« Fahrenheit umræða | Aðalsíða | Hamborgarasnilld! »

Á hvað ertað hlusta?

ágúst 06, 2004

Fyrir nokkrum vikum var mér bent á Audioscrobbler í kommenti við færslu á þessari síðu.

Þegar síðan opnaði aftur eftir breytingar dreif ég mig og skráði mig. Þetta virkar þannig að maður setur lítið plug-in fyrir iTunes eða annað tónlistarforrit á tölvuna sína. Svo þegar maður spilar tónlist í iTunes, þá uppfærist það sjálfkrafa í prófíl á Audioscrobbler. Þannig heldur síðan utanum hvaða tónlist maður hlustar á og með einföldum hætti er hægt að sjá hvaða fólk er að hlusta á sömu tónlist. Þannig er með einföldum hætti hægt að sjá hvaða nýju bönd þetta fólk er að hlusta á.

Minn prófíll er hér.

Ég hef bara verið skráður í nokkra daga, þannig að það eru fá lög skráð, en smám saman verður þetta athyglisverðara.

Það er gríðarlega margt skemmtilegt í þessu. Til dæmis ef maður smellir á Beck, þá sér maður hvaða lög eru vinsælust með Beck hjá notendum Audioscrobbler. Þar kemur í ljós að Loser (æji!) er vinsælast. Ég komst líka að því að ég hafði aldrei heyrt af laginu í öðru sæti, Everybody’s Gotta Learn Sometimes. Komst að því að það lag var í Eternal Sunshine of the Spotless Mind, sem ég hef ekki séð. Ég náði mér í lagið og það er gargandi snilld. Ég hefði sennilega ekki uppgötvað það á næstunni ef ekki væri fyrir Audioscrobbler.

Það má segja að eini gallinn enn sem komið er við þessa síðu, sé sá að hún tekur ekki upplýsingar um lagaspilun úr iPod-inum mínum. En ég hvet alla til að skrá sig á Audioscrobbler, þetta er alger snilld. Sniðug hugmynd og frábærlega einföld og skemmtileg hönnun á vefsíðu.


Enn meiri snilld er samt Last.fm, sem tengist gögnunum í Audioscrobbler. Last.fm virkar þannig að þegar þú hefur hlustað á nóg af tónlist með Audioscrobbler í gangi (a.m.k. 300 lög), þá reynir Last.fm að meta tónlistarsmekk þinn eftir því hvað þú hlustaðir á.

Last.fm býr síðan til þína eigin útvarpsstöð, sem þú getur hlustað á á netinu. Þannig að ef þú hlustar mikið á Jay-Z og Eminem, þá býr forritið til útvarpsstöð með mikið af hip-hop efni og svo framvegis. Þetta er því FRÁBÆR leið til að heyra nýja tónlist.

Þetta er svo mikil snilld að ég á varla til orð!

Frekara lesefni: Wired: Last.fm: Music to Listeners’ Ears

Uppfært: Ég var búinn að bæta þessu við í kommentunum, en ekki allir lesa þau. Allavegana, þá stofnaði ég hóp fyrir Ísland. Þannig að það væri gaman ef þeir, sem eru skráðir þarna myndu ganga í hópinn. Ég veit reyndar ekki af hverju það er mynd af mér á hóp-síðunni. Þetta er ekki eitthvað egó í mér, heldur fatta ég einfaldlega ekki hvernig á að breyta um mynd á hóp-síðum.

Einar Örn uppfærði kl. 17:46 | 449 Orð | Flokkur: Tónlist



Ummæli (5)


Það er náttúrulega slappt að hafa ekki séð Eternal sunshine, ein af bestu myndum ársins.

Strumpakveðjur :-)

Strumpurinn sendi inn - 06.08.04 18:32 - (Ummæli #1)

Þetta er sannarlega snilld. Hérna er minn prófíll: pallih

Ef þú ert með ADSL hjá OgVodafone þá er hægt að hlusta á LastFM án þess að borga bandvíddina erlendis frá… Makkaleiðbeiningar hér: http://www.apple.is/umraedur/viewtopic.php?t=5209&highlight=vefvarp

Straumurinn frá LastFM er mp3 straumur og þetta virkar fínt í RealPLayer.

pallih sendi inn - 06.08.04 19:46 - (Ummæli #2)

Sniðugt! Getur maður sett inn Winamp í stað iPod?? Já, Eternal sunshine ættu allir að sjá… algjör snilld, amk fyrri helmingurinn, ég sofnaði víst eftir hlé… ekki samt myndinni að kenna :-)

Soffía sendi inn - 06.08.04 20:19 - (Ummæli #3)

Ég vænti þess að þú sért að tala um Winamp í stað iTunes. Það er til plug-in fyrir Winamp. Hún fæst hér.

Annars mæli ég eindregið með að þú skiptir úr Winamp yfir í iTunes. Ég get lofað þér að þú munt verða hrifin af iTunes. Það er einfaldlega svo miklu skemmtilegra forrit.

Ég er því miður með Landsímann. Ég verð alltaf pirraðari og pirraðari yfir að þurfa að vera með þá, því þeir hjá Vodafone eru með fullt af skemmtilegum hlutum (sbr. símbloggið og þetta).

Annars, þá stofnaði ég hóp fyrir Ísland. Þannig að það væri gaman ef þeir, sem eru skráðir þarna myndu ganga í hópinn. Ég veit reyndar ekki af hverju það er mynd af mér á hóp-síðunni. Þetta er ekki eitthvað egó í mér, heldur fatta ég einfaldlega ekki hvernig á að breyta um mynd á hóp-síðum. :-)

Já, og Eternal Sunshine er ofarlega á óska-listanum hjá mér. Ma’r fer bara svo miklu sjaldnar í bíó þegar maður er single sko :-)

Einar Örn sendi inn - 06.08.04 20:43 - (Ummæli #4)

Úps… meinti iTunes, ruglaðist aðeins :-) Ég er reyndar með iTunes í tölvunni minni, vinur minn vildi einmitt meina að það væri miklu betra en Winamp. En þegar ég prófaði að spila mp3 þá komu alls kyns truflanir sem ekki komu fram í Winamp-inu. Ég ákvað því að halda tryggð við Winamp-ið, er líka með ótrúlega sætt Garfield útlit sem ég tími ekki að sleppa :-)

Soffía sendi inn - 06.08.04 21:12 - (Ummæli #5)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu