« Jólagjöfin mín í ár | Aðalsíða | Hvað er að Liverpool? »

Blogg athygli

10. desember, 2002

Það eru athyglisverðar umræður í gangi á vefnum hans Bjarna um það hvort blogg sé einkamál eður ei.

Þar eru Bjarni og félagar að deila við Sverri Jakobsson og fleiri um það hvort siðlegt sé að vísa í blogg færslur. Ég er að flestu leyti sammála þeim Bjarna og félögum um það að ef menn setja eitthvað á netið, þá sé fólki frjálst að vísa í það svo lengi sem það sé ekki gert í þeim tilgangi að gera lítið úr viðkomandi aðila.

Ég á hins vegar við dálítið öðruvísi vandamál að stríða. Þannig er mál með vexti að Leit.is elskar síðuna mína. Movabletype, kerfið sem ég nota til að uppfæra síðuna býr til nýja HTML síðu fyrir hverja færslu. Þannig að ef ég fjalla um einhvern ákveðinn aðila einsog til dæmis Britney Spears, þá kemst síðan mín ofarlega í leitarniðurstöður á leit.is vegna þess að á viðkomandi síðu er Britney Spears áberandi nafn.

Ég get auðveldlega séð hversu vinsæll ég er á leit.is með því að skoða gamlar færslur. Það kemur nefnilega fram á öllum færslum hver vísaði á síðuna. Þannig vísaði katrín.is á þessa færslu og því fékk ég um 230 heimsóknir frá henni.

Margar gamlar færslur mínar eru stuttar og ég fæ oft létt sjokk þegar ég sé að fullt af fólki hefur komið inná einhverja eld gamla færslu. Til dæmis minntist ég á Britney Spears í einni færslu fyrir rúmum tveimur árum og hef fengið eitthvað fáránlegt magn af tilvísunum frá leit.is. Þetta er ein færsla, sem er í engu samhengi við neitt annað á síðunni. Ég var eitthvað fúll útí fjölmiðlaherferð Britney og skrifaði stutt um það á síðuna. Vegna þess lenti til dæmis gaurinn, sem var að leita að Britney spears og annna konrecofa inná minni síðu.

Fyrst fannst mér þetta voða sniðugt en núna hef ég oftar og oftar fengið einhver fáránleg komment frá einhverjum óþroskuðum bjánum, sem koma inná síðuna mína eftir þessari leið. Ég er til dæmis nýbúinn að eyða út kommenti frá einhverjum hálfvita, sem var að hóta mér öllu illu.

Ég á dálítið erfitt að gera upp við mig hvort mér finnist gaman að athyglinni eða hvort best væri að gera eitthvað svo að leit.is hætti að leita á síðunni minni. Náttúrulega segir þetta líka margt um það hversu slöpp leitarvél leit.is er.

Til dæmis ef leitað er að "Afkvæmi Guðanna á leit.is þá er mín síða fyrstu þrjár niðurstöðurnar. Þetta er náttúrulega fáránlegt því að Afkvæmi Guðanna eru með eigið blogg (reyndar með .com addressu). Ef ég geri sömu leit á Google, þá kemur bloggið þeirra fyrst upp, einsog þetta ætti að vera.

Ef ég leita að "Sverrir Jakobsson" á Leit.is þá er mín síða 2,4,6,7,9 og 10. Það mætti halda að ég hugsaði ekki um annað en hann. Allar þessar vísanir eru vegna einnar stuttrar deilu, sem ég átti við hann á netinu. Þetta er náttúrulega bull.

Einar Örn uppfærði kl. 21:21 | 486 Orð | Flokkur: Netið



Ummæli (5)


Þú átt samúð mína óskipta vegna heimsókna þeirra sem hafa ekki húmor/skilning/umburðarlyndi gagnvart því sem þú bloggar og skilja eftir sig ör í ummælakerfinu.

Sverrir Guðmundsson sendi inn - 10.12.02 21:41 - (Ummæli #1)

Ég var nú ekki að biðja um samúð. Það hefur nú ekki mikil áhrif á mig að ég sé kallaður hommi af einhverjum bjánum. :-)

Einar Örn sendi inn - 10.12.02 21:51 - (Ummæli #2)

Já, þetta er erfitt líf að vera svona spyrtur við Britney Spears. En kannski gaman að fá smávegis af athyglinni sem sáldrast á goðin. Gneistaflugið frá Katrínu skellur líka á þér, ekki síst þegar þú segist hafa fengið X margar heimsóknir frá henni, hún bloggar þá um það og þú færð aftur Y margar heimsóknir og bloggar um það og hún bloggar um vinsældir sínar og þú færð Z margar…. úfff.. er þetta ekki kallað ítrekun… kannski þetta sé einhvers konar tegrun…ég er á hálum ís…. :-)

En ég er bara sátt við mína leitarvél google.com ég nenni eiginlega ekki að fletta upp í sjálfri mér nema með henni og þar virkar frekar vel. t.d. ef ég slæ inn femínismi þá kem ég ofarlega en ef ég vil bara mínar færslur þá slæ ég inn tvö leitarorð “femínismi Salvör” og bara blessa þetta frábæra leitartól sem hugsar fyrir mig og man allt.

Salvör sendi inn - 11.12.02 10:24 - (Ummæli #3)

Húff - svo er þessi færsla komin efst á leit.is núna ef t.d. er leitað eftir Afkvæmum guðanna. Er þetta endalaus lúppa? Er þetta ekki hættulegt? Þessar pælingar eru mér ofviða - ég er hættur að geta sofið. Allt hringsnýst í huga mér. :-)

Scweppes sendi inn - 12.12.02 11:16 - (Ummæli #4)

Settu einhverja gáfulega robots.txt skrá inn á vefrótina hjá þér, sem að bannar leitarvélum að indexa /archives/

Sjá t.d.: http://www.robotstxt.org/wc/robots.html http://www.robotstxt.org/wc/exclusion.html

:-)

egill sendi inn - 14.12.02 23:22 - (Ummæli #5)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu