Mexíkóflóaferð 5: Riviera Maya

Síðustu dagarnir á Kúbu fóru í ferðalög. Frá Trinidad tókum við leigubíl til Havana með smá stoppi í borginni Santa Clara. Þar vann Che Guevara mikinn sigur á hersveit Batista og þess vegna er Santa Clara sá staður þar sem líkamsleifar Che eru geymdar í dag.

Við skoðuðum minnismerki um Che í borginni og safn um hann ásamt því að koma inní herbergi þar sem líkamsleifar hans og annarra uppreisnarmanna, sem voru drepnir með honum í Bólivíu, eru geymdar. Við keyrðum svo áfram til Havana og tókum daginn eftir flug þaðan og til Mexíkó.


Í Mexíkó vorum við í 8 daga á Yucatan skaga. Ferðamannastaðirnir þar minna ekki mikið á Mexíkó frá því að ég bjó í Mexíkóborg fyrir 17 árum. Cancun og Puerto Aventura eru resort bæir sem líkjast Tenerife og Sharm El Sheikh meira en Mexíkó. En kosturinn við bæina í Mexíkó er að þar er boðið uppá mexíkóskan mat.

Við gistum fyrst á fínu hóteli nálagt Playa del Carmen og fórum svo til Cancun þar sem við gistum í nokkra daga til viðbótar. Miðbær Cancun er þó mexíkóskur, ólíkt Zona Hotelera hótelsvæðinu, sem gæti alveg eins verið í Bandaríkjunum. Á Zona Hotelera í Cancun var mér alltaf svarað á ensku þótt ég talaði spænsku við fólk og öll verð eru gefin upp í bandaríkjadollar líkt og að gjaldmiðill mexíkóa sé einhvern veginn ógildur í þeirra eigin landi. Allt virðist vera gert til þess að bandaríkjamönnum líðið hálf partinn einsog þeir séu ennþá heima. NFL er í sjónvarpinu, Budweiser á krananum og allt hægt að borga með dollurum.

Eina markverða sem við gerðum fyrir utan að liggja á sundlaugarbakka var að sjá Tulum rústirnar, sem liggja við ströndina rétt fyrir sunnan Playa del Carmen. Tulum bætast þá í hóp með Tikal í Guatemala, Lanaima í Belize og Chichen Itza í Mexíkó yfir Maya rústir sem ég hef séð og held ég því að þeim hring sé ágætlega lokað.


Ég var nokkuð spenntur fyrir því að smakka aftur mexíkóskan mat í Mexíkó. Í Cancun prófuðum við nokkra ólíka hluti – allt frá fine dining stöðum fullum af túristum yfir á litla sölubása í almenningsgarði fulla af innfæddum Cancun búum. Fínu staðirnir voru ekkert spes, en skemmtilegasta upplifunin var í Parque de las Palabas þar sem við gátum hoppað á milli sölubása sem seldu Tacos al pastor, gringas, alambre og allt hitt sem gerði mig ástfanginn af mexíkóskum mat fyrir 17 árum og breyttu lífi mínu.

Mér finnst maturinn ennþá frábær, en ég hef líka breyst. Bragðlaukarnir breytast með árunum – mér finnst Bud Light ekki lengur besti bjór í heimi og ég get borðað osta, sem mér fannst ógeðslegir fyrir nokkrum árum. Eins þá er ég ekki alveg jafn hrifinn af mexíkóskum götumat og ég var einu sinni. Margt er of feitt og oft finnst mér of mikil áhersla á kjöt og tortillur í matnum. Að mörgu leyti fannst mér maturinn sem við seljum á Zócalo í Svíþjóð vera betri en sá sem við borðuðum á götumarkaði í Cancun. Eflaust eru margir ósammála mér, en svona líður mér í dag.


Þessu fimm vikna ferðalagi okkar fjölskyldunnar lauk svo með flugi til Orlando og þaðan heim til Íslands. Það að ferðast svona lengi með 2,5 ára og 6 mánaða krökkum var sannarlega lífsreynsla og auðvitað gríðarlega ólíkt því þegar við Margrét vorum ein að ferðast.

