« febrúar 03, 2005 | Main | febrúar 09, 2005 »

Gullni túlípaninn og helgi í Prag

febrúar 08, 2005

Núna er ég kominn til Hollands eftir helgi í Prag. Er á hóteli, sem heitir því yndislega hollenska nafni “Gullni Túlípaninn” í bænum Breda við landamæri Belgíu. Hérna kom ég um 5 leytið og verð hér næstu tvo daga á námskeiði tengdu vinnunni.

Það er eitthvað karneval í gangi hérna í bænum og eru því allir bæjarbúar klæddir í búninga og drekkandi Heineken á pöbbum bæjarins. Ég var þó frekar þreyttur og ákvað að það væri indlælt að eyða kvöldinu inná hótelherbergi, glápandi á Dismissed og aðra eðalþætti í boði MTV.


En allavegana, ég eyddi helginni í Prag. Leifur, fyrrverandi bekkjarfélagi minn býr þar ásamt tékkneskri kærustu og Ragga vini þeirra í gullfallegri íbúð í miðhluta borgarinnar, þar sem ég fékk að gista á sófanum. Ég ákvað með nokkuð stuttum fyrirvara að fara til Prag. Hluti af ástæðunni var vinnutengd og hluti vegna þess að ég átti fund á föstudegi í Þýskalandi og næsta miðvikudag í Hollandi og hafði lítið að gera heima á Íslandi yfir helgina.

En allavegana, Prag er skemmtileg borg. Kuldinn spillti aðeins fyrir enda nær 10 stiga frost í borginni, þrátt fyrir að sólin hafi skinið allan tímann. Ég eyddi þarna fjórum dögum í rólegheitunum, í að skoða túristastaði, drekka bjór og slappa af. Frábært helgarfrí.

Einsog flestir túristar eyddi ég öllum tímanum í gamla hluta Prag, sem er umtalsvert meira heillandi en kommúnistablokkirnar sem rísa í hæðunum utan við miðborgina. Gestgjafarnir fóru með mér í heljarinnar túristarúnt um alla helstu staðina í borginni: kastalann, Karlsbrúna, Petrin turninn, gamla torgið og gyðingahverfið. Allt æði. Allt voða gaman.

Miðborg Prag er í raun alveg einstök. Það er sennilega erfitt að finna að finna fallegri miðborg, sama hversu víða maður leitar. Yndislega fallegar byggingar og allt iðandi af mannlífi. Víst að mannþröngvin var einsog hún var í 10 stiga frosti í febrúar, þá get ég rétt ímyndað mér hvernig hún er í júlí. Og það er svosem ekki erfitt að skilja hvað fólk sér við borgina.

Gamla torgið og Karlsbrúin eru yndisleg og Gyðingahverfið er magnaður staður, sem ég held að margir túristar láti framhjá sér fara. Samanstendur af mögnuðum kikjugarði og nokkrum bænahúsum, sem eru annaðhvort virk sem slík eða söfn. Vel þess virði að skoða.

Við kíktum út öll kvöldin og skiptumst á að drekka Pilsner Urquell og Budweiser í miklu magni. Budweiser fær mitt atkvæði og svei mér þá, ég held að ég hafi sjaldan fengið betri bjór en Budweiser beint af krana í Prag. Lengsta djammið var á laugardeginum þegar við fórum á Karlovy Lazné klúbbinn við Karlsbrúna, sem kallar sig stærsta klúbb í Mið-Evrópu. Klúbbarnir eru byggðir fyrir túrista og því fleiri stelpur frá Manchester heldur en Prag á dansgólfinu. Þegar að DJ-inn spilaði tékkneskt lag, þá var kærastan hans Leifs sú eina, sem tók við sér. Allir hinir inná staðnum voru útlendinegar, sem er vissulega eilítið sorglegt. Og þar er í raun stærsti galli Prag. Það sést alltof lítið af Tékkum á helstu stöðunum, allt er fullt af útlendingum og það hefur leitt af sér hátt verðlag í miðborginni, sem fælir innfædda frá.

En það spillir þó ekki fyrir því að það er stórkostleg reynsla að sjá Prag í fyrsta skipti. Að keyra yfir Vltava ána að kvöldi til og sjá kastalann upplýstann, sem og að labba í fyrsta skipti um nýja hliðargötu eða inná torgið í gamla bænum (eða einsog ég kýs að kalla það: Staromestske Namestí), er algjörlega ógleymanlegt. Á torgið í gamla bænum vantar bara styttu af Milan Baros til að fullkomna verkið.

Þrátt fyrir að ég hafi skemmt mér vel í Prag, þá voru greinilega ekki allir vinir mínir jafn ánægðir með að ég væri að djamma í Prag. Til að mynda sendi ég einum vini mínum eftirfarandi SMS skeyti á laugardagskvöld: “HEY, ég er að djamma í Praaaag! Hvernig var Gísli Marteinn?” Ég fékk hins vegar ekkert svar.


Með þessari ferð til Prag, þá er ég er kominn uppí 15! Ég set myndir frá ferðinni inn seinna.

Skrifað í Breda í Hollandi klukkan 22.10

667 Orð | Ummæli (4) | Flokkur: Ferðalög

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33