Mestu leiðindi Íslandssögunnar

Ég get ekki ákveðið hvað mér finnst leiðinlegast:

* Fréttir um það hvað bankastarfsmenn eru með í laun
* Mótmæli SUS-ara og bloggskrif gegn því að álagningarskrár séu birtar.
* Hneykslisblogg um það hvað bankastarfsmenn eru með há laun
* Umfjöllun fjölmiðla um umfjöllun annarra um þessar skrár.

Getum við ekki bara hætt að birta þessar álagningaskrár? Þó það væri nú ekki bara nema til þess að hlífa mér fyrir þessum leiðindum?

* * *

Annars er ég á leið til Skotlands á föstudaginn. Ég er orðinn spenntur, þar sem síðustu vikur hafa verið ansi strembnar og fullar af stressi þrátt fyrir að þær hafi vissulega verið afskaplega skemmtilegar. Vandamálið með mig hefur verið það að ég nýti aldrei fríin mín um helgar, heldur held áfram að vinna. Þess vegna þarf ég að fara út til þess að slappa af í nokkra daga.

Ég ætla eyða 3 dögum í Edinborg og 1 degi í Glasgow. Þetta verður fjör.

* * *

Já, og svo mæli ég með [þessum disk](http://www.amazon.co.uk/Desire-Pharoahe-Monch/dp/B000JJRIOI/ref=pd_bbs_sr_1/026-4625146-8920401?ie=UTF8&s=music&qid=1186004077&sr=8-1).  Ég lýsi því yfir að þetta sé besti hip-hop diskur ársins hingað til.  Ég hef fílað Pharoahe Monch síðan að Wyclef Jean spilaði Simon Says á tónleikum í Chicago.  Það var svalt atriði.

Hugarró

Svona lítur MBL.is hjá flestum (smellið á mynd til að sjá stærri útgáfu):

Svona lítur það út hjá mér eftir smá breytingar. Engar geðsýrðar hreyfiauglýsingar, sem gefa manni flogaköst. Og það sem er mikilvægast: ekkert tuð frá Moggabloggurum við hverja einustu helvítis frétt.

Þökk sé þessu og þessu.

Annars er það alveg ólýsanlega æðislegt að vakna svona snemma á laugardagsmorgni, laus við alla þynnku og allt vesen. Vikan er búin að vera ótrúlega spennandi og skemmtileg, sérstaklega þegar að kemur að vinnu. Fulltaf spennandi hlutum, sem ég get vonandi greint frá fljótlega. Í morgun er búinn að eyða síðustu 3 tímunum í vinnu og því get ég slappað af án samviskubits. Ætla að fara útá svalir í sólina og lesa [nýju bókina mína](http://www.amazon.co.uk/How-Talk-Widower-Jonathan-Tropper/dp/0752885766/ref=pd_bbs_sr_1/203-4349188-7099122?ie=UTF8&s=books&qid=1185624393&sr=8-1)þ

Svo seinna í dag er ég að fara í giftingu til góðs vinar míns. Í lok dagsins verða því aðeins tveir ógiftir strákar úr Verzló vinahópnum. Úff.

En ég er verulega spenntur fyrir brúðkaupinu. Steggjaveislan um síðustu helgi var skemmtileg og UJ útilegan sem ég fór í á eftir veislunni var líka afskaplega skrautleg og skemmtileg.

Þetta er fínt líf.

Þú leggur einsog hálfviti

Þessi síða hér er mesta snilld í heimi: [You Park like an asshole.com](http://www.youparklikeanasshole.com).

Fyrir mann einsog mig, sem þarf að leggja a.m.k. einu sinni á dag í Kringlunni og í miðbænum, þá er auðvelt að sjá þörfina fyrir svona síðu. Hún gengur útá það að ef þú sérð einhvern bíl, sem er lagt af hálfvita, þá geturðu prentað út miða sem vísar á síðuna og lagt hann á rúðuna á bílnum. Þegar viðkomandi hálfviti sér miðann getur hann farið á vefsíðuna og lært hvernig hann á að leggja almennilega í stæði.

Einnig er skemmtilegt myndaalbúm af því [hvernig hálfvitar leggja](http://www.youparklikeanasshole.com/gallery2/gallery2/main.php). Af öllum hlutum í heiminum held ég að það sé ekkert sem fari meira í taugarnar á mér en þegar ég sé fólk leggja bílnum [svona](http://www.youparklikeanasshole.com/gallery2/gallery2/main.php?g2_itemId=156)

(via [DF](http://daringfireball.net/))

Rifrildi

Á Moggablogginu getur fólk rifist í meira en tvo daga um það hvaða skilaboð táknmyndir á klósettum í Hollandi senda konum.

Og það í miðjum júlí.

* * *

Í gær sá ég [Önnu.is](http://www.anna.is/weblog/) í fyrsta skipti. Ég leit út einsog bjáni, nýkominn heim frá því að hlaupa eftir Ægissíðunni og sagði því ekki hæ. Mér finnst alltaf jafn óþægilegt að segja hæ við fólk sem ég þekki bara af því að lesa bloggið þeirra. Samt finnst mér alltaf jafn yndislega skemmtilegt þegar að fólk kemur upp að mér og segist lesa bloggið mitt. Reyndar gerist það nær án undantekninga á djamminu og ég því hálf sjúskaður, en samt æðislegt.

* * *

Úti í USA sá ég fyndnustu mynd ársins, sem heitir Knocked Up. Ég ætlaði að fara að mæla með henni fyrir alla mína vini, en sá svo að hún er ekki frumsýnd á Íslandi fyrr en 28.september. Þetta er skrýtið land. Allar leiðinlegu stórmyndirnar eru sýndar strax, en svo þarf maður að bíða eftir myndum sem maður er spenntur fyrir. Til dæmis einsog Knocked Up og Sicko. Ég sá þær báðar útí USA. Sicko er líka mjög góð.

Ég á Facebook

Þar sem mér fannst ég ekki sóa nægilega miklum tíma á MySpace, þá ákvað ég að búa líka til prófíl á Facebook. Hef reyndar verið með þennan prófíl nokkuð lengi en ekkert gert í honum fyrr en nú.

* * *

Annars er það af mér að frétta að ég er að deyja úr þynnku eftir djamm á Vegamótum í gær. Takk fyrir að spyrja.

  * * *

Ég elska Galapogos með Smashing Pumpkins.   Ó já!

Vinsældir Liverpool bloggsins

(Þessi færsla birtist einnig á Liverpool blogginu)

Kristján Atli kom fram í útvarpsþætti fyrir nokkru þar sem hann var spurður í gríni hvort að Liverpool bloggið væri vinsælla en bloggið hjá Ellý Ármanns. Ég held að hann hafi giskað á að svo væri án þess að hugsa eitthvað nánar útí það. Ég ákvað í framhaldinu að reyna að komast að því hvort það væri einhver bloggsíða á Íslandi vinsælli en Liverpool bloggið.

Aðeins er hægt að fá upplýsingar um vinsælustu bloggin á vísi.is og á mbl.is. Á Vísi.is eru [vinsælustu bloggin](http://blogg.visir.is/vinsaelir-bloggarar) þessi (og fjöldi innlita á einni viku fyrir aftan).

1. Henry Birgir – 9.296
2. Höskuldur Kári – 7.887
3. Steingrímur Sævarr – 6.735

Á Blog.is hjá MBL eru [vinsælustu bloggin](http://www.mbl.is/mm/blog/top.html) svona – ásamt fjölda innlita í síðustu viku:

1. Ellý Ármanns – 12.531
2. Áslaug Ósk – 12.050
3. Stefán Friðrik – 11.898

Samkvæmt Blogg Gáttinni er vinsælasta bloggið hjá Stefáni Friðrik – en hann er þó aðeins í þriðja sæti á mbl.is, sem þýðir væntanlega að fleiri aðilar stimpla beint inn Ellý og Áslaugu eða fara þangað af forsíðu mbl.is. Það gefur þó líka einhverja smá vísbendingu að það sé ekki líklegt að mörg blogg utan Moggabloggsins komist nálægt þeim stærstu þar í vinsældum.

Liverpool bloggið nýtur hins vegar ekki kosta ókeypis auglýsingar á forsíðu og í fréttum mbl.is einsog Mogga bloggin gera. Ef svo væri, mætti væntanlega búast við því að síðan væri enn vinsælli.

Hins vegar líta hlutirnir svona út á Liverpool blogginu varðandi heimsóknir. Í vikunni sem endaði 1.júlí (sem er síðasta vika sem við eigum upplýsingar um), þá var fjöldi innlita á Liverpool blogginu **13.905**, sem er 11% fleiri innlit en hjá næstvinsælusta blogginu, sem er bloggið hennar Ellý Ármanns (sjá skjámynd frá teljari.is [hérna](http://www.flickr.com/photos/einarorn/740513580/)).

Nú skal það tekið fram að ég hef ekki upplýsingar um önnur blogg utan Vísis og MBL, sem hugsanlega geta verið vinsæl, þar sem þær upplýsingar eru ekki opinberar. Hugsanlegt er að blogg einsog hjá Ármanni Jakobss og Pétri Gunnars komist nálægt þessum MBL/Vísis bloggum að vinsældum, en ég er þó ekki viss.

Semsagt, ef við tökum þetta allt saman miðað við opinberar tölur, þá líta vinsælustu blogg landsins svona út.

1. **LIVERPOOL BLOGGIÐ: 13.905**
2. Ellý Ármanns: 12.531
3. Áslaug Ósk 12.050
4. Stefán Friðrik 11.898
5. Jenný Anna 9.759
6. Henry Birgir 9.296

Semsagt, við erum langflottastir. 🙂

Ástæðan fyrir þessari samantekt er líka auðvitað sú að við höfum íhugað það að setja inn einhverjar auglýsingar til að standa undir rekstri síðunnar, sem ég og Kristján höfum að mestu greitt fyrir hingað til – og einnig vegna þess að við erum að íhuga að færa hana inná nýtt lén, þannig að hún losni undan eoe.is léninu. Við erum búnir að finna eina hugmynd að léni, en allar tillögur eru vel þegnar.

Áfram Liverpool!

Blogg-afmæli

Á hverju ári gleymi ég blogg-afmælinu mínu, en ég byrjaði að blogga 22.apríl árið 2000. Nokkrum vikum seinna rifjast afmælið alltaf upp fyrir mér þar sem að Gummi Jóh man alltaf eftir sínu.

En allavegana, ég hef núna bloggað í 7 ár og 5 vikur án þess að stoppa. Það finnst mér ágætis árangur. Til hamingju ég!

* * *

Þessi færsla hjá Sigurjóni segir allt sem segja þarf um Ísland í dag.

RSS

Vildi bara vekja athygli á því að eftir að ég færði mig yfir í WordPress, þá hef ég verið að vísa í vitlausar RSS skrár á þessari síðu. Allavegana, ég er búinn að leiðrétta þetta og er því hægt að nálgast réttar skrár hér hægra megin.

RSS fyrir færslur
RSS fyrir ummæli

Ég er búinn að senda póst á blogg.gattina, þannig að vonandi uppfæra þeir líka skráninguna á síðunni minni.

Einnig þá hafa RSS skrár fyrir Liverpool bloggið auðvitað breyst. Þið getið náð í nýjar skrár með því að smella á tenglana efst til hægri á Liverpool blogginu.