« Movabletype og Brasilía | Aðalsíða | Laugardagsköld »

Landsleikurinn

12. október, 2002

Leikurinn við Skota í dag var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir. Fyrra mark skota var náttúrulega fáránleg óheppni og eftir það var þetta erfitt fyrir íslenska liðið þrátt fyrir ágætis spretti inná milli.

Ég horfði á leikinn í sjónvarpi og verð ég að segja að ég vona að Njáll Eiðsson muni aldrei aftur lýsa leik með íslenska landsliðinu. Það leið ekki ein mínúta án þess að Njáll fyndi eitthvað nýtt til að kvarta yfir.

Mér ofbauð líka fjölmiðlaumfjöllunin eftir leikinn. Atli þjálfari var áðan í viðtali á Stöð 2. Þar var Snorri Már Skúlason í þvílíkum ham og baunaði stanslaust á Atla. Spurði m.a. Eggert Magnússon (sem sat við hliðiná Atla) hvort það stæði til að reka Atla. Þetta viðtal var fyrir neðan allar hellur. Það er með ólíkindum að landsliðsjálfari í fótbolta skuli vera tekinn í svona viðtal á meðan stjórnmálamenn eru ALDREI teknir svona fyrir í viðtölum. Mér þætti til dæmis gaman að sjá Snorra Má í svona ham á móti Davíð Oddsyni.

Þessi gagnrýni á Atla er náttúrulega komin útí tóma vitleysu. Hann fær aldrei að velja hópinn í friði án þess að Guðjón Guðmundsson og einhverjir ámóta klárir íþróttafréttamenn telji upp lista með öllum hugsanlegum knattspyrnumönnum, sem Atli valdi ekki.

Svo toppaði Snorri Már allt með því að telja upp galla Árna Gauts markvarðar, en fyrra markið var honum að kenna. Árni er sennilega einn besti (ef ekki sá besti) markmaður, sem Íslendingar hafa átt og hefur nær undantekningalaust veri besti maður Rosenborg í Meistaradeildinni.

Skoska pressan sýndi hversu mikilvægir fjölmiðlar geta verið fyrir landsleik. Þeir gerðu lítið úr vonum sinna manna og létu þjálfarann í friði fyrir leikinn. Það tók gríðarlega pressu af leikmönnum. Hér á Íslandi eru leikmennirnir hins vegar ásakaðir um að gefa sig ekki alla í leiki og fyrir að vera í fríi hérna á Íslandi. Svo koma alltaf upp gagnrýnisraddir, sama hvernig Atli stillir upp liðinu.

Einar Örn uppfærði kl. 19:27 | 318 Orð | Flokkur: Íþróttir



Ummæli (0)


Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu