« apríl 21, 2004 | Main | apríl 26, 2004 »

Búdapest

apríl 25, 2004

Kominn aftur eftir frábæra helgi í Búdapest.

Við komum á fimmtudagskvöld til Búdapest og gistum á frábæru hóteli. Fyrsta kvöldið fór ég með yngra fólkinu hjá Danól útað borða niðrí miðbæ. Okkur gekk reyndar hálf erfiðlega að finna miðbæinn, en það tókst að lokum og við enduðum á fínum stað.

Á föstudeginum áttu allir að fara í skoðanaferð í rútu um borgina en eitthvað klúðraðist og því fór ég með nokkrum öðrum í sjálfstæða skoðunarferð um borgina. Tókum taxa yfir í Búda (Búdapest skiptist í tvo hluta, Búda og Pest, við gistum í Pest), uppað gamla hluta borgarinnar, þar sem við löbbuðum um í átt að konungshöllinni.

Við löbbuðum svo yfir Dóná yfirí Pest, þar sem við löbbuðum að þinghúsinu (þar sem þessi æðislega mynd af mér og Geir Leó - herbergisfélaga mínum í þessari ferð - er tekin), og svo yfirá Margrétareyju þar sem þessum 5 klukkutíma göngutúr lauk.


Um kvöldið var svo árshátíðin haldin á “veitingastað” í Búda hlutanum. Árshátíðin var frábær, þrátt fyrir að maturinn hefði verið slappur. Inngangurinn á staðinn var hlaðinn viðurkenningum, meðal annars viðurkenningu fyrir að hafa verið valinn besti veitingastaðurinn í Búdapest af einhverju blaði. Það vakti hjá mér tvær spurningar: Í fyrsta lagi, hversu mikið kostar það að múta veitingahúsagagnrýnanda í Búdapest og í öðru lagi: Hversu slappir voru hinir staðirnir eiginlega?

En vínið var gott og fólkið enn betra, sem er það sem skiptir máli. Eftir árshátíðina var tekin rúta niðrí bæ, þar sem fólk ætlaði að halda djamminu áfram. Því miður var smekkur rútubílstjórans á næturklúbbum afar vafasamur. Hann keyrði okkur á Pacha, sem fólk gafst uppá fljótt. Við tók labb um miðbæinn, þar sem við reyndum að finna eitthvað betra og því tvístraðist hópurinn eitthvað áður en ég endaði ásamt nokkrum öðrum á Pacha.


Á laugardeginum var ég furðu hress um morguninn og ákvað að fá mér hollan morgunmat á McDonald’s. Það er fátt betra en hamborgari til að byrja daginn. Kíkti eitthvað í búðir en um 4 leytið fórum við 15 manns á írskan bar, þar sem við horfðum á LIVERPOOL-manchester united, sem Liverpool vann auðvitað enda er Houllier besti þjálfari í heimi og Danny Murphy og Emile Heskey með allra bestu leikmönnum í enska boltanum. Það var auðvitað ekki leiðinlegt að horfa á leikinn í hópi United stuðningsmanna.

Houllier plataði Ferguson náttúrulega með því snilldarbragði að hafa vinstri kantmann frammi, hægri kantmann á vinstri kantinum, hægri bakvörð á hægri kantinum, miðvörð í hægri bakverðinum og vinstri kantmann í vinstri bakverði. Þetta virkaði auðvitað og Liverpool vann. Gaman gaman!


Um kvöldið fór ég með stórum hóp á sígaunastað í Búda, þar sem gríðarlega skemmtileg sígaunasveit spilaði yfir borðhaldinu, sem samanstóð af gúllasi og fleira góðgæti.

Eftir matinn fórum við nokkur saman á næturklúbb. Sá klúbbur var æði. Sætar stelpur í Búdapest virðast ekki fara mikið útúr húsi á daginn og því kom það okkur skemmtilega á óvart að staðurinn var fullur af sætum stelpum. Ólíkt Íslandi, þá eru líka sætu stelpurnar nánst allar á lausu, sem er gríðarlegur kostur. Ég hef sjaldan séð jafn jákvætt kynjahlutfall á skemmtistað, ábyggilega 70% af gestum staðarins voru stelpur. Semsagt, gott kvöld.


Í morgun vaknaði ég gríðarhress klukkan 8, tók saman dótið og fór útí rútu, sem fór með okkur til smábæjar fyrir utan Búdapest. Þessi bær var samansafn minjagripaverslana. Við kíktum þarna á kaffihús og borðuðum á veitingastað, þar sem engin önnur en Laura Bush borðaði fyrir einhverjum árum. Stórmerkilegt! Í þessari bæjarferð var ég minntur illilega á það hvers vegna ég kýs að ferðast sjálfstætt en ekki í fylgd með fararstjórum. Það að rölta um túristastaði, eltandi íslenskan fararstjóra, sem veifar íslenska fánanum finnst mér vera mjög skondið.

Eftir mat var farið útá flugvöll og svo flogið heim þar sem ég var, öllum að óvörum, stoppaður í tollinum.

631 Orð | Ummæli (1) | Flokkur: Ferðalög

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33