« Beastie Boys, Dylan, EM2004 og Texas | Aðalsíða | Someone saved my life tonight »

Girl Power!

júní 22, 2004

The Apprentice er nokkuð skemmtilegur sjónvarpsþáttur, sem Stöð 2 sýnir. Fyrir þá, sem hafa ekki fylgst með þessu, þá eru í þessum þætti tvö lið (strákar á móti stelpum), sem keppa í alls kyns viðskiptatengdum keppnum um það að fá stöðu sem yfirmaður í fyrirtæki Donald Trump.

Allavegana, liðin hafa keppt nokkrum sinnum. Fyrst var það hver gæti selt meira límonaði á einum degi, svo um það hvort liðið gæti prúttað betur verðið á nokkrum hlutum (þetta átti að æfa samningatæknina) og svo nú síðast ráku liðin Planet Hollywood stað í einn dag og það lið, sem bætti veltuna mest, vann.

Konurnar hafa unnið allar þrautirnar, og er svo sem allt gott um það að segja. Einhver myndi halda að femínistar yrðu syngjandi kátir með það.

Vandamálið er bara hvernig konurnar hafa unnið þrautirnar.

Þær hafa nefnilega unnið allar þrautir með því að nýta sér kynferði sitt á frekar ódýran hátt. Sumar af stelpunum eru nokkuð myndarlegar og í öllum þáttunum hefur stór partur af sigri þeirra falist í því að plata nokkra gamla kalla til að gera hluti fyrir sig.

  • Í fyrsta þættinum, þegar þær voru að selja límonaði, plötuðu þær nokkra peppera til að gefa þeim fullt af pening. Þær klæddu sig allar í stutt pils og döðruðu við kallana þangað til að þeir gáfu þeim fullt af pening (án þess þó að kaupa einu sinni límonaði).

  • Í annarri þrautinni, sem átti að æfa samningatækni, þá döðruðu þær þrjár við karlkyns búðareiganda. Þær sungu fyrir hann, kölluðu hann fallegum nöfnum og döðruðu við hann þangað til að hann lækkaði verðið á vörunum.

  • Í þriðju þrautinni, þá fóru þær um allan veitingastaðinn á stuttum pilsum og í magabol, seldu staup og helltu gesti staðarins fulla. Þær fengu m.a.s. einhvern kall til að kaupa sér heilan bakka af staupum, sem hann drakk svo með þeim. Sá maður virtist ákaflega einmanna og var því meira en tilbúinn að bjóða stelpunum uppá staup, víst þær voru tilbúnar að drekka það með honum.

Þetta gekk í raun svo langt að eftir síðustu keppni kom Donald Trump til stelpnanna og sagði að það væri niðurlægjandi fyrir þær hversu mikið þær nýttu kynferði sitt í keppninni. Í alvöru viðskiptum í hans fyrirtæki væri ekki þörf fyrir slíkar aðferðir.

Hvernig er það, finnst þeim stelpum sem hafa horft á þáttinn, þetta vera sniðugt? Ég veit að ég á ekki að vera að taka svona raunveruleikasjónvarpsþætti of alvarlega, en þetta fékk mig til að hugsa. Er þetta niðurlægjandi fyrir kvenfólk í viðskiptum, eða bara merki um snjallar konur, sem nýta sér alla kosti sína?

Einar Örn uppfærði kl. 23:22 | 430 Orð | Flokkur: Sjónvarp



Ummæli (4)


Skemmtileg síða hjá þér Einar, kíki reglulega á hana. Ég held að alveg eins og þið karlmennirnir reynið að nota alla ykkar kosti í viðskiptum, að þá reynum við konurnar líka að nota alla okkar kosti (útlitið þar á meðal). Að sjálfsögðu má ofgera öllu eins og stelpurnar í “The Apprentice”, en góðar “viðskipta-konur” vita hve langt þær mega ganga með tilliti til útlitsins…..um að gera að nota það sem maður hefur…. Mig grunar reyndar að við konurnar séum ekkert einar í þessum bransa með útlitið, þið eruð bara ekki alveg jafn áberandi í þessu og við…eða hvað??!! :-)

Lísa sendi inn - 23.06.04 04:11 - (Ummæli #1)

auðvitað er það sjálfsagt mál að stelpurnar notfæri sér útlit sitt, nú eru þær mjög sætar, og strákarnir gera það sama bara ekki eins áberandi, t.d Troy í strákaliðinu hann er algjör daðraði og hann blikkaði nú margar stelpur til að koma og borða á planet hollywood. Stelpurnar eru bara gáfaðar og kunna að spila þennan leik, og mér fannst það GLATAÐ af Donald Trump og co að skamma þær fyrir þetta, GIRLPOWER :-)

Auðbjörg sendi inn - 23.06.04 11:03 - (Ummæli #2)

Mér finnst þetta stórkostlega niðurlægjandi, bæði fyrir konurnar sem taka þátt í þessu og fyrir kvenþjóðina, þ.e. myndin sem þetta gefur af konum er mjög niðurlægjandi fyrir allt kynið. Þær eru að segja með þessari hegðun að það sé nauðsynlegt fyrir konur að nýta sér þennan kynferðislega veikleika karlmanna til þess að geta staðið jafnfætis eða framar körlum í viðskiptalífinu. Hitt er svo annað mál, að kona í viðskiptum er aldrei jafnlíkleg til að vera tekin alvarlega og karl, þótt fólk hagi sér að sjálfsögðu (vonandi) ekki svona í raunveruleikanum, þetta er bara keppnisandinn. Hef ekki séð þessa þætti, geng bara út frá því að þessi frásögn þín segi allt sem segja þarf.

Hildur sendi inn - 23.06.04 12:13 - (Ummæli #3)

Auðbjörg, vissulega nýtur fólk sér útlitið að einhverju leyti. Maður reynir að líta vel út þegar maður stundar viðskipti, klæðir sig vel og slíkt. Og eflaust kemst myndarlegt fólk betur áfram í viðskiptum.

En hins vegar fannst mér þetta var “too much” hjá stelpunum. Til dæmis þegar átti að vera að keppa í samningatækni, þá grátbáðu þær kallinn um að lækka verðið og döðruðu alveg fáránlega mikið við hann, sögðu hvað hann væri sætur (sem hann var ekki), sungu og dönsuðu fyrir hann og svo framvegis. Þetta myndi ekki beint ganga ef þú værir í alvöru samningaviðræðum.

Það sem þú nefnir við Troy finnst mér vera meira partur af almennum sjarma, sem kemur sér vel í viðskiptum. Sumt fólk er bara meira heillandi en annað fólk. Slík hól og daður er þó ólíkt því að klæða sig alltaf í eeextra stutt pils (EKKI það að ég er mjöööög hlynntur pilsum :-) ) og magabolum í kringum viðskiptafundi. Slíkt myndi ekki ganga í alvöruheiminum.

Ég var kannski ekki svo svakalega hneykslaður, en mér fannst þetta vera fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir stelpurnar. Smá daður og að nýta útlitið er eitt, en að stíla í öllum þrautum útá útlitið og kynþokkann frekar en gáfur og samningahæfileika finnst mér vera eilítið annað. Það er ekki góður samningamaður, sem dansar, syngur og daðrar við viðsemjendur til að fá lægra verð.

Annars líður mér einsog svakalegum íhaldsmanni (sem ég er alls alls alls ekki) þegar ég er að gagnrýna þetta, en mér fannst þetta bara leiðinlegt, því þær hefður sennilega geta unnið allar þrautirnar á hefðbundnari hátt. :-)

Einar Örn sendi inn - 23.06.04 14:31 - (Ummæli #4)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu