Dylan kemur

Já já, Dylan er víst á leiðinni til Íslands. Það er fagnarðarefni. Ég sá hann fyrir tæpum fjórum árum (linkur á ferðasögu) ásamt Willy Nelson á baseball velli í Kansas. Það voru verulega góðir tónleikar, sérstaklega þegar að Dylan og Nelson sameinuðust á sviðinu og tóku Heartland. Set listinn hjá Dylan á þeim tónleikum var svona:

  1. Maggie’s Farm
  2. Tonight I’ll Be Staying Here With You
  3. Stuck Inside Of Mobile With The Memphis Blues Again
  4. Heartland (with Willie and his sons)
  5. Tweedle Dee & Tweedle Dum
  6. Positively 4th Street
  7. Highway 61 Revisited (Elana Fremerman on violin)
  8. Tryin’ To Get To Heaven (Elana Fremerman on violin)
  9. High Water (For Charley Patton)
  10. Honest With Me
  11. Ballad Of Hollis Brown (acoustic)
  12. Summer Days (Tommy on guitar) (encore)
  13. Like A Rolling Stone
  14. All Along The Watchtower

Einsog sést, þá eru þarna ekkert alltof mörg mjög þekkt lög. Hann tekur sennilega ekki nema tvö lög sem kæmust inná topp 10 hjá mér (Watchtower og Rolling Stone) – en þarna eru samt frábær lög inná milli. En bara það að vera úti í 30 stiga hita í hjarta Bandaríkjanna að hlusta á Willie og Dylan spila Heartland hlýtur að vera einn af topp-punktunum á þeim tónleikum sem ég hef farið á um ævina.

Það er alveg ljóst að Egilshöllin mun ekki toppa baseball völl í Kansas sem staðsetningu fyrir svona tónleika, en ef við skoðum set-listann á síðustu tónleikum Dylan í Buenos Aires, þá lítur hann svona út

  1. Rainy Day Women #12 & 35 (Bob on electric guitar)
  2. Lay, Lady, Lay (Bob on electric guitar)
  3. Watching The River Flow (Bob on electric guitar)
  4. Masters Of War (Bob on keyboard)
  5. The Levee’s Gonna Break (Bob on keyboard, Donnie on electric mandolin)
  6. Spirit On The Water (Bob on keyboard and harp)
  7. Things Have Changed (Bob on keyboard)
  8. Workingman’s Blues #2 (Bob on keyboard)
  9. Just Like A Woman (Bob on keyboard and harp)
  10. Honest With Me (Bob on keyboard)
  11. When The Deal Goes Down (Bob on keyboard)
  12. Highway 61 Revisited (Bob on keyboard)
  13. Nettie Moore (Bob on keyboard, Donnie on viola)
  14. Summer Days (Bob on keyboard)
  15. Like A Rolling Stone (Bob on keyboard)
  16. Stuck Inside Of Mobile With The Memphis Blues Again (Bob on keyboard)
  17. All Along The Watchtower (Bob on keyboard)
  18. Blowin’ In The Wind (Bob on keyboard and harp, Donnie on violin)

Þarna er auðvitað munur á því að set-ið er fjórum lögum lengra.  Og þarna eru líka komin inn þrjú algjörlega æðisleg lög sem ég held mikið uppá í Just Like a woman, Masters of War og Blowin in the wind.  Auðvitað bætast líka við lög af Modern Times og mér sýnist hann vera með uppáhaldslögin mín af þeirri plötu, það er Spirit on the water og Workingman’s Blues #2.  Einnig eru komin inn góð lög einsog Rainy Day Women (sem mér finnst reyndar leiðinlegasta lagið á Blonde on Blonde, sem er besta plata allra tíma) og Things have changed.

* * *

Málið er einfaldlega að ég gæfi gríðarlega mikið fyrir að hafa verið í Royal Albert Hall árið 66 og hlustað á Bob með alla sína rödd sitja í rólegheitunum og syngja Visions of Johanna og Desolation Row.  Það hefði verið stórkostlegt.  En ég verð að sætta mig við að ég var ekki fæddur þá og mun aldrei sjá minn uppáhaldstónlistarmann á hátindi ferilsins.  Ég get hins vegar séð hann núna með þeim kostum og göllum sem því fylgja.

Það er hægt að fara á Dylan tónleika með tvenns konar hugarfari.  Annars vegar með því að búast við því að hann syngi eins vel og ’66, spili Sad Eyed Lady og Visions of Johanna og geri allt einsog á plötunum í gamla daga.  Það er hins vegar ekki að fara að gerast.  Dylan er 66 ára gamall, röddin er skemmd og hann spilar ekki lögin sem við vildum kannski helst að hann myndi spila.  En það breytir því ekki að það að sjá þessa goðsögn, þennan mesta tónlistarmann sögunnar, er stórkostleg upplifun.  Ef fólk vill hlusta á Dylan einsog hann var þá, þá verður það að hlusta á hann af plötum.  En það er líka hægt að fara með því hugarfari að þetta sé tækifæri til að sjá þennan snilling á seinni árum ævinnar takandi mörg af bestu lögum allra tíma – kannski í breyttum útgáfum og með öðruvísi söng.

En þetta er samt Bob Dylan.

Enjoy the Silence

Þetta er flottasta auglýsing, sem ég hef séð á þessu ári:

Sá þetta á undan Juno í bíó í Stokkhólmi á fimmtudaginn. Aðalástæðan er auðvitað notkunin á laginu Enjoy the Silence með Depeche Mode, sem er eitt af mínum uppáhaldslögum. Þessi auglýsing gerði það einmitt að verkum að ég hef hlustað á [þetta æðislega lag](http://youtube.com/watch?v=X0Hez25fFrg) nánast stanslaust síðan ég kom heim frá Stokkhólmi.

Jæja, ég ætla að reyna að gera mig sætan og kíkja svo út. Ómögulegt að hanga inni á laugardagskvöldi.

See you soon

Í kjölfar Whitesnake færslunnar frá því í gær, þá ætla ég að gera heiðarlega tilraun næstu daga til að benda á lög, sem mér finnst vera góð og tengjast mér á einhvern hátt.

Hérna er uppáhaldslagið mitt með Coldplay

Nú er það mikið í tísku að dissa Coldplay, en ég hef ávallt verið veikur fyrir þessu bandi. Katie, fyrrverandi kærasta mín, kynnti mig fyrir þessu lagi en það hefur aldrei komið út á plötu svo ég viti Katie er snillingur og var alltaf að kynna fyrir mér nýja hluti – það var kosturinn við að vera með stelpu, sem var svona ótrúlega ólík mér. Hún kynnti mig fyrir nýjum bókum, nýrri tónlist, nýju fólk og samdi um mig ljóð, sem að snertu mig meira en nokkrar bækur eða lög höfðu áður gert. Bæði góð ljóð um góðu tímana og líka hræðileg ljóð um það hversu mikill asni ég gat verið.

Þegar ég kom heim til Íslands gaf hún mér Grace með Jeff Buckley, sem ég hlustaði á miljón sinnum og svo stuttu seinna kynnti hún mig fyrir þessu lagi með Coldplay. Ég ætlaði á tímabili að loka mig af og bíða bara eftir henni líkt og í laginu:

In a bullet proof vest
With the windows all closed
I’ll be doing my best
I’ll see you soon

En svo brást það auðvitað.

* * *

Ég er að skanna inn myndir af negatívum, sem ég á uppí skáp og veldur það sennilega þessum tveimur síðustu færslum. Hef ótrúlega mikið verið að hugsa um síðustu ár. Það fyndna við að skanna inn myndir af negatívum er að maður uppgötvar aftur myndir, sem maður hafði áður hent. Skemmtistaða-sleikir og aðrir skandalar eru enn til á negatívunum mínum þótt ég hafi eytt sjálfum myndunum fyrir einhverjum árum. Það er ótrúlega skemmtilegt að fara aftur í gegnum þetta og ég ætla að henda inn eitthvað af gömlum myndum á næstu vikum. Ég sleppi þó myndunum sem ég hafði áður hent.

* * *

Á þessari síðu, sem að WordPress benti mér á, er ég settur í hóp með Agli Helga, Sóleyu Tómasar og Henry Birgi yfir þá bloggara, sem að viðkomandi les en pirrast svo yfir eftir lesturinn. Til viðbótar er ég svo kallaður furðulegur. Ég verð að játa að þetta er magnaður félagskapur sem ég er þarna í, en ég sé ekki almennilega hvernig að skrif mín á þessa síðu geti farið í pirrurnar á fólki. Vissulega er ég oft í ham á Liverpool blogginu, en þessi síða verður rólegri með hverju árinu. Ég er m.a.s. hættur að böggast útí Framsóknarflokkinn.

Dog Man Star

Í kvöld skrifaði ég leikskýrslu eftir sigurleik hjá Liverpool.  Ég man ekki hvenær það gerðist síðast.

* * *

Stundum gleymi ég plötum í mörg ár. Jafnvel plötum sem ég dýrkaði einu sinni og dáði. Þannig var það um eina af mína uppáhaldsplötum þangað til að ég heyrði óminn af The Wild Ones á Ölstofunni fyrir tveim helgum. Ég man að ég var búinn með nokkra vodka-í-sóda, en ég sagði samt vinkonum mína einhverja óljósa romsu um það hvað ég dýrkaði og dáði þetta lag.

Einhvern veginn hafði Dog Man Star týnst í safninu mínu og því þurfti ég að kaupa hana aftur í gegnum iTunes. Og síðan það gerðist hef ég hlustað á hana nær stanslaust. Betri plata til að hlusta á í myrkrinu er vandfundinn. The Asphalt World er eitt af bestu lögum allra tíma (sjáið vídeóið – kaflinn sem byrjar á 5:40 er STÓRKOSTLEG SNILLD – sjá hérna líka live útgáfu). Þegar þessi plata kom út var ég 17 ára að ganga í gegnum eitt versta skeið ævi minnar og eyddi ófáum klukkutímunum liggjandi uppí rúmi, hlustandi á þessa mögnuðu plötu.

Ég er enn bitur yfir því að Butler og Anderson skuli ekki hafa getað unnið saman áfram. Fyrir ykkur, sem hafið ekki enn uppgötvað þessa plötu, hlaupið einn hring í stofunni, setjist svo aftur niður við tölvuna og hlaðið henni niður á löglegan eða ólöglegan hátt. Þið eigið ekki eftir að sjá eftir því.

Bestu lögin og plöturnar 2007

Jæja, einsog vanalega kemur listinn minn yfir bestu plötur og lög ársins 2007.

  1. Jens Lekman – Night falls over Kortedala: Þetta er ekki auðvelt val. Kanye er stórkostlegur snillingur og nýja platan hans er aðvitað frábær. En Jens Lekman er það líka og þetta er án efa hans langbesta plata. Hann hafði lofað góðu áður, en á þessari plötu sprettur hann fram sem fullskapaður snillingur.Það eru nánast öll lögin góð, en samt þá er Your arms around me í mestu uppáhaldi hjá mér. Hverjum hefði dottið í hug að besta plata ársins kæmi frá Svía frá Gautarborg og myndi heita í höfuðið á úthverfi í þeirri borg.
  2. Kanye West – Graduation: Þriðja snilldarplatan frá Kanye West er að mínu mati sú besta í röðinni. Allt frá því að ég heyrði fyrstu smáskífuna (sem eldist ekkert sérstaklega vel, en ég var þó með hana á heilanum í margar vikur) þá var ég viss um að ég myndi elska þessa plötu. Sem ég og gerði. Bestu lögin eru (eftir að ég þreyttist á Stronger) Homecoming og The Glory
  3. Bruce Springsteen – Magic: Síðustu plötur frá Springsteen hafa allar verið góðar og ég hef smám saman komist yfir það að finnast hann hallærislegur og byrjað aftur að kunna að meta tónlistina hans. Ég hef alltaf verið hrifnari af rólegri plötum Springsteen, en á þessari plötu er hann í rokkaðri kantinum og það svínvirkar líka. Besta lag: Devil’s Arcade
  4. Radiohead – In Rainbows: Besta plata Radiohead í 10 ár.
  5. Okkervil River – Stage Names: Frábær plata frá hljómsveit sem ég hafði ekkert heyrt í.
  6. Jay-Z: American Gangster: Comebackið hjá Jay-Z er fullkomnað með þessari plötu þar sem ég fílaði ekkert sérstaklega Kingdom Come. Besta lag: Roc Boys (sem er reyndar besta lag ársins að mínu mati).
  7. LCD Soundsystem – Sound of Silver: Frábær plata sem inniheldur m.a. eitt af lögum ársins, All my friends
  8. Justice – Cross
  9. Pharoahe Monch – Desire
  10. Klaxons – Myths of the Near Future

Og þá bestu lög ársins

  1. Jay-Z – Roc Boys: Þetta lag og Stronger með Kanye voru mest grípandi lög ársins að mínu mati. Roc Boys er allt sem ég elska við Jay-Z. Þvílíkur snillingur.
  2. LCD Soundsystem – All my friends: Við fyrstu hlustun tók ég ekkert sérstaklega eftir þessu lagi en eftir að ég hafði rennt Sound of Silver nokkrum sinnum í gegn var þetta lagið sem stóð uppúr. Frábær texti og frábært lag.
  3. Okkervil River – Unless it kicks
  4. Kanye West – Stronger / Homecoming: Get ekki gert uppá milli þessara laga með Kanye
  5. Manic Street Preachers – Imperial Bodybags
  6. Bruce Springsteen – Devil’s Arcade / Radio Nowhere: Tvö bestu lögin af Springsteen plötunni
  7. Justice – D.A.N.C.E.
  8. Foo Fighters – The Pretender: Lagið sem hefur haldið mér vakandi í ræktinni undanfarna mánuði.
  9. Modest Mouse – Dashboard
  10. Silverchair – Straight Lines

Að mínu mati frábært tónlistarár.

Hlutirnir sem barnabörnin ættu að vita

Það eru næstum því tvö ár síðan ég skrifaði þennan áramótapistil þar sem ég var á frekar miklum bömmer og hlustaði stanslaust á Eels, sérstaklega Things the grandchildren should know.

Í dag líður mér sirka 100 sinnum betur (þetta hjálpaði auðvitað) og á slíkum stundum er alltaf hálf skrýtið að grípa í lög sem maður tengir svo leiðinlegum tímum í sínu lífi. Það getur verið ótrúlegt hversu samofin ákveðnum tímabilum í lífi manns ákveðin lög geta verið.

Ég get til dæmis varla hlustað á Last Goodbye með Buckley án þess að hugsa til allra þeirra stunda sem ég lá uppí rúmi lesandi ljóð frá fyrrverandi kærustunni minni, miður mín yfir því að við værum í sitthvorri heimsálfunni. Og ég á enn erfitt með að hlusta á Don’t think twice, it’s alright án þess að það verði til þess að upp fyrir mér rifjist hvernig mér fannst önnur stelpa hafa svikið mig.

En það var eitthvað við að að hlusta á Things the grandchildren should know í kvöld, sem fékk mig til að líða alveg einstaklega vel. Það getur nefnilega tvennt gerst þegar maður heyrir á góðum stundum í lífinu lög sem maður tengir þeim slæmu. Annaðhvort vekur það upp slæmar tilfinningar og rífur upp gömul sár. Eða þá að lögin gefa manni smá perspektíf. Þau hjálpa manni að rifja upp að hlutirnir voru einu sinni alveg ferlega ömurlegir, en að í dag séu þeir svo miklu, miklu betri.

Þess vegna verð ég glaður við að hlusta á Eels í dag. Þetta lag hjálpar mér að meta það hversu gott ég hef það núna.

Tónlistarspurningar

Fyrir einhverju síðan bað Björgvin Ingi mig að fylla þennan spurningarlista út fyrir Rjómann. Á endanum var þetta aldrei birt, en ég fann þetta í einhverri tiltekt á harða disknum – Gummi Jóh bendir á að þetta var víst [birt hér](http://rjominn.is/articles/show/184) – Birti þetta þá bara aftur núna.

* * *

Besta lag í heimi er…
Gimme tha Power” – áróðurslag mexíkósku sveitarinnar Molotov um misnotkun mexíkóskra stjórnvalda á mexíkóskri alþýðu. Það að standa í tónleikasal í Chicago meðal 10.000 mexíkóa og hrópa “viva Mexico, cabrones” er skemmtilegasta tónleikaupplifun ævi minnar.

Besta plata í heimi er…
Blonde on Blonde” með Dylan. Inniheldur allavegana 4 lög, sem ég myndi telja meðal 20 bestu laga allra tíma: Visions of Johanna, I want you, One of us must know og auðvitað Sad Eyed Lady of the Lowlands. Að mínu mati besta Dylan platan og því að sjálfsögðu besta plata í heimi.

Af hverju eru ekki allir að hlusta á …
Neil Young, Dylan, Bowie og Elvis Costello.

Öll börn ættu að sofna við að hlusta á…
Ágætis Byrjun” með Sigur Rós

Allir ættu að hlusta að minnsta kosti einu sinni á ævinni á…
Dark Side of the Moon

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru …
Radiohead útitónleikar í 35 stiga hita í Grant Park í Chicago. 25.000 manns með Chicago skýjakjúfana fyrir aftan og til hliðar við sviðið og Michigan vatn hægra megin. Algjörlega frábært. Thom Yorke einn á sviðinu að syngja “You and whose army” var hápunkturinn.

Þeir tónleikar sem ég sá ekki en vildi mest hafa séð eru …
Einhverjir tónleikar með Bob Dylan í kringum 1966.

Platan sem mótaði unglingsárin mín er…
Hmmm… ég veit ekki. Þær plötur, sem ég hlustaði oftast á á þessum tíma eru sennilega “Weezer” með Weezer, “(What’s the story) Morning Glory” með Oasis, “Parklife” með Blur, “Pump” með Aerosmith og “Dark Side of the Moon” með Pink Floyd. Veit ekki hvort einhver hafi haft sérstaklega mótandi áhrif á mig.

Þegar ég geng í kringum tjörnina á elliárunum vil ég hlusta á …
Vonandi eitthvað, sem ég hef ekki heyrt ennþá.

Ég er það sem ég er af því ég hlustaði á …
David Bowie, Aerosmith, Pink Floyd, Bob Dylan.

Ég vildi að ég hefði samið…
Eitthvað gott stuðlag, sem ég gæti sungið í partýjum og náð stemningunni alltaf upp.

Sá texti sem hrærir mest í hjarta mínu er…
True Love Waits” með Radiohead.

Besta bömmerlag í heimi er…
Last Goodbye” með Jeff Buckley.

Í eigin hugarheimi gangandi um öngstræti lífsins hlusta ég helst á…
Sea Change” með Beck

Þegar ryksugutónarnir óma finnst mér að undir eigi að hljóma…
I’m the Ocean” með Neil Young.

Ég var ástfangnastur unglingur þegar ég hlustaði á…
I want you” með Elvis Costello.

Ég myndi helst vilja spila í bandi með (lífs eða liðnir)…
“The Band” með Dylan. Ég gæti reynt að syngja bakraddir.

Vanmetnasta hljómsveit í heimi er…
Eels

Ofmetnasta hljómsveit í heimi er…
Eagles, Keane

Þú ættir að hlusta á…
Eitthvað gott kántrí til að losna við fordómana. Til dæmis “Red Headed Stranger” með Willie Nelson.

Ef ég ætti að bæta við spurningu myndi ég bæta við (og svara henni)…
Besta tónlistin í líkamsræktinni: Rocky IV platan. Óborganleg snilld. Mér líður alltaf einsog ég geti allt þegar ég hlusta á þá plötu.

Springsteen, Serrano og Vista

Það er alveg ljóst hvað mun einangra iTunes, iPod og iPhone spilun hjá mér á næstunni. Enda er ágætt að fá smá hvíld frá Kanye.

Nýji diskurinn frá Kanye West er búinn að vera í ansi mikilli spilun hjá mér að undanförnu og get ég ekki annað en mælt með honum. Ég verð þó að segja að við fyrstu hlustun virkar Magic með Springsteen alveg rosalega vel á mig. Þetta er hressara rokk en á síðustu plötum, sem er gott mál.

* * *

Einsog einhverjir glöggir menn hafa sennilega rekist á í atvinnu-auglýsingum uppá síðkastið, þá erum við að fara að opna þriðja Serrano staðinn í september nóvember. Sá verður í Smáralind í því bili, þar sem áður var Wok Bar Nings. Það kom upp fyrir nokkrum mánuðum að Nings menn vildu hætta með Wok Barinn í Smáralindinni og höfðu þeir því samband við mig. Við höfðum verið að líta í kringum okkur með húsnæði á svipuðum slóðum og leist okkur því strax vel á þetta.. Samningaviðræður tóku tiltölulega stuttan tíma við Nings og svo Smáralind og í lok júlí var þetta allt orðið klárt.

Þessi staður mun að mörgu leyti marka tímamót í sögu Serrano, því þarna munum við í fyrsta skipti opna alvöru, stóran stað með okkar eigin sal. Í dag rekum við staði inná bensínstöð og á matarsvæði í verslunarmiðstöð, þar sem við höfum enga stjórn á umhverfinu sem fólkið borðar í. Í Smáralind höfum við hins vegar fullt vald yfir því hvernig staðurinn mun líta út, hvernig tónlist verður spiluð og almennt séð hvernig andrúmsloftið verður.

Við réðum því til liðs við okkur hönnuð, sem hefur teiknað upp heildarútlit staðarins, sem ég held að verði mjög smart. Við munum líka leggja áherslu á að þetta verði fjölskylduvænni staður en hinir staðirnir eru í dag. Vinna við breytingar á staðnum eru nú þegar hafnar, en hann mun verða mjög ólíkur því sem að var þegar að Nings var þarna inni. Stefnt er að opnun í byrjun nóvember.

* * *

Meðal annars vegna þessa og líka alls í kringum Síam hefur vinnan mín verið ótrúlega spennandi og skemmtileg að undanförnu. Eftir einn mánuð verðum við komin með 4 veitingastaði og ég er að gæla við þann draum að salan í desember á Serrano og Síam verði meiri en ársveltan fyrsta árið, sem við vorum með Serrano í Kringlunni. Þar sem við höldum uppá 5 ára afmæli Serrano eftir tæpan mánuð, þá eru þetta spennandi tímar.

* * *

Þegar við keyptum tölvu fyrir Síam bað ég um að fá Windows XP inná tölvuna hjá Nýherja. Eitthvað virðist það hafa klikkað hjá þeim og því kom tölvan með Windows Vista. Þvílíkur bévítans hroðbjóður sem það stýrikerfi er nú. Fyrir það fyrsta þá fokkar það upp Office pakkanum okkar og núna þarf ég að leita í 20 mínútur að tökkunum sem ég notaði áður og auk þess þá koma upp einhverjar endalausar spurningar frá stýrikerfinu hvort ég sé viss um hvort ég vilji gera þetta eða hitt.

Annars sé ég ekki annað að þetta sé bara XP með rúnuðum gluggum og leiðinlegu böggi. Ég mun seint skilja af hverju allur heimurinn er ekki búinn að skipta yfir í Apple tölvur. Ég játa það alveg að fyrir 5-6 árum var ég ekkert með neitt sérstaklega mikið sjálfstraust sem Makka aðdáandi, en í dag þyrfti að borga mér stórar fjárhæðir fyrir að vinna vinnu þar sem ég þyrfti að nota Windows vél.

Annars hefur iPhone-inn minn það bara ágætt.

Like a Stone

Það er alltaf gaman þegar að tónleikar opna fyrir manni nýja sýn á lög. Það gerðist á Chris Cornell tónleikunum með lagið Like a Stone, sem ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af. En á tónleikunum var það frábært í órafmagnaðri útgáfu, svipaðri og sést hér.