Ég myndi þó segja að þetta var að mörgu leyti léttara en ég átti von á. Þau tvö eru á ólíkum stað í lífinu, vaka, sofa og borða á ólíkum timum, en það tókst merkilega vel að samræma það. Ég hef sagt við fólk, sem hefur spurt mig um hversu erfitt þetta hefur verið, að það að vera með tvö lítil börn allan sólahringinn í fimm vikur er erfitt, punktur. Þá skiptir ekki svo miklu máli hvort við hefðum eytt þessum fimm vikum á ferðalagi um Svíþjóð eða Kúbu. Það er erfitt að halda 2,5 ára strák við efnið þegar að eina dótið sem hann er með eru 10 litlir bílar þegar hann er auðvitað vanur miklu meiru.

Maturinn var ekkert vesen fyrir Jóhann Orra, enda er maturinn í allri Ameríku nokkuð einfaldur og góður. Mikið um hrísgrjón, grænmeti og kjúkling sem honum finnst gott.

Það sem þessar fimm vikur gáfu okkur voru líka að fá að vera með þessu börnum svona mikið án truflana frá leikskóla, vinnu eða öðrum skyldum. Ég hef kynnst Björgu svo miklu betur – ég get svæft hana á mettíma núna og fengið hana til að hlæja hvenær sem er. Maður hefur ekki endalausan tíma með þessum börnum og það er, þrátt fyrir allt vesen og umstang, einstakt að geta verið með þeim svona mikið í svona langan tíma. Það er samt alltaf gott að komast aftur heim í hversdagsleikann.

Skrifað í flugi til Svíþjóðar 24.nóvember klukkan 9.24

Nýtt útlit

Nýtt ár, nýtt útlit á þessari bloggsíðu sem hefur lifað betri tíma.

Ég eyddi út slatta af dóti, sem mér fannst vera truflandi og setti inn mjög mínímalíska útfærslu af síðunni. Kannski aðallega undir áhrifum frá Marco Arment og þessari færslu frá Paul Stamatiou.

Vonandi verð ég duglegri við að halda þessari síðu uppi á þessu ári.

RÚV.is = Fail

Fyrir ári skrifaði ég um það hversu hræðilega erfitt það er fyrir Mac notendur að horfa á sendingar RÚV og lagði til að þeir settu hreinlega allt á Youtube. Það væri ókeypis lausn, sem myndi gera öllum kleift að horfa á þætti af stöðinni.

Í kvöld ætlaði ég í fyrsta skipti í nokkra mánuði að horfa á upptöku á RÚV.is í Chrome á Makkanum mínum og þetta var niðurstaðan.

Ég er nú sæmilega víðförull á alnetinu, en ég lendi ALDREI í svona vandamálum fyrir utan RÚV.is. Þessi síða þarf að átta sig á því að það er ekki lengur árið 1995.

Tvítað á ensku

Ég hef ákveðið að byrja að uppfæra Twitter hjá mér á ensku. Síðustu árin hefur uppfærslum á þessa bloggsíðu fækkað, en á móti hefur notkun mín á Twitter aukist talsvert. Ég hef auðvitað skrifað þar, einsog hér, á íslensku.

En núna ætla ég að prófa að uppfæra Twitter á ensku. Aðalástæðan fyrir því er að mér finnst íslenskan vera frekar takmarkandi á Twitter. Ég bý jú í Svíþjóð og þar sem ég uppfæri Facebook á íslensku, þá finnst mér að ég þurfi að geta bent fólki, sem skilur ekki á íslensku, á eitthvað eftir mig á netinu. Mig langar oft að skrifa meira um það sem er í gangi í mínu lífi í Stokkhólmi og þá er skemmtilegra að geta bent svíjum á Twitter-ið mitt.

