« Á hótelherbergi í Bilbao | Aðalsíða | Força Barça »

Ég elska þessa borg!

maí 15, 2004

Ég elska Barcelona. Hún er ein af þessum borgum, sem virðist fylla mig af orku. Allt mannlífið, byggingarnar, allt. Ég hreinlega skil ekki hvernig er hægt að verða ekki ástfanginn af þessari borg. Það eru fáar stórborgir, sem hafa svona áhrif á mig. London hefur til dæmis engin svona áhrif, en Moskva og New York hafa sömu áhrif og Barcelona.

Ég er búinn að vera hérna síðan á miðvikudag á fínu hóteli rétt fyrir ofan Placa Catalunya. Ráðstefnan, sem var á vegum sælgætisframleiðanda, var haldin á hótelinu og stóð frá miðvikudegi til föstudags. Ef þú hefur einhvern tímann velt því fyrir þér hversu lengi er hægt að tala um nýja stærð af sælgætispakka, þá er svarið: cirka þrír dagar!

En annars var ráðstefnan mjög gagnleg og skemmtileg. Þarna voru fulltrúar frá öllum Norðurlandaþjóðunum. Dagskráin var nokkuð þétt og voru kvöldin líka skipulögð. Á miðvikudag fórum við í göngutúr um elsta hluta Barcelona og á fimmtudag var það sigling á skútu. Sú sigling var ekki alveg samkvæmt minni hugmynd um skútusiglingu á Miðjarðarhafinu, þar sem veðrið var brjálað og skipstjórinn virtist allan tímann vera að reyna að sigla sem næst eldingunum, sem við sáum í fjarska. En samt gaman sko.

Í gær eftir ráðstefnuna kíkti ég í búðir og svo uppað La Sagrada Familia. Í þetta skiptið ákvað ég að fara inní kirkjuna og uppí turnana, sem er ansi magnað enda getur maður labbað uppí 90 metra hæð. Um kvöldið fór ég svo útað borðað með Skandinövunum, sem urðu eftir hér í Barcelona. Ég er pínku þunnur eftir það ansi langa borðhald, en ég er allur að jafna mig. Núna þarf ég að klára undirbúninginn fyrir mánudagsfundinn, svo ég geti slappað af í dag og á morgun. Svaf reyndar hroðalega, þar sem skilgreining hóteleigendanna á hljóðeinangrun er ólík minni skilgreiningu.

En ég er búinn að kaupa mér miða á Barcelona leikinn á morgun. Jibbííí. Og Liverpool er komið í Meistaradeildina. Jibbíí. Já, og svo er mér víst boðið í Júróvisjón partí í Kópavogi í kvöld. Því miður kemst ég ekki, en ég bið að heilsa öllum þar. Ég ætla að horfa á keppnina (ótrúlegt en satt) með Norðurlandabúunum uppá einu hótelherbergjanna. Ætlum svo að kíkja útá lífið eftir keppnina. Ég er búinn að lofa því að ég verði nett óþolandi þegar Íslendingar fá stig.

Allavegana, ætla ekki að hanga hérna inni. Þarf að klára vinnuna og svo ætla ég að kíkja á Picasso safnið. Já, og það er sól og 20 stiga hiti. Ok, bæ.

(Skrifað í Barcelona kl 11.17)

Einar Örn uppfærði kl. 09:17 | 419 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (2)


Rambaði á síðuna þína þegar ég var að leita að upplýsingum um Barcelona. Ég og dóttir mín erum að fara þangað 10 júní í hálfan mánuð. Gaman að lesa dagbókina þína um Barcelona. Ég hlakka mikið til að fara og ekki væri verra að fá góða punkta frá þér Kveðja Rut

Rut sendi inn - 15.05.04 16:19 - (Ummæli #1)

Sammála öllu ofartöldu lofi á Barcelona. Snilldarborg.

Gummi Jóh sendi inn - 15.05.04 17:08 - (Ummæli #2)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu