þótt að ég hafi ekki séð neinar myndir af byggingunni innan frá ennþá.

Comments Off

Jun 28 2011

Tristan da Cunha – afskekktasti staður í heimi (uppfært)

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Þegar ég var með vini mína í heimsókn fyrir einhverjum dögum þá fórum við (eða aðallega ég) að ræða hver væri afskekktasti staður á jörðinni. Við erum jú frá Íslandi, sem flestum finnst afskaplega afskekkt – en það eru klárlega til umtalsvert einangraðari staðir. Ég fletti þessu upp á Wikipedia og þá fann ég eyjaklasann Tristan da Cunha. Þessar eyjur eru samt ekki afskekktustu eyjur í heiminum – sá heiður á Bouvet eyja (sjá á Google Maps), sem er norsk eyja suður af Suður-Afríku, sem er lítið annað en jökull.

Tristan de Cunha er þó afskekktasti byggði staður í heimi. Eyjaklasinn liggur á milli Suður-Afríku (2.816 frá Suður-Afríku) og Suður-Ameríku (3.360 frá Suður-Ameríku). Stærsta eyjan er um 100 ferkílómetrar og þarna búa 270 manns. Eyjurnar tilheyra Bretlandi. Allir á eyjunni eru bændur og einn helsti tekjustofninn er sala á frímerkjum. Flestallir íbúanna eru afkomendur breskra sjóliða, sem settust þarna að 1800 og eitthvað.

Allar myndir frá þessum eyjum minna ótrúlega mikið á Ísland. Höfuðstaðurinn, Edinburg of the Seven Seas líkist íslensku sveitaþorpi ansi mikið og flestar myndir af eyjunum á Flickr gætu þess vegna verið teknar á Íslandi eða á Færeyjum þótt þessar eyjur séu tugþúsundum kílómetra frá Íslandi.

Allavegana, fyrir landafræðinörd einsog mig, þá fannst mér magnað að lesa um þessar eyjur.

* * *

**Uppfært 3. julí** Ég fékk póst frá fólkinu sem setti inn myndirnar á Flickr, þar sem viðkomandi tók eftir mikilli traffík frá þessari vefsíðu. Viðkomandi sagði að þau hefðu ferðast á báti í heila viku frá Suður Georgíu og vegna erfiðs sjós gátu þau ekki komist á gúmmíbát í tvo heila daga að Tristan de Cunha eyjunni. Loks hafi einhverjir eyjaskeggjar komið og sótt þau útí bátinn og farið með þau á land. Hérna má sjá restina af myndunum úr ferð þeirra. Og fyrir áhugasama þá er hægt að kaupa ferðir til þessara eyja hérna.

2 ummæli hingað til

May 21 2011

Indlandsferð eftirmáli 1: Praktískir hlutir

skrifaði í flokkinn Ferðalög

Morgunbátsferð á Ganges í Varanasi

Morgunbátsferð á Ganges í Varanasi

Hérna eru nokkrir hlutir, sem ég punktaði hjá mér í Indlandsferðinni og geta hugsanlega gagnast þeim, sem hafa áhuga á því að ferðast til Indlands.

Almennt um ferðalög á Indlandi

 • Maður getur ferðast nánast hvert sem er á Indlandi með lestum. Þær ferðast mun hraðar en rútur (þó ekki mjög hratt) og í þeim er þægilegt að ferðast. Ef valið stendur á milli rútu og lestar, þá er nánast alltaf best að velja lest.  Það er nánast ómögulegt að sofa í rútum þar sem lætin á indverskum vegum eru óbærileg allan sólarhringinn, vegna flutningabíla, sem keyra á 30km hraða og flauta allan tímann.
 • Allir túristar ferðast í loftkældu rýmunum. Þau hafa þá kosti að loftið er sæmilega stabílt, það er upphitað þegar það er of kalt á næturna og kælt á daginn. Langoftast ferðuðumst við með næturlestum í 3AC farrýminu (3 = 3 kojur). 2AC er aðeins betra (2 = 2 kojur) en munurinn skiptir ekki miklu máli. Í styttri daglestum er hægt að velja venjulegan AC class, þar sem maður er með sæti í staðinn fyrir koju.  Stór kostur við loftkælinguna er líka að þar eru lokaðir gluggar, sem þýðir að það kemur ekki jafn mikið hljóð frá lestarteinunum.  Ódýrari farrýmin eru með opnum gluggum og þar er fólki troðið í hundraðatali inní litla vagna.  Það er kannski hægt að þola það í styttri ferðum innan borga, en það er varla hægt að mæla með því fyrir ferðamenn, nema að þú ætlir að ferðast um Indland á 100 krónum á dag.  Þannig að ef þú ætlar að eiga sjens á því að sofa í lest þá ferðastu í loftkældum vagni.
 • Það er algjörlega nauðsynlegt að panta miða í lestar með fyrirvara. Það skiptir engu máli þótt að það sé low-season hvað varðar ferðamenn því að á nánast öllum leiðum eru Indverjar 90-99% farþeganna og þeir panta miða með löngum fyrirvara. Þetta þýðir smá skipulag, en ég myndi mæla með að panta miða í lestar helst viku fram í tímann og jafnvel lengra ef hægt er. Flest hótel panta miðar í lestar gegn vægu gjaldi (kannski 50-100 rúpíur). Ég mæli klárlega með að fólk nýti sér það. Það að bíða í miðasölu á indverskum lestastöðum er einfaldlega ömurlegt. Indverjar ryðjast í biðröðum og á lestarstöðvum taka þær ógurlegan tíma, auk þess sem að afgreiðslufólkið (jafnvel í ferðamannaröðunum) talar oft slæma ensku. Eina undantekningin á þessu er lestarstöðin í Delhi. Þar er verulega þægilegt að panta miða fyrir túrista.
 • Ansi mörg hótel bjóðast til að sækja þig á lestarstöðar.  Oft gegn smá gjaldi, sem er oftast lægra en það sem þú nærð að prútta þig niður á. Þetta tryggir það að þú kemst á réttan stað og þú kemst hjá því að prútta við indverska rickshaw bílstjóra um miðjan nótt. Sem er gott.

Hlutir, sem þarf að taka með

 • Nestisbox fyrir lengri lestarferðir – þú getur beðið veitingstaði um að útbúa mat fyrir lengri lestarferðir, en pakkningarnar þeirra eru alltaf drasl. Taktu með þér nestisbox, sem þú getur notað undir snyrtivörur eða eitthvað annað þegar það er ekki notað undir mat
 • Lítinn rafmagnsketil til að hita vatn. Við reynum að sjóða vatn og drekka það í stað þess að kaupa plastflöskur, sem eru viðbjóður og menga mikið – auk þess sem það þarf að keyra flöskuvatn langar leiðir.

  Ímyndaðu þér hvað þú drekkur mikið af plastflöskuvatni á svona ferðalögum. Örugglega 2 flöskur á dag eða meira. Á mánaðarferðalagi ertu því að kaupa þér 60 flöskur, sem eru kannski ekki endurunnar heldur enda í hafinu eða í einhverjum viðbjóðs ruslahaug útí vegkanti.  Nei, að sjóða sér vatn er klárlega málið. Þetta ætti fólk að gera í þeim löndum þar sem kranavatn er á mörkunum (þar sem innfæddir drekka það en túristar ekki) og líka á stöðum þar sem kranavatnið er slæmt (einsog á Indlandi).

  Þetta er frekar einfalt – þú hellir bara kranavatni í ketilinn, sýður vatnið í 2-10 mínútur og setur það á almennilega flösku (við vorum með Laken stálflöskur). Þegar að vatnið er orðið kalt þá bætirðu smá sítrónu eða límónu útí til að bæta bragðið. Þetta spara pening og bætir umhverfið. Ég nota líka ketilinn til að sjóða mér vatn fyrir Nescafé á hverjum morgni. Það sparar pening og kaffið sem maður kaupir á veitingastöðum er hvort eð er Nescafé (og þá mjöööög dauft blandað).

 • Vasahnífur og vasaljós. Nauðsynlegt á öllum bakpokaferðalögum.
 • Góð heyrnartól fyrir iPod-inn þinn, sem blokka út umhverfishljóð sæmilega vel. Já, og góða eyrnatappa og svefngrímu fyrir lestarferðir.
 • Það er ekki auðvelt að kaupa góðar snyrtivörur, góða sólarvörn eða dömubindi á Indlandi.  Taktu slíkt með.

Prútt og annað

Indverjar eru ein fátækasta þjóð heims.  Á Indlandi rekst maður á gríðarlegan fjölda fólks, sem getur ekki látið sig dreyma um þann lúxus sem við búum við í okkar samfélagi.  Stundum getur það verið erfitt að til dæmis ákveða hversu langt maður á að ganga í prútti við Indverja.

Mín grundvallarregla er að prútta nánast alltaf þegar ég veit að viðkomandi eru að gefa mér túristaverð.  Það er ágætt að spyrja til að mynda á hótelum hvað maður á að borga fyrir ferðir á milli staða innan borga.  Þá hefurðu indversku verðin og getur prúttað út frá því.  Oftast er maður að prútta við bílstjóra og þá fer það dálítið eftir hvert farartækið er hversu mikið maður prúttar.  Mjög oft ferðuðumst við til dæmis með hjóla-rickshaw.  Mennirnir sem keyra slík farartæki (eða draga þau í Kolkata) eru gríðarlega fátækir.  Það er auðveldlega hægt að prútta ferðir þeirra niður í 5-10 rúpíur, en þá verður maður að spyrja sig líka hvað maður eigi að fá útúr því.  Viltu virkilega að maður sé að hjóla með þig í gríðarlegri mengun fyrir 20 krónur fyrir klukkutíma ferð?

Auðvitað vill maður ekki að allir Indverjar sjái dollaramerki þegar þeir sjá útlendinga.  En það er oftast gott að prútta eitthvað smá, en nota aðeins skynsemina varðandi það hversu langt á að ganga.  Stundum er hægt að prútta langt niður, en gefa svo á eftir veglegt þjórfé.  Þá hefur maður allavegana prúttað og haldið heiðrinum, en maður er líka að hjálpa mönnum, sem eiga lítið annað en hjólið sem þeir eru á.

Ég mæli klárlega með því að fólk noti hjóla-rickshaw sem allra allra allra mest.  Þessi farartæki menga ekki neitt og með því að versla við þessa menn, þá er maður að hjálpa fólki sem á ekkert.

Kostnaður

Og hvað kostar þetta svo allt? 1 milljón, 2 milljónir, 5 milljónir?
Nei, svona ferðalag einsog við vorum á kostar mun minna en fólk heldur.

Mjög oft held ég þó að fólk sé verulega að ofmeta kostnaðinn við svona bakpokaferðalög til framandi staða og vanmeta kostnaðinn við sólarlandaferðirr til Spánar eða helgarferðir til London og Köben

Kostnaður við svona ferð má skipta í nokkra hluta

 1. Flugmiði á staðinn. Þetta er auðvitað mismunandi eftir því hvar fólk býr. Við vorum heppin að fá flugmiða frá Stokkhólmi til Mumbai fram og tilbaka fyrir 3.500 sænskar krónur – sirka 64.000 íslenskar
 2. Hótelkostnaður. Við gistum nánast allar nætur á mjög ódýrum hótelum. Ekki í lægsta klassa, en í svona lágum-mid-range klassa. Það þýðir að oftast borguðum við frá 600-1000 rúpíur fyrir hverja nótt. Hæst fórum við í 2000 rúpíur, en þá vorum við með sundlaug á hótelinu. Öll verð eru fyrir okkur tvö. Það er hægt að fara í mun ódýrari hótel – allt niður í nánast núll, en þá getur hreinlæti verið talsvert slæmt. Það ætti þó ekki að vera erfitt að finna fín hótel á í kringum 400-600 rúpíur fyrir tvo í flestum borgum Indlands, sem eru mjög fín og með loftkælingu í þeim borgum þar sem það þarf.
 3. Matur er kannski stærsti kostnaðarliðurinn, en það er mjög erfitt að dæma hver meðalkostnaðurinn er þar. Við borðum stundum 2 máltíðir á dag og stundum 3.Morgunmatur kostar oftast um 100-150 rúpíur á mann fyrir brauð, egg og safa (ég laga mitt eigið kaffi). Hádegistmatur kostar kannski 200 rúpíur og góður kvöldmatur með nóg af kjöti getur kostað kannski upp í 2-400 rúpíur. EF þú hins vegar sleppir því að borða kjöt þá geturðu klárlega lækkað þennan kostnað umtalsvert. Ef þú borðar bara grænmetisfæði og getur hugsað þér að borða hrísgrjón og chapati (brauð) og dal (baunir) þá geturðu auðveldlega komist af með undir 100 rúpíur fyrir hverja máltíð.

  Ef þú ert tilbúinn að fara í götumat getur verðið farið enn lægra. Í Kolkata borðuðum við nokkrum sinnum á götumatsstað hjá hótelinu og borguðum milli 20-40 rúpíur á manninn.  Til að fá prótein með matnum án þess að það kostaði of mikið þá keypti ég mér oft omelettu með réttinum, sem ég keypti.  Egg er sennilega ódýrasti prótein gjafinn á indverskum veitingastöðum. Kjötskammtar í karríréttum eru oftast mjög litlir.

 4. Ferðalög á milli staða. Oftast eru það lestar á milli staða. Næturlest á góðu farrými á milli tveggja borga, sem eru í talsverði fjarlægð (3-500 km) getur kostað uppí 1.100 rúpíur á manninn. Verðið lækkar eftir því sem vegalengdin styttist og rútur eru enn ódýrari.

  Innan borga tókum við mest hjóla-rickshaw eða mótor-rickshaw. Sá kostnaður ætti ekki að fara yfir 1-300 rúpíur á dag – fyrir 300 þá ertu næstum því komin með einkabílstjóra allan daginn.

 5. Aðgangur að túristastöðum. Við ferðumst allt sjálfstætt og erum því ekki að borga pening fyrir gæda eða slíkt (nema þegar við fengum okkur gæd inní einhverjum höllum. Stundum leigðum við okkur þó rickshaw fyrir allan daginn til að taka okkur á milli staða. Nánast alls staðar þurfa útlendingar að borga mun hærra aðgöngugjald en Indverjar. Algengt verð inní virki og slíkt er 200-300 á mann (Taj Mahal var dýrasti miðinn á 750).

Þegar þetta er tekið saman, þá er ekki galið að ætla að hefðbundinn dagur sé svona (á einstakling) á nokkuð þægilegu ferðalagi með góðum mat, þar sem ferðast er sæmilega hratt á milli staða.

Hótel: 350
Matur: 250
Ferðalög (lest á 2-3 daga fresti + rickshaw): 300
Aðgöngumiðar: 100
= 1.000 rúpíur á dag.
= 2.500 íslenskar krónur á dag

Fyrir einn mánuð þýðir það 75.000 krónur plús flugfar fyrir svona ferð og fyrir tveggja mánaða ferð erum við að tala um 150.000 + flugfar á mann. Ef fólk ber það saman við sólarlandaferðir til Spánar með öllum kostnaði eða verslunarferð til London, þá held ég að menn séu fljótir að komast uppí sömu upphæðir.

Auðvitað hafa ekki allir efni á þessu. En ég hef reynt að benda sem flestum á að ef fólk ferðast sjálfstætt, er tilbúið að búa á hótelum, sem teljast ekki lúxus og borða mat á venjulegum veitingastöðum, þá geta menn ferðast til mest framandi landa í heiminum fyrir minni pening en þeir myndu eyða á Benidorm. Allt sem þarf er góð ferðahandbók, smá sjálfstraust og vilja til að sjá heiminn. Ég get lofað fólki að það á eftir að fá mun meira útúr svona ferð en sólaralandaferð til Spánar.

Mæli ég með ferðalagi til Indlands?

Það verður að tækla í tveim hlutum.

 1. Ef þú hefur aldrei ferðast utan Evrópu, Bandaríkjanna eða annarra ríkra landa. Þá, nei. Indland er geðveiki og landið getur svo auðveldlega orðið fullkomlega yfirþyrmandi að óvanir ferðamenn eiga ekki eftir að geta höndlað það. Umferðin, mengunin og fátæktin er svo svakaleg að jafnvel nokkuð vanir ferðamenn einsog ég eiga stundum erfitt með að höndla það. Þannig að byrjaðu á einhverju auðveldara. Sjáðu Suð-Austur Asíu eða Suður-Ameríku. Svo Indland.
 2. Ef þú hefur ferðast utan ríku landanna og ert sæmilega vanur ferðamaður. ÞÁ JÁ! Eftir hverju ertu að bíða?  Indland er stórkostlegt. Frá Taj Mahal til Gullna Hofsins. Fólkið er yndislegt og maturinn (allavegana þangað til að þú færð í magann) er stórkostlegur. Fá lönd bjóða uppá annað eins magn af merkilegu fólki og merkilegum túristastöðum.

Indland er oft erfitt, en allir þessu stórkostlegu staðir bæta upp fyrir það svo um munar. Plús að eftir að maður kemur heim, þá man maður eftir Taj Mahal, en ekki endilega erfiðu lestarferðinni til að komast á staðinn.

Það er mjög ódýrt að ferðast á Indlandi og lestarnar gera ferðalögin þægileg. Þetta land verður fjölmennasta land heims eftir nokkur ár og ég leyfi mér að fullyrða að maður hefur ekki séð heiminn fyrr en maður hefur komið til Indlands.

Góða ferð!

7 ummæli hingað til

Eldri færslur »