Ég tala jú ágætis sænsku, en ég held að það sé einfaldast að hafa Twitter bara á ensku því flestallir sem fylgjast með mér í dag á Twitter skilja auðvitað ensku. Ég ætla allavegana að prófa þetta og svo sjáum við til hvort ég endist.

Allavegana, ég er @einarorn á Twitter.

Vefsíður fyrir iPhone og Android

Ég er aðeins að grúska í vefmálum fyrir Serrano og fór að spá í hvort við ættum að halda áfram að styðja við sérstaka farsíma útgáfu af heimasíðunni okkar. Þetta er nokkuð mikilvægt, sérstaklega hérna í Svíþjóð þar sem að stór hluti okkar kúnna kemur inná heimasíðuna okkar í gegnum síma.

Continue reading Vefsíður fyrir iPhone og Android

Heimsóknir á kop.is og fleiri síður

Í framhaldi af umræðunni í síðustu færslu um Apple markaðshlutdeild, þá ákvað ég að kíkja á hvaðan heimsóknir á þær síður, sem ég stjórna, koma.

Ég hef ágætis tölur á bakvið þetta þar sem ég rek eina gríðarlega vinsæla bloggsíðu (kop.is), eina smá vinsæla bloggsíðu (eoe.is) og svo rek ég fyrirtækjasíður í tveimur löndum – Serrano í Svíþjóð og á Íslandi.

Allavegana, hérna eru helstu niðurstöðurnar. Fyrst varðandi stýrikerfi, sem að lesendur nota.

KOP.is
Windows 78,9%
Mac 17%
iOS (iPad, iPhone, iPod): 1,6%
Linux 1%

Lesendur KOP.is virðast vera nokkurn veginn einsog ágætis þverskurður af Íslandi þegar að kemur að notkun á stýrikerfum – Windows með rétt undir 80% og Mac með 17%. Þegar ég skoða Serrano.is heimsóknirnar, þá eru niðurstöðurnar í raun nákvæmlega eins.

Hins vegar ef ég skoða mína prívat bloggsíðu þá er Apple hlutinn talsvert stærri

EOE.is
Windows 67%
Mac 28%
Linux 1,6%
iOS 1,4%

Svo er líka athyglisvert að skoða heimsóknir á sænsku Serrano síðuna. Einsog ég skrifaði, þá eru heimsóknir á íslensku Serrano síðuna nokkurn veginn einsog á Kop.is – það er 78% Windows. Á sænsku síðunni lítur þetta út svona:

Serrano.nu
Windows 62,4%
Mac 28,5%
iOS 6,3%

Ég hef enga sérstaka ástæðu til að ímynda mér að viðskiptavinir Serrano í Svíþjóð séu frábrugðnir þeim íslensku. Það er þó greinilegt að þeir nota netið talsvert meira í símanum, sem kemur mér ekki á óvart. Stokkhólmsbúar eru alltaf í strætóum og lestum, þar sem fólk notar símann miki,ð á meðan að Íslendingar keyra bíla og geta ekki verið á netinu. Eins verður maður meira var við auglýsingar á Apple vörum hérna og iPhone er klárlega vinsælasti síminn, sem eykur sennilega vinsældir Apple tölva.

Og að lokum tók ég saman hvaða farsíma notendur KOP.is eru að skoða síðuna úr. Þar voru niðurstöðurnar svona:

KOP.is
iPhone 42,4%
Symbian 19,5%
iPad 15,2%
Android 11,4%
iPod 6,8%
Blackberry 2,5%
Aðrir

Ef ég tæki iOS þarna saman í eitt (það er iPhone, iPad og iPod) þá væru það samanlagt um 64,4% af heimsóknum sem kæmu úr Apple tækjum. Það er hreinlega fáránlega magnað því að iPhone er ekki einu sinni seldur á skynsamlegu verði á Íslandi. Menn þurfa að borga tugir þúsunda fyrir símann. Og iPad er ekki heldur byrjaður í almennri sölu.

RÚV á Youtube!

Þar sem ég hef búið erlendis síðustu 2 árin þá hef ég talsvert horft á myndbönd á íslenskum vefmiðlum. Þetta eru engin ósköp, en svona 3-4 sinnum í mánuði langar mig að sjá eitthvað Kastljós viðtal eða aðra myndbúta – oftast eftir að 10 manns á Facebook hafa byrjað að tala um viðkomandi myndband.

Ég er líka Apple notandi og hef verið það síðustu áratugi. Það er með hreinum ólíkindum hversu aftarlega íslenskir miðlar eru í því að koma myndböndum til okkar Apple notenda. Ég hefði kannski skilið þetta fyrir einhverjum árum, en í dag eru **allir** með Apple tölvur. Í kringum mig myndi ég segja að svona 70% af því fólki, sem ég þekki og vinn með noti Apple tölvur. Eflaust hafa einhverjir smitast af mér, en það er samt fráleitt að halda því að Apple notendur séu einhver jaðarhópur auk þess sem að Apple selur vinsælasta farsímann í dag.

Samt er RÚV ennþá að notast við einhverja útgáfu af Windows Media Player, sem virkar ómögulega á Apple tölvum – og alls ekki á iPhone eða iPad.

Vísir uppfærði sitt kerfi nýlega og þeir enduðu með eitthvað Flash dót, sem er svo hægvirkt að ég get ómögulega horft á heilt myndband án þess að það hökti 10 sinnum.

Má ég koma með tillögu til RÚV um hvernig þeir geti lagað þetta?

Hættiði með eigin kerfi og vinnið þetta bara með Youtube. Setjið Silfur Egils og Kastljós þætti þar strax að lokinni útsendingu. Youtube myndbönd er hægt að hafa í frábærum gæðum og það sem er mikilvægast – þau virka alls staðar. Í öllum tölvum, öllum vöfrum og á öllum farsímum. Það er jú árið 2010 og stór hluti netnotkunnar fólks er á farsímum. RÚV gæti verið með sér stöð innan Youtube og það myndi ekki kosta það neitt að vera með sín myndbönd þar (ólíkt því að hýsa þau á eigin server með einhverju Windows Media Player dóti).

Þannig að þessi lausn myndi spara RÚV umtalsverða peninga og gera myndböndin aðgengileg öllum. Af hverju ekki?

10 ár

Ég er frekar slappur í því að halda utanum stóra áfanga á þessu bloggi.  Oftast er það þannig að ég les færslu hjá Gumma Jóh þar sem hann fagnar sínu bloggafmæli og þá man ég að ég hef gleymt bloggafmælinu mínu.  Ég byrjaði nefnilega að blogga nokkrum vikum á undan honum.

Þetta blogg er núna orðið 10 ára gamalt.  Það er ótrúlegt.  Fyrstu færsluna skrifaði ég á þetta blogg 22.apríl 2000.  Þá notaði ég Blogger.com, sem var á þeim tíma nokkuð nýtt tól.  Það voru ekki mörg blogg á Íslandi – ég man að ég las blogg hjá Björgvin Inga og Geir Freys, en mikið fleiri voru þau ekki bloggin á Íslandi þá.  Fyrstu árin var þetta frekar þröngur hópur, sem bloggaði reglulega, mest strákar á milli tvítugs og þrítugs.

Áhugi minn á bloggi hefur komið og farið í gegnum árin.  Í byrjun var þetta rosalega gaman.  Færslurnar á mínu bloggi voru alltaf mjög stuttar, en ég bloggaði á tímum oftar en einu sinni á dag.  Með auknum vinsældum bloggsins hefur áhugi minn aðeins dafnað.  Í dag eru blogg um pólitík alltof áberandi á Íslandi.  Flest bloggin á Mbl og á Eyjunni virðast fjalla nær eingöngu um pólitík og ég les ekki mörg þeirra.  Það vantar blogg frá skemmtilegu fólki, sem hefur frá einhverju áhugaverðu að segja – ekki bara fólk sem hefur skoðanir á öllu, sem er að gerast á Íslandi.  Mér finnst til dæmis ótrúlegt að það skuli ekki vera til fleiri skemmtileg blogg um tónlist, sjónvarp, bíó, íþróttir og svo framvegis.

Liverpool bloggið, kop.is – sem í dag er mun vinsælla en þessi síða – er nokkurs konar afsprengi þessa bloggs og bloggsins hjá Kristjáni Atla.  Ég skrifaði alltof mikið um fótbolta á þessa síðu og síðustu mánuðirnir áður en við stofnuðum Liverpool bloggið voru einmitt líka síðustu mánuðir Houllier hjá Liverpool, þannig að pistlar mínir um Liverpool voru ekki beint jákvæðir.  Síðan að við stofnuðum Liverpool bloggið hefur sú síða vaxið gríðarlega í vinsældum og er haldið uppi af frábærum pennum, sem skrifa með mér og Kristjáni, og gríðarlega góðum hópi af málefnalegum og skemmtilegum lesendum.

* * *

Áhuginn minn á þessu bloggi hefur kannski verið meiri í gegnum árin.  Síðustu 2 árin hef ég fært rosalega mikið af því, sem ég hefði einu sinni bloggað um, yfir á Twitter eða Facebook.  Þar fæ ég meiri og fljótari viðbrögð fólksins í kringum mig (auk þess að margir gamlir bloggarar eru vinir mínir á Facebook) og því hef ég oftast meira gaman af þeim miðlum.  Ég hef þó aldrei hætt að blogga hérna – og held að í þessi 10 ár hafi aldrei liðið meira en 2 vikur á milli færslna.  Og mér finnst enn gott að hafa bloggið sem vettvang þegar að ég vil tjá mig um eitthvað.  Heimsóknum á þessa síðu hefur líka eitthvað fækkað í gegnum árin eftir því sem að ég set inn færri færslur.

Áherslurnar hafa líka breyst.  Áður var ég gríðarlega fljótur að blogga um eitthvað, sem ég var pirraður yfir.  Núna bíð ég oftast í talsverðan tíma áður en ég skrifa um eitthvað, sem ég er æstur yfir.  Ég blogga líka mun minna um pólitík og er oftast mun kurteisari en ég var fyrstu árin.  Kannski er það aldurinn og eflaust er það líka að vegna Serrano finnst mér ekki passa að ég sé að æsa mig um of á blogginu mínu.

* * *

Stelpubloggin hafa líka breyst með aðstæðum mínum.  Ég er búinn að búa í þremur löndum, Bandaríkjunum, Íslandi og hér í Svíþjóð og aðstæður í mínu einkalífi hafa líka breyst.  Ég er auðvitað að mestu hættur að skrifa um stelpur, enda tókst mér að finna ástina í mínu lífi.  Ég átti það líka til að blogga meira þegar að mér leið ekki vel og bloggið hjálpaði mér oft mikið.  Í dag er ég svo miklu hamingjusamari en ég var stóran hluta þessara 10 ára, að bloggið þarf að líða fyrir það.  Það er í góðu lagi.

* * *

Ég ætla að halda þessu bloggi áfram vonandi sem lengst.  Ég hef alltaf eitthvað að segja öðru hvoru og ég á vonandi eftir að fara í slatta af skemmtilegum ferðalögum, sem einhverjir hafa gaman af að lesa um.

Ég held örugglega að það sé til fólk þarna úti, sem hefur lesið þetta blogg nánast frá fyrsta degi.  Þeim og öllum öðrum, sem hafa lesið bloggið, þakka ég kærlega fyrir.  Þessi bloggsíða hefur gefið mér margt í gegnum árin og ég er alveg klár á því að líf mitt er miklu skemmtilegra í dag en það hefði verið hefði ég ekki tekið þá ákvörðun fyrir 10 árum að prófa að blogga.  Allt fólkið sem ég hef kynnst í gegnum bloggið og allar samræðurnar sem ég hef átt hafa gefið mér mikið.

Takk.

Pressan.is – MYNDIR

Ég skil ekki alveg þessa frétt hjá Pressunni: Hvað varð um fallega hverfið mitt? Allt að brotna niður og borgin gerir ekkert – MYNDIR

Þarna tekur Pressan þessa frábæru bloggfærslu, vitnar í tvo hluti úr henni og setur svo inn allar myndirnar á sitt vefsvæði. Það er nákvæmlega engu bætt við upphaflega bloggfærslu. Að vísu er talað um hver Bjarni er, en það eru allt upplýsingar, sem eru mjög aðgengilegar á síðu Bjarna.

Þetta er hluti af einkennilegri hegðun sem ég sé bara á íslenskum vefsíðum – að í stað þess að vísa bara á upphaflegu heimildina, þá er allur textinn afritaður yfir á viðkomandi vefsvæði og ekki einu sinni hafður með tengill í upphaflega grein. Og oft á tíðum er engu bætt við upphaflegt efni greinarinnar. Þetta er stundað grimmt til dæmis á Eyjunni.

Af hverju er ekki bara látið nægja að vísa í upphaflega heimild? Halda menn að lesendur séu svona latir eða að þeir geti ekki lesið efni, sem er ekki nákvæmlega eins uppsett og allt hitt efnið á viðkomandi síðu? Eða að fólk viti ekki hvernig tenglar yfir á önnur vefsvæði virki?

AIK, Dawkins, Wall Street og sænskt bíó

Já já já – punktablogg

  • Margrét bloggar um Så som i himmelen, mjög fína sænska mynd sem við horfðum á um þarsíðustu helgi.
  • Um þessa helgi leigðum við bíl og fórum í Skärholmen og svo í IKEA í Kungens Kurva.  Þegar þú kemur inní þá búð blasir við þér skilti þar sem þú ert boðinn velkominn í stærstu IKEA búð í heimi.  Ég veit ekki hverjum þykir það spennandi – ég er ekki einn af þeim.  En ég komst þó sæmilega heill úr þessari ferð.
  • Við keyptum tvær kommóður, aðra fyrir gesta/tölvu/lærdóms-herbergið og hina fyrir ganginn.  Þegar ég hafði baksað við það í nokkra klukkutíma að setja þetta saman þá komumst við að því að gólfið í ganginum (sem er upprunalegt trégólf) var svo skakkt að kommóðan getur ekki staðið nema að undir henni séu verulega þykk blöð.  Margrét bloggaði líka um þetta.
  • Annars horfði ég á sunnudaginn AIK verða Svíþjóðarmeistari í fótbolta.  Ég hef verið dálítið óviss um það hvaða lið ég styðji í sænska boltanum.  AIK er eina liðið sem ég hef séð spila og það fær mesta athygli hérna í Stokkhólmi.  Ég bý hins vegar á Södermalm og þar er meiri stuðningur við Hammarby (liðið sem að Pétur Marteinsson spilaði lengi með) en það lið er búið að vera hræðilegt í sumar og þeir enduðu tímabilið á því að falla úr efstu deild.  Núna vona ég bara að AIK komist inní riðlakeppni Meistaradeildarinar á næsta tímabili.  Það gæti verið skemmtilegt.
  • Í fyrradag horfðum við svo á fyrri hlutann á Root of All Evil?, sem er nokkuð skemmtileg sería þar sem að Richard Dawkins fjallar um trúarbrögð.  Ég las The God Delusion í Indónesíu og þetta er ágætis viðbót.
  • Við leigðum líka (erum reyndar í nokkurs konar Netflix klúbb sem heitir Lovefilm þar sem við fáum myndir sendar með pósti) Wall Street.  Ég horfði á hana fyrir allmörgum árum og datt í hug að það væri sniðugt að sjá hana aftur.  Hún eldist sæmilega vel.