« Virkjanahagvöxtur | Aðalsíða | Frí »

Áramótablogg

31. desember, 2002

Þá er þetta ár alveg að verða búið og þá fer maður náttúrulega að hugsa um hvað hafi gerst á árinu, hvað ég hefði átt að gera betur og svo framvegis.

Þetta er búið að vera ótrúlega viðburðarríkt ár. Ég hefði sennilega ekki trúað því fyrir einu ári að ég yrði í lok árs búinn að hætta með Hildi, hætta við öll ferðalögin, útskrifast og fá verðlaun fyrir BA ritgerðina, flytja í eigin íbúð á Hagamelnum og stofna veitingastað í Kringlunni.

Það má segja að þetta ár hafi einkennst af miklum sveiflum. Prívatmálefni hafa verið erfið, enda held ég að það geti aldrei verið auðvelt að skilja við manneskju, sem maður hefur búið með í fjögur ár. Ég hef þó lært gríðarlega mikið á þessum tíma og tel að ég sé betri og vitrari maður en ég var fyrir einu ári. Núna í lok árs er ég allavegana ágætlega sáttur við mína stöðu og lít björtum augum á næsta ár.

Á námssviðinu var ég gríðarlega ánægður með endalokin á háskólanáminu. Ég átti þrjú frábær ár í Northwestern og ég sé alls ekki eftir þeirri vinnu, sem ég lagði í námið þar. Þrátt fyrir að einhverjir setji sennilega spurningamerki við það hvernig hagfræðinám nýtist við rekstur veitingastaðar, þá hefði ég ekki viljað breyta miklu varðandi námið. Ég er líka ákveðinn að fara í framhaldsnám eftir nokkur ár og þar tel ég að hagfræðigrunnurinn frá Northwestern muni koma sér mjög vel.

Allur darraðadansinn í kringum Serrano hefur auðvitað verið gríðarlega lífsreynsla. Það er hreint með ólíkindum að okkur Emil skuli hafa tekist að gera þetta allt á innan við einu ári. Þrátt fyrir að hugmyndin hafi kviknað hjá okkur fyrir nokkrum árum og þróast hjá mér og Hildi síðustu tvö ár, þá talaði ég í raun í fyrsta skipti formlega um þetta við Emil í janúar. Þá voru hugmyndirnar reyndar gjörólíkar því, sem varð ofan á. Það var í raun ekki fyrr en eftir eina kennslustund með Michael Maremont í maí að ég sannfærðist um hvað yrði besta leiðin fyrir okkur.

Staðurinn varð svo að raunveruleika á þrem mánuðum eftir að ég kom heim í ágúst. Eftirá að hyggja var það sennilega heppni hversu illa okkur gekk í byrjun, því að húsnæði í Kringlunni losnaði akkúrat á réttum tíma. Eftir að staðurinn opnaði hefur þetta gengið nokkuð vel og ég er í enda árs mjög stoltur af því sem ég hef, með aðstoð Emils og góðs fólks í kringum okkur, áorkað.

Þannig að ég er þó nokkuð bjartsýnn á næsta ár. Annars vil ég bara þakka þeim, sem skoðuðu þessa síðu á árinu og ég vona að einhverjir hafi haft gagn og gaman af. Gleðilegt ár!

Einar Örn uppfærði kl. 16:59 | 446 Orð | Flokkur: Dagbók



Ummæli (0)


Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu