« Hamingja | Aðalsíða | The War President »

Börn og auglýsingar

apríl 19, 2004

Í Íslandi í Dag var rætt um þá hugmynd að banna auglýsingar, sem beint er að börnum. Í þættinum voru tveir aðilar, sem ræddu um börn, auglýsingar og möguleikann á slíku banni. Áður en ég held áfram tek ég fram að ég er markaðsstjóri hjá fyrirtæki, sem markaðssetur vörur, sem í sumum tilfellum höfða til barna

Það kemur mér sífellt á óvart hversu fljótt Íslendingar grípa í það úrræði að vilja setja lög um alla skapaða hluti. Það má ekki koma upp eitt vandamál án þess að einhver vilji setja um það lög. Þetta er svona svipað og með gatnamót á Höfuðborgarsvæðinu. Ef að einn bíll hefur einhvern tímann þurft að bíða í 30 sekúndur á þeim gatnamótum, þá dettur alltaf einhverjum sérfræðingi hjá borginni í hug að setja þar umferðarljós. (Augljósasta dæmið, sem hefur pirrað mig óendanlega, eru ný ljós á gatnamótum Hofsvallagötu og Hagamels. “But I digress” :-) )

Allavegana, einhverjir vilja banna auglýsingar sem beint er að börnum, án þess að gera sér nokkra hugmynd um hversu víðtækar auglýsingarnar eru, og að það er ekki nokkur leið að stoppa þær án þess að mismuna fyrirtækjum gríðarlega.

Það angrar mig þegar fólk fer fram á lagasetningu, án þess að gera sér grein fyrir umfangi hlutanna, eða án þess að hafa hugsað hlutina vel. Lagasetning um auglýsingar sem beint að börnum yrði aldrei sanngjörn, né myndi hún nokkurn tímann ná takmarki sínu.

  • Lagasetningingarhugmyndin hljómar einföld: “Að banna auglýsingar, sem beinast að börnum”. Framkvæmdin er hins vegar alls ekki einföld. Í fyrsta lagi horfa börn ekki einungis á barnatíma í sjónvarpinu. Þau horfa á gamanþætti með foreldrum, 70 mínútur og ótal aðra þætti. Þau láta glepjast ekki einasta af auglýsingum beint að þeim, heldur einnig auglýsingum beint að fullorðnum.

  • Markaðssetning að börnum er svo miklu víðtækari en svo að hún sé aðeins í auglýsingatímum fjölmiðla. Í sjálfu barnaefninu er fullt af markaðssetningu. Disney myndir eru nánast einsog ein löng auglýsing fyrir barnamáltíðirnar á McDonald’s, Latibær er auglýsing fyrir alls konar vörur tengdar Latabæ, Spiderman 2 er löng auglýsing fyrir allar vörur tengdar þeirri mynd. Hvernig ætlum við að stjórna þessum auglýsingum?

  • Hvað með markaðssetningu á vörunni sjálfri. Sennilega mikilvægasti hluturinn við alla markaðssetningu á neysluvöru er útlitið á vörunni sjálfri. Af hverju haldiði að fuglinn á Cocoa Puffs pökkunum eða Tony the Tiger á Frosties pökkunum horfi niður? Þeir eru auðvitað að reyna að ná augnsambandi við krakka þegar pakkinn situr í búðarhillu. Vörur, sem eru ætlaðar krökkum eru í litríkum pökkum með teiknimyndakarakterum, sem höfða til þeirra. Á að setja reglur um útlit á slíkum pökkum?

Ég er vissulega á því að markaðssetning gagnvart börnum geti í ansi mörgum tilfellum verið afar varasöm. Við megum hins vegar passa okkur á því að óska ekki strax eftir boðum og bönnum.

Fyrirtæki eiga að móta sér almenna stefnu varðandi markaðssetningu gagnvart börnum. Þá skiptir það engu máli hvort auglýsingarnar hvetji til æskilegrar hegðunnar, svo sem sparnaðar í bönkum eða óæskilegar, til dæmis neyslu á hamborgurum og frönskum á McDonald’s. Gróf markaðssetning þar sem höfðað er til trúgirni barna er engu fyrirtæki til sóma. Hins vegar mun lagasetning ekki bæta neitt.

Einar Örn uppfærði kl. 19:49 | 521 Orð | Flokkur: Vinna



Ummæli (0)


Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu