« maí 06, 2003 | Main | maí 09, 2003 »

Vá maður, pældu í þessum Úngu Sjálfstæðismönnum!

maí 08, 2003

Ungir sjálfstæðismenn eru þjóðflokkur, sem fer oft alveg óheyrilega mikið í taugarnar á mér á stundum.

Þrátt fyrir að ég sé hægri maður og telji mig oft vera sammála þessum krökkum, þá er margt sem rýrir trúverðugleika þessa fólks.

Fyrst og fremst sú staðreynd að þeir gleyma alltaf sannfæringu sinni, hugmyndafræði og sjálfstæði nokkrum vikum fyrir kosningar. Þá ákveða ungir sjálfstæðismenn að þeirra hugmyndafræði skipti engu máli, heldur byrja þeir að apa upp eftir Davíð og þeirra helsta baráttumál verður að gefa ungu fólki bjór til þess að það kjósi örugglega flokkinn.

Einnig er það krónískur fylgikvilli þess að vera ungur sjálfstæðismaður að þegar viðkomandi kemst í áhrifastöðu, þá fá menn væg einkenni Alzheimer og gleyma öllu því, sem þeir hafa áður staðið fyrir, og breytast í gallharða íhaldsmenn. Þannig er Sigurður Kári strax búinn að gleyma því að hann studdi einu sinni frjáls viskipti og hefur þess í stað ákveðið að styðja ríkisábyrgðir og ríkisframkvæmdir Davíðs.

Helsta framlag ungra Sjálfstæðismanna í kosningabaráttuna í ár er svo núna fáránlegur hræðsluáróður í garð ESB aðildar. Þessi auglýsing er ótrúleg!!.

Í henni er gefið í skyn að Evrópusambandsaðild þýði að það verði jól á hverjum degi fyrir spænska, skoska og portúgalska sjómenn. Auglýsingin gefur í skyn að Ísland muni afsala sér öllum rétti yfir fiskinum í sjónum. Þetta er svo mikil della að það er ekki fyndið! Samfylkingin hefur ítrekað (kannski ekki nógu oft fyrir unga sjálfstæðismenn, þeir eru of uppteknir af hneykslast á því að Samfylkingin vilji að stjórnvöld eigi ekki að skipta sér af fyrirtækjum á Íslandi) sagt að grundvallarskilyrði fyrir aðild Íslendinga að ESB séu áframhaldandi áhrif yfir auðlindinni. Ef ekki tekst að semja um það, þá verður ekkert samið.

Þessi auglýsing endar á orðunum: Sumir stjórnmálaflokkar á Íslandi vilja ganga í Evrópusambandið. Pældu í því.

Ég ætla að búa til fleiri slagorð á svipuðum nótum, sem ungir sjálfstæðismenn gætu notað.

  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að veita einu fyrirtæki ríkisábyrgð fyrir 20 milljarða. Pældu í því!
  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að nokkrir áhrifamiklir kallar ákveði það að Ísland skuli styðja stríð í öðrum heimshluta. Pældu í því!
  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að setja kínverskt fimleikafólk í fangelsi á meðan að ríkisstjórnin tekur á móti kínverskum kommúnistaleiðtogum. Pældu í því!

386 Orð | Ummæli (17) | Flokkur: Stjórnmál

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33