« júlí 17, 2002 | Main | júlí 20, 2002 »

Leiðbeiningar fyrir Movabletype

júlí 18, 2002

Það virðist vera sem að margir séu að skipta yfir í Movabletype, sem er mjög gott mál. Nú þegar hafa Froskur, Erna & Möddi, Ragnar, Heiða og Gummijóh hafa skipt. (Uppfært : einnig Litlar Bloggstelpur og Guðmundur Daði.) Sennilega munu margir fylgja í kjölfarið, en það er ekki nema rúmur mánuður síðan ég byrjaði að nota forritið.

Allavegana, þá var Gummijóh með nokkrar spurningar, sem ég held að fleiri kunni að hafa þegar þeir skipta yfir í MT.

  1. Varðandi íslenskar dagsetningar, þá var ég búinn að senda fyrirspurn um þá og ætla hönnuðir MT að bæta íslensku við í næstu útgáfu. Fyrir þá, sem eru óþolinmóðir þá er einfalt að bæta þeim inn. Hérna eru leiðbeiningar fyrir að bæta inn finnsku. Sambærilegur texti fyrir íslensku er að finna hér.
  2. Varðandi broskallana í kommentunum hjá mér, þá þarf aðeins að fikta við eina skrá til að koma þeim inn. Til að hafa þá einsog hjá mér þá þarf fyrst að fylgja þessum leiðbeiningum og svo þessum leiðbeiningum
  3. Ef einhver nennir ekki að íslenska allt comment-dótið og slíkt, þá ætla ég að láta fylgja með mín template. Öllum er velkomið að nota template-in mín. Það eina, sem ég bið um er að þú annaðhvort minnist á það á síðunni þinni, sendir mér póst eða skrifir ummæli við þessa færslu um að þú hafir notað þau.
    • Comment listing (Ég hef ekkert Comment preview, af því að ég býð ekki uppá þann möguleika á síðunni minni.)
    • Comment error
    • Trackback listing
    • Individual archive template - Athugið að Individual archive template-ið mitt notar PHP fyrir nokkra eiginleika. Ef þú hefur ekki PHP á servernum þínum, þá mæli ég með því að þú setir það upp, því það býður uppá fullt af skemmtilegu dóti fyrir MT.
    • Það er nokkuð erfitt að útskýra Trackback kerfið en ég hvet alla til að setja það upp, þó að þeir viti ekki alveg hvernig á að nota það til að byrja með. Ég reyndi að skýra út kerfið í þessari færslu

Endilega ef einhverjir eru í vandamálum með MT, sendið þá inn ummæli hér og vonandi get ég hjálpað eitthvað. Gott væri að hafa smá umræður hér um vandamál og lausnir á MT tengdum málum. Ef þú finnur eitthvað sniðugt tengt MT sendu þá líka endilega inn ummæli.

Að lokum vil ég hvetja alla, sem nota MT til að gefa endilega smá pening til þeirra, sem skrifuðu forritið, því þau eiga það svo sannarlega skilið.

413 Orð | Ummæli (0) | Flokkur: Netið

Glæpur og refsing

júlí 18, 2002

Í fríinu mínu tókst mér loksins að klára að lesa Glæp og refsingu eftir Fyodor Dostoevsky. Þetta er kannski ekki ýkja merkilegt nema fyrir það að ég byrjaði að lesa þessa bók fyrir fjórum árum.

Ég keypti bókina fyrst á götumarkaði í Buenos Aires. Þar, í einhverju brjálæði, hélt ég að ég myndi fljúga í gegnum spænska þýðingu á bókinni, en ég gafst upp eftir um 100 blaðsíður og byrjaði að lesa styttri spænskar bækur, svo sem Animal Farm.

Ég var þó alltaf hálf svekktur yfir því að hafa gefist uppá bókinni. Fyrir um tveim árum las ég svo í Northwestern dagblaðinu viðtal við uppáhaldsprófessorinn minn, Irwin Weil, sem kenndi mér sögu Sovétríkjanna fyrir nokkrum árum. Í viðtalinu sagði Weil frá því hvernig hann heillaðist fyrst af Rússlandi. Hann var nemandi við University of Chicago þegar hann keypti sér á föstudegi bókina Glæp og refsingu. Hann tók hana með sér heim á heimavistina og byrjaði að lesa hana um kvöldið. Hann var svo heillaður af bókinni að hann hætti ekki að lesa fyrr en hann var búinn með bókina en það var á laugardagseftirmiðdegi. Eftir að hafa lesið bókina var hann svo staðráðinn í að læra rússnesku og hefur hann helgað ævi sinni rússneskri sögu.

Eftir að hafa lesið viðtalið varð ég aftur órólegur og fannst mér að ég ætti nú að drífa mig í að lesa bókina. Um jólin gaf Hildur mér svo eintak af enskri þýðingu bókarinnar. Ég byrjaði strax að lesa hana en einhvern veginnn tókst mér aldrei að klára hana... þangað til í fríinu fyrir um þrem vikum.

Allavegana, þá er bókin hrein snilld. Hún fjallar um Raskolnikov, sem er stúdent í St. Pétursborg. Hann er sannfærður um að allir merkustu menn mannkynssögunnar hafi þurft að fórna öðrum lífum til að ná sinni stöðu sem merkismenn sögunnar. Hann er sannfærður um að hann þurfi að taka líf annarra til þess að hann geti talist meðal þeirra manna, sem hann lítur upp til.

Snilligáfa Dostoevskys er augljós af því hvernig hann lýsir tilfinningum Raskolnikovs, hvernig hann reynir að sannfæra sjálfan sig um réttmæti glæpsins og hvernig hann glímir við sektina og hvernig ástin fær hann til að viðurkenna það að hann hafi gert eitthvað rangt.

370 Orð | Ummæli (0) | Flokkur: Bækur

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33