« Moskva | Aðalsíða | Halló heimur, ég er þunnur. »

St. Pétursborg

ágúst 29, 2003

Ok, kominn til Leningrad (eða einsog kapítalistasvínin vilja kalla borgina: St. Pétursborg). Kom hingað kl. 8 í morgun með lest frá Moskvu. Lestin fór af stað á miðnætti frá Leningrad stöðinni í Moskvu. Lestin var snilld. Ég var í klefa með einhverjum Rússa, sem gaf mér bjór þrátt fyrir að ég gæti ekkert talað við hann. Hann kinkaði bara kolli og brosti þegar ég fékk mér sopa. Rússar eru snillingar!

Allavegana, kom hérna í morgun og er ennþá að bíða eftir því að komast inná hótel, en ég fæ ekki herbergi fyrr en klukkan 12 (sem er eftir nokkrar mínútur). Ég er því búinn að eyða morgninum inná kaffihúsum við Nevsky Prospekt, drekkandi Espresso og lesandi Fávitann eftir Dostojevsky. Hvað er meiri snilld en að lesa Dostojevski inná kaffihúsi á Nevsky Prospekt í St. Pétursborg? Ég veit ekki!

En ég var alveg að sofna við lesturinn og dugðu þrír Espresso bollar skammt. Því ákvað ég að labba aðeins um Nevsky Prospekt og endaði inná þessu netkaffihúsi. Ég þarf NAUÐSYNLEGA að komast í sturtu.


Í gær fór ég í smá túr um Gullna Hringinn, sem er safn af minni bæjum og borgum í nágrenni Moskvu, oft kallað hjarta Rússlands. Fór til Suzdal-Vladimir, sem var áður fyrr höfuðborg Rússlands. Þar sá ég fleiri Rússneskar réttrúnaðarkirkjur en ég kæri mig um og fékk ég í lok dags það sem Lonely Planet kallar ORCO eða "Old Russian Church Overload".

Það er nokkuð ljóst að Krutzhev tókst ekki áætlunarverk sitt að útrýma trúnni úr huga Rússa. Það er í raun magnað hversu trúaðir Rússar eru eftir öll þessi ár undir kommúnismanum. Allavegana, þá var ég í þessum túr með gæd. Ég reyni að forðast það einsog heitan eldinn að ferðast með gædum, en ég varð að láta undan í þetta skipti, þar sem erfitt var að komast á þessa staði nema á bíl (sem í þetta skiptið var glæsileg 15 ára gömul Lada, sem byrjaði að titra þegar hún fór yfir 80 km hraða).

Gædinn minn var indæl kona, sem stórlega ofmat áhuga minn á rússneskum kirkjum. Áhuginn minn er þannig að fyrstu 10 kirkjurnar, sem ég sé vekja áhuga minn og aðdáun en næstu 30 gera mig frekar leiðan. En allavegana, þá var túrinn mjög skemmtilegur og sérstaklega gaman að sjá Suzdal, þar sem mörg húsin eru gríðarlega gömul og lífið líkist að mörgu leyti því lífi, sem fólk lifði fyrir byltinguna.


Ég ætla sem sagt að vera hérna í St. Pétursborg fram á miðvikudag. Ætla að taka mér góðan tíma í að skoða Hermitage, rölta um göturnar, skoða minnismerki um umsátrið um Leningrad og svo líka slappa af á kaffihúsum borgarinnar. Já, og djamma.

Annars leið mér ótrúlega skringilega á lestarstöðinni í Moskvu. Ég fann fyrir einhverju ofboðslegu frelsi. Tilfinning, sem ég hef ekki fundið fyrir síðan við vinirnir ferðuðumst um Suður-Ameríku. Frelsistilfinning, sem stafar af því að maður er einhvers staðar, þar sem enginn veit af manni, enginn þekkir mann og manni líður einsog maður geti gert hvað sem maður vill, farið hvert sem er og gert hvað sem er. Þetta hefur bara komið fyrir mig á "bakpoka-ferðalögum". Yndisleg tilfinning.


Annars þá kvaddi ég í gær babúshkuna, sem hefur geymt lykilinn fyrir mig á hótelinu síðustu daga. Ég hef notað hana til að gera tilraunir á rússnesku kunnáttu minni. Ég hef alltaf reynt að segja "zdrastvuyte" (sem er Halló á rússnesku) við hana en hún svarar alltaf með einhverjum orðaflaumi, sem ég skil aldrei hvort að þýði "æji, hæ sjálfur, dúllan mín" eða "lærðu almennilega rússnesku, auminginn þinn". Babúshkur virðast sannfærðar um að ef maður skilji þær ekki, þá sé nóg fyrir þær að hrópa setninguna aftur, þá hljóti maður að skilja þær. Það er hins vegar misskilningur, allavegana í mínu tilfelli.

Vá, ég held að öll espressoin séu loksins farin að virka.


Og já, þess má til gamans geta að Crazy In Love er líka vinsælt í Rússlandi. Ég tippa nú á Afganistan og Myanmar sem einu löndin í heiminum, þar sem það lag er ekki vinsælt.

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 12.19)

Einar Örn uppfærði kl. 08:19 | 672 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (1)


Ánægður með þig. Snilld að fylgjast með þessu. Góða skemmtun.

bio sendi inn - 29.08.03 10:22 - (Ummæli #1)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu