« Kappræður og play listi | Aðalsíða | Laugardagskvöld með Einari Erni... »

Kappræður í VALHÖLL

16. október, 2004

Ég tók semsagt þátt í þessum pallborðsumræðum í Valhöll í gær. Jens fjallar um þetta á síðunni sinni.

Þarna voru þau Gísli Marteinn og Þorbjörg Helga frá Sjálfstæðisflokknum og svo ég og Karl Th. Birgis frá Jafnaðarmönnum. Við héldum fyrst smá tölur og er mín ræða neðst í þessari færslu. Ég var fáránlega stressaður þegar ég hélt ræðuna en losnaði algjörlega við allt stress þegar umræðurnar byrjuðu.

Það voru um 70 manns í salnum, þar af 60 frá Sjálfstæðisflokknum (þar af 5 konur, sem sannfærði mig endanlega að stjórnmálaþáttaka er ekki staður til að hitta kvenfólk).

Umræðurnar voru skemmtilegar, eða allavegana fannst mér gríðarlega gaman að taka þátt í þessu. Þorbjörg og Karl héldu sig frekar til hliðar. Þorgbjörg var eiginlega Kerry stuðningsmaður en myndi þó kjósa Bush, en Karl Th. fannst Kerry vera of hægri sinnaður fyrir sig.

Ég er hins vegar hrifinn af Kerry og Gísli Marteinn er hrifinn af Bush og því voru þetta oft á tíðum deilur á milli mín og Gísla Marteins. Gísli var ekki hrifinn af siðferðismálum Bush en var hins vegar sannfærður um að efnahagsstefna hans væri sú eina rétta. Ég er náttúrulega ekki sammála því, enda finnst mér ekkert sérstaklega góður árangur að snúa fjárlaafgangi í fjárlagahalla og veita þeim 1% allra ríkustu hærri skattalækkun en 70% þjóðarinnar.

Svo var líka talað um Swift Boat rógburðinn og aðrar auglýsingar. Það sköpuðust skemmtilegar umræður á milli fólksins á borðinu og útí sal, sérstaklega þegar Björgvin Ingi þrýsti á Gísla Martein að segja okkur af hverju hann styddi Bush. Gísla reyndist erfitt að telja upp kosti í stefnu hans.

Ég talaði talsvert um skattalækkunina og móðgaði víst nokkra af þeim allra hægrisinnuðustu af því að ég sagði að Bush hefði “gefið þeim allra ríkustu skattalækkun”. Það fannst þeim SUS-urum vera mikil synd, enda á maður ekki að tala um að gefa skattalækkun enda eru þetta peningar, sem fólkið á fyrir. Það er jú rétt, en það var samt fyndið að þeim fannst ekkert vera athugavert að lækka skatta á hvern einstakling í hópi þeirra 1% ríkustu 2,4 milljónir króna á ári á meðan þeir, sem minnst eiga, fá 5.000 kall á ári í skattalækkun.

En semsagt, þetta var mjög skemmtilegt og ég losnaði við stressið, þrátt fyrir að ég hefði verið í Valhöll og 80% áhorfenda hefðu verið Sjálfstæðismenn.

Ræðan mín er hér að neðan:

Góðir gestir,

Fyrir fjórum árum rak George Bush sína kosningabaráttu undir þeim formerkjum að hann ætlaði að vera sameiningartákn bandarísku þjóðarinnar og hógvær á alþjóðavettvangi. Hann hefur reynst vera flest annað.

Undir hans stjórn hafa Bandaríkin farið útí vonlaust stríð í Írak, störfum hefur fækkað, þeir allra ríkustu fengu hærri skattalækkun en 70% þjóðarinnar. Fjórir milljón fleiri Bandaríkjamenn eru án heilbrigðistrygginga og fjárlagahallinn hefur aldrei verið hærri. Bush tók við gríðarlegum fjárlagaafgangi frá Bill Clinton og breytti honum í gríðarlegan fjárlagahalla. Í raun hefur Bush endanlega gert útum þá ranghugmynd að íhaldsmönnum sé best treystandi fyrir stjórnun ríkisfjármála.

Sú einlæga trú mín að John Kerry verði betri forseti en Bush er ekki byggð á hagsmunum Íslendinga eða Evrópu, heldur á hagsmunum Bandaríkjamanna sjálfra. Mér þykir nefnilega afskaplega vænt um Bandaríkin og vil hag þeirrar þjóðar sem bestan. Flestir vinir mínir utan Íslands eru Bandaríkjamenn, ég elska hafnabolta og Willie Nelson og ég hef eytt fjórum af síðustu sjö árum ævi minnar þar.

Þess vegan angrar það mig verulega að geta í dag ekki með nokkru móti varið Bandaríkin eða stefnu stjórnar landsins. Ég hef löngu rekið mig á að hér á Íslandi er fullt af fólki, sem er illa við Bandaríkin, punktur. Bandaríkjamenn eru í ómögulegri stöðu því ef eitthvað bjatar á í heiminum, þá eiga þeir að gera eitthvað, en þegar þeir gera eitthvað, þá er það gagnrýnt. Sama hvað Bandaríkin gera, þá munu þeir aldrei þóknast þessu fólki.

En munurinn á því viðhorfi, sem ég finn hjá fólki, sem almennt er hlynnt Bandríkjunum, gagnvart stefnu stjórnarinnar í dag og því, sem ég fann eftir 11.september, er gríðarlegur Í dag finnst vart fólk utan Bandaríkjanna, sem styður stefnu Banaríkjastjórnar. Jafnvel vinir mínir, sem ég veit að elska Bandaríkin eru farnir að hljóma einsog verstu Kana hatarar þegar þeir tala um stjórn Bush. Það er vegna þess að gjörðir Bush og félaga hans stríða gegn flestu því, sem við höfum getað dáðst að í stefnu Bandaríkjanna í gegnum árin. Vissulega hafa mistökin verið mörg í gegnum tíðina, en aldrei hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna unnið jafn markvisst að því að hundsa bandamenn sína og jafnvel gera þá tortryggilega.

**Aldrei** hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna beitt sér jafnmikið án stuðnings hins vestræna heims og sjaldan eða aldrei hefur ríkisstjórn gert eins mikið til að auka ójöfnuð í landinu.



En hvers vegna nýtur Bush þá stuðnings helmings bandarísku þjóðarinnar? Fyrir því eru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi hugsar hann vel um sína. Hann hefur veitt þeim ríkustu ríflegar skattalækkanir og hefur séð til þess að þeim fyrirtækjum, sem hafa stutt hann með peningaframlögum, er hyglt í hvívetna.

Einnig hafa Bush og félagar rekið nær stanslausan hræðsluáróður síðan 11.september 2001. Sem dæmi, þá fengu nokkrir fréttamenn bréf með miltisbrandsleifum þegar ég bjó í Bandaríkjunum stuttu eftir 11.september. Í kjölfar þess var landinu haldið í stanslausum ótta við að næsta bréf, sem þú fengir myndi innihalda sama efni. Kraftur fjölmiðla við að dreifa þeim hræðsluáróðri var slíkur að innan tíðar var ég farinn að lesa á mbl.is um fólk í Hafnarfirði, sem taldi víst að nýjasta eintakið af The Economist innihéldi einnig miltisbrand.

Bush og félagar hafa ýtt undir þessa hræðslu almennings við hryðjuverk með því að halda þjóðinni á appelsínugulu viðvörunarstigi nánast stanslaust síðan árásirnar fóru fram. Sem dæmi má nefna að eftir þing demókrata nú í sumar var lekið til fjölmiðla 3 ára gömlum áætlunum um að Al-Quada hafi einu sinni ætlað að ráðast á fjármálastofnanir í New York. Og svo mætti lengi telja. Bush hefur talið fulltaf fólki trú um að hann einn geti varið Bandaríkin. “Soccer Moms” eru nú kallaðar “Security Moms”, því það sem þeim kjósendum liggur mest á hjarta er að verja fjölskyldur sínar. Áróður ríkisstjórnarinnar hefur sannfært marga um að fúlskeggjaðir hryðjuverkamenn séu sennilega í þessum orðum töluðum að undirbúa árásir á úthverfi þeirra í smábæjum Alabama.

Þriðja ástæðan fyrir vinsældum Bush er sú að hann hefur gert loðin siðferðismál að kosningamálum. Hann hefur nýtt sér fordóma kristinna Bandaríkjamanna gegn öðrum trúarbrögðum og umfram allt gegn samkynhneigðum, til að reyna að auka vinsældir sínar.

Þessi siðferðislegu mál eru einmitt undirstaða mikils af þeim stuðningi, sem Bush hefur notið og misnotað síðustu fjögur ár. Staðreyndin er einfaldlega sú að mikill hluti fátækra Bandaríkjamanna kýs yfir sig flokk, Repúblikana, sem er þeim beinlínis fjandsamlegur efnahagslega, einungis vegna þess að sá flokkur höfðar til trúar þessa sama fólks.

Bush veit hvað þarf að gera til að snerta þetta fólk. Þess vegna predikar hann fordóma gagnvart samkynhneigðum, jafnvel þótt dóttir varaforsetans sé lesbía. Þess vegna predikar Bush gegn fóstureyðingum, þrátt fyrir að hann sé nú eiginlega fylgjandi þeim, því hann vill ekki styggja konur í hópi kjósenda sinna. Og þess vegna gerir hann andstöðu sína við stofnfrumurannsóknir að kosningamáli, sem og verkefni til að útbreiða skírlífi meðal 16 ára stráka.

Því að Bush veit að þetta fólk hefur gefið upp þá von um að efnahagur þeirra breytist og því leitar það til trúar sinnar til að velja frambjóðenda, í stað þess að velja þann frambjóðanda, sem myndi gera mest til þess að lágmarkslaun þeirra myndu hækka og það hefði efni á heilbrigðisþjónustu.

Einnig reka Repúblikanar ómerkilegan hræðsluáróður til að skelfa þetta sama fólk. Í Arkansas sendu Repúblikanar til að mynda út póstkort, þar sem því var haldið fram að Demókratar myndu leyfa hjónabönd samkynhneigðra og banna Biblíuna ef þeir kæmust til valda.

Einnig hafa Repúblikanar verið duglegir við að koma þeim hræðsluáróðri að – að ef Demókratar komist til valda, þá muni þeir skipa frjálslynda Hæstaréttardómara. Trúarofstækishóparnir óttast nefnilega fátt meira en að frjálslyndir Hæstaréttardómarar komist að og reyni að framfylgja trúferlsi í Bandaríkjunum, t.a.m. með því að fjarlægja boðorðin tíu úr réttarsölum.



Ég býst við því að það verði fjallað ítarlega um utanríkismál í kvöld og því langar mig að benda á nokkrar staðreyndir um innanríkismál. Staðreyndirnar eru þessar:

- 4 milljónir fleiri Bandaríkjamenn eru nú án heilbrigðistryggingar en fyrir fjórum arum. Alls 44 milljónir Bandaríkjamanna eru nú án trygginga.
- 1,6 milljón störf hafa tapast í einkageiranum. Það hefur ekki gerst í 72 ár, eða síðan að Herbert Hoover var forseti í Kreppunni Miklu
- 4 milljónum fleiri Bandaríkjamenn lifa nú í fátækt. Alls um 36 milljón manns
- Demókratinn Bill Clinton, skilaði af sér fjárlagaafgangi uppá 236 milljarða bandaríkjadollara árið 2000. Á aðeins 3 árum tókst íhaldsmanninum George Bush að breyta þeim afgangi í 490 milljarða dollara halla.
- Stærsta ástæðan fyrir þessum halla eru skattalækkanir Bush, sem fóru mestar til þeirra allra ríkustu. Þeir ríkustu fá meðaltals skattalækkun uppá 2, 4 milljónir króna á ári. Þeir í fátækasta hópnum fá 5.000 kall

Bush tók við gríðarlega góðu búi af Bill Clinton, en hefur á nokkrum arum tekist að eyðileggja það góða starf, sem sá merki forseti vann. Hann hefur hundsað aðgerðir Ísraela, ráðist inní tvö lönd og aukið ójafnrétti í sínu eigin landi til muna. Fyrir það á hann skilið að missa starf sitt.
Einar Örn uppfærði kl. 19:52 | 1534 Orð | Flokkur: Stjórnmál



Ummæli (2)


Frábær ræða, hreint út sagt :-)

Einar Örn sendi inn - 17.10.04 16:47 - (Ummæli #1)

Flott ræða :-) Gaman að lesa síðuna þína

Kári sendi inn - 20.10.04 01:11 - (Ummæli #2)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Ég áskil mér allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart mér sjálfum eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar? -


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2001

Leit:

Síðustu ummæli

  • Kári: Flott ræða :-) Gaman að lesa síðuna þína ...[Skoða]
  • Einar Örn: Frábær ræða, hreint út sagt :-) ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.2

.