« IKEA | Aðalsíða | Michael Owen »

Home Improvement

september 25, 2002

Já, góðir gestir, ég er búinn að fara hamförum í smiðsleik síðustu klukkutíma. Kvöldið byrjaði á því að ég fór í heimsókn til systur minnar, þar sem mágur minn lánaði mér þessa fínu borvél.

Ég kom svo hingað heim og ætlaði að bora gat á einn veginn til að setja símasnúru í gegn (ég tími ekki að kaupa mér þráðlaust net. Einnig er öll tónlistin mín í tölvunni minni en græjurnar eru frammí stofu, þannig að ég þarf aðra snúru í það (ég tími ekki að kaupa mér þráðlausa tengingu við græjurnar). Fyrir þá, sem hafa aldrei borað gat í vegg á ævinni, þá er það ekki alveg jafn auðvelt og það hljómar. Allavegana ekki ef maður vill hafa gatið þráðbeint í gegnum vegginn. Það tókst ekki alveg hjá mér og því fór borvélinn uppí loftið í hinu herberginu og tók allstóran bita úr því ágæta lofti. Það kom þó ekki að sök enda löngu búið að finna upp spasl.

Núna er semsagt komið þetta fína gat á svefnherbergið mitt og að auki tók ég mig til og boraði þrjú göt á stofuvegginn og setti svo upp gluggakistuna, sem ég hafði í einhverju æðiskasti tekið niður þegar ég ætlaði að mála allt. Núna get ég farið að sofa sáttur við lífið og tilveruna.

Einar Örn uppfærði kl. 23:14 | 215 Orð | Flokkur: Dagbók



Ummæli (1)


Það væri nú skondið að sjá myndir af þessum aðgerðum öllum. Þá sérstaklega gatinu í loftinu! :-)

Ólafur Bjarki sendi inn - 26.09.02 10:21 - (Ummæli #1)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu