« Hvernig má bjarga Liverpool | Aðalsíða | Hvernig má bjarga Liverpool »

Gyðingahatur í Frakklandi

mars 14, 2004

Nidra Poller, bandarískur rithöfundur, sem hefur búið í París undanfarin 30 ár, er flutt aftur til Bandaríkjanna. Ástæðan? Gyðingahatur í Frakklandi hefur aukist svo mikið að Gyðingar óttast um líf sitt í borginni. Poller skrifar góðar ritgerð um ástandið: Betrayed by Europe

Jews are being persecuted every day in France. Some are insulted, pelted with stones, spat upon; some are beaten or threatened with knives or guns. Synagogues are torched, schools burned to the ground. A little over a month ago, at least one Jew was savagely murdered, his throat slit, his face gouged with a carving knife. Did it create an uproar? No. The incident was stifled, and by common consent—not just by the authorities, but by the Jews.

Some Jews are simply frightened; they are reluctant to take the subway, walk in certain neighborhoods, go out after dark. Others, clearly identifiable as Jews, are courageous and defiant. Many, perhaps the majority, show no outward signs of Jewishness and do not seek to know the truth about the rampant and increasingly violent anti-Semitism all around them. If you are Jewish but do not defend Israel or act too religious or look too different, you are not yet a target—so why insist on monitoring the danger when daily life is so delicious?

Sjá einnig athyglisverðar fréttaskýringar frá BBC: French Jews leave with no regrets og France tackles school anti-Semitism. (via MeFi)

Einar Örn uppfærði kl. 12:27 | 233 Orð | Flokkur: Stjórnmál



Ummæli (4)


Já, Gyðingahatur er nokkurt í Frakklandi. Aftur á móti er ég hæfilega skeptískur á alla umræðu “sannra” Gyðinga um anti-semítisma. Þetta er nefnilega miklu flóknari “hatur” en hægt sé að tala um þetta allt sem einn hlut.

Það Gyðingahatur sem veldur mestum áhyggjum eru árásir múslima á synagógur og skóla Gyðinga.

Í París búa um 350 þús. Gyðingar (skv. Heimsráði Gyðinga) af samtals ca. 600 þús. Gyðingum í Frakklandi. Af þeim eru 60% Sephardi Gyðingar sem fluttu á 6. og 7. áratugnum frá Norður-Afríku til Frakklands. Eftir stríðið höfðu 80 þús. Ashkenazi Gyðingar sest að í landinu. Um 4% Gyðingabarna sækja skóla Gyðinga í Frakklandi, sem er nokkuð lágt hlutfall m.v. annars staðar í heiminum. Í París einni eru yfir 20 skólar Gyðinga, auk leikskóla og annarra stofnanna. Einungis 40% franskra Gyðinga eru ekki skráðir í synagógur og taka ekki þátt í “gyðinglegu” lífi. Á móti kemur að innan samfélags Gyðinga í Frakklandi hefur það valdið ólgu að ultra-orþadox Gyðingum hefur vaxið ásmegin, um 7% fylgja þeim. Fjórðungur Gyðinganna frönsku fylgja kashrut líferni, sem segir sitthvað um fjölda trúaðra.

Gyðingahatur er alvarlegur hlutur. Af skiljanlegum ástæðum er menn viðkvæmir fyrir fréttum af því. Aftur á móti má spyrja sig hverjir verða fyrir árásunum og hvers vegna. Stundum málar fólk líka skrattann á vegginn og ruglar saman anti-semítisma, anti-zíonisma og mótmælum við Ísraelríki. Nýlega birtist grein í Foreign Policy þar sem anti-globalisation mótmælendur voru sagðir and-Gyðinglegir.

Árásir á múslima í Bandaríkjunum, sem eru tæpt 1% af íbúunum, hafa ekki farið hátt í fréttum, hvorki í Bandaríkjunum né utan þeirra. Þeir sem fylgst hafa með því og þekkja til furða sig á því hve lítið hefur frést af þeim. Ekki er óalgengt að yfir 90% þeirra sem útskrifast úr háskólum en bera arabísk nöfn fái ekki vinnu eftir útskrift. Þeir sem vilja fá vinnu skipa jafnvel um nafn til að eiga einhverja möguleika. Þetta er að gerast í “frjálslynda” Nýja-Englandi.

Í Evrópu verða synagógur Gyðinga fyrir árásum, sem er grafalvarlegur hlutur. Gyðingar eru áreittir og á þá ráðist. Hversu margir af þeim bera (stoltir) einkenni Gyðinga. Sanntrúaðir karlar fara ekki fram hjá neinum, hverrar trúar þeir eru. Þeir eru stoltir af uppruna sínum og trú og bera það útlitslega með sér. Fyrir vikið eru þeir gangandi skotmörk, því miður.

Árið 2001 markaði upphafið af þessari bylgju “Gyðingahaturs”. Er þá hægt að segja að um sannkallað Gyðingahatur sé að ræða? Í fæstum tilfellum myndu þessar árásir hafa átt sér stað ef ekki væri fyrir það sem á sér stað í Palestínu/Ísraelríki. Því miður eru fórnarlömbin saklaus, sama hverrar skoðunar þau kunna að vera. Þau eru ekki fórnarlömb hryðjuverka líkt og í Istanbúl, þau eru fórnarlömb vonbrigða, vonleysis og niðurlægingar. Þau eru fórnarlömb sem eru í senn áberandi og aðgengileg. Því miður.

Önnur tengund “Gyðingahatursins” evrópska er af hendi kristinna Evrópubúa. Frá Spáni norður til Skandinavíu eru Evrópumenn vændir um Gyðingahatur alltof oft þegar þeir gagnrýna Ísraelsríki. Sumir hafa vissulega horn í síðu Gyðinga en alltof oft er fólk sakað um Gyðingahatur þegar það gagnrýnir og hefur e.t.v. uppi ófögur orð um Ísraelsríki eða Ísraelsmenn. Hugtakið “Ísraelar” er því miður of oft notað þegar fólk talar um Ísraelsstjórn.

Gyðingahatrið evrópska er alvarlegt en það er engum til framdráttar að fella undir það hluti sem eiga ekki við. Hið nýja evrópska Gyðingahatur er af hendi ungra, reiðra múslima, oft atvinnulausra, illa menntaðra ungra manna sem lifa við vonleysi og tækifærisleysi. Lenda í óæskilegu limbói milli afmarkaðs íslamsks samfélags og opins evrópsks veruleika. Of margir meðtaka boðskap öfgamanna, rétt einsog átti sér stað fyrir ekki svo mjög löngu síðan, af öðrum en samt svipuðum ástæðum, í sömu álfu.

Ágúst sendi inn - 14.03.04 16:56 - (Ummæli #1)

Jamm, góðir punktar þarna Ágúst. Þú fellur samt dálítið í þá gryfju að afsaka gyðingahatur Araba vegna þess að þeir eigi svo bágt. Staðreyndin er sú að leiðtogar Múslimar predika Gyðingahatur og eru fylgjendur þeirra alltof meðtækilegir fyrir því hatri.

Eflaust rugla menn stundum saman And-Semítisma og And-Síonisma, en þó ber að taka fram að það er ekki verið að ráðast á tákn Ísraels, heldur fyrst og fremst tákn Gyðingdóms. Það er ráðist á bænahús og fólk, sem ber trúartákn, en ekki sendiráð Ísraela.

Margir nýta sér líka illvirki Ísraelsstjórnar til að afsaka Gyðingafordóma sína.

Annars veit ég að við erum báðir Woody Allen aðdáendur og því fannst mér þessar bréfaskriftir milli Allen og Ed Koch áhugaverðar.

Einnig athyglisverð grein úr Le Monde: Are the French really antisemitic?

Einar Örn sendi inn - 14.03.04 19:31 - (Ummæli #2)

Þú fellur samt dálítið í þá gryfju að afsaka gyðingahatur Araba vegna þess að þeir eigi svo bágt. Staðreyndin er sú að leiðtogar Múslimar predika Gyðingahatur og eru fylgjendur þeirra alltof meðtækilegir fyrir því hatri.
Mikið rétt, enda sagði ég:
Hið nýja evrópska Gyðingahatur er af hendi ungra, reiðra múslima, oft atvinnulausra, illa menntaðra ungra manna sem lifa við vonleysi og tækifærisleysi. Lenda í óæskilegu limbói milli afmarkaðs íslamsks samfélags og opins evrópsks veruleika. Of margir meðtaka boðskap öfgamanna, rétt einsog átti sér stað fyrir ekki svo mjög löngu síðan, af öðrum en samt svipuðum ástæðum, í sömu álfu.
Það sem ég átti við og vildi benda á er að rætur “Gyðingahatursins” eru ólíkar. Það útskýrir líka “sveiflurnar” í árásum á Gyðinga, hvers vegna þær hafa aukist síðan 2001.

Með árásir á Ísraelsríki og Ísraelsstjórn (í orði) og þegar það er stimplað sem and-semítismi eða Gyðingahatur þá átti ég aðeins við að sumir, sér í lagi sumir ísraelskir og bandarískir Gyðingar, blanda þessu saman þar sem það hentar þeim en rýra um leið málstað sinn. Gyðingahatur er grafalvarlegur hlutur og á ekki að blanda (yfirleitt) ótengdri andúð á stefnu Ísraelsstjórnar við það. Ef ég segi að Bush sé hálfviti, hata ég þá alla Texasbúa?

Hatur brýst út með mörgum hætti. Hatrið sem sést í árásum á synagógur og skóla Gyðinga er að mörgu leyti árás á Síonisma. Fórnarlömbin eru áberandi og aðgengileg, ólíkt sendiráðum Ísraela, sem enginn myndi komast upp með að gera árás á nema með mjög vel skipulögðu hryðjuverki.

Það sem ég vildi líka benda á er að “Gyðingahatrið” sem menn finna fyrir í Evrópu í dag er af öðrum toga en sást áður fyrr, allt fram á miðja 20. öldina. Þetta “Gyðingahatur” er sveiflukenndara, ristir ekki djúpt meðal almennings og er í raun verk fárra öfgamanna.

Ágúst sendi inn - 14.03.04 22:08 - (Ummæli #3)

Jamm, ég er í raun sammála þessu öllu. Það fer alveg jafnmikið í taugarnar hjá mér þegar menn gera andstæðinga stefnu Ísraelsríkis að gyðinahöturum, einsog þegar að gyðingihatar afsaka fordóma sína með því að það sé allt gagnrýni á Ísrael.

Einar Örn sendi inn - 14.03.04 23:08 - (Ummæli #4)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu