« febrúar 23, 2005 | Main | febrúar 26, 2005 »

Illugi og Sunnudagsþátturinn

febrúar 24, 2005

sunnudagsthatturinn.jpgÉg hef áður gagnrýnt Sunnudagsþáttinn á þessari síðu. Hugmyndin að þættinum er ágæt, það er að fá menn með mjög ákveðnar skoðanir til að stjórna spjallþætti. Þetta form hefur verið vinsælt í Bandaríkjunum, en þar hafa menn farið alltof langt í þessu og er skemmst að minnast þess að Crossfire var tekinn af dagskrá CNN, þar sem sá þáttur fór að snúast meira um kynnana og þeirra skoðanir heldur en það að reyna að ná fram vitrænni umræðu um málefnin.

Sunnudagsþátturinn er langt frá því að vera á sama lága planinu og Crossfire, en á stundum kemst hann ansi nálægt því. Þar finnst mér Illugi Gunnarsson vera hvað verstur.

Fyrir það fyrsta, er það við hæfi að aðstoðarmaður valdamesta manns á Íslandi stjórni pólitískum spjallþætti?

Í öðru lagi þá er hrokinn í Illuga og vanvirðing við viðmælendur, sem og aðra stjórnmálaflokka (aðallega þá Samfylkinguna) með hreinustu ólíkindum. Fyrir stuttu horfði ég á þátt, þar sem Illugi tók viðtal við Björgvin Sigurðsson í Samfylkingunni (viðtalið er í enda þáttarins). Illugi á afskaplega erfitt með að hemja sig og fela fyrirlitningu sína á Samfylkinguna. Því var hann einstaklega dónalegur og hrokafullur í misvitrum kommentum sínum við Björgvin.

Til dæmis (ég reyni að umorða samtalið, svo að megin innihald náist:

Illugi: Fyrsta spurning: Nú eruð þið að fara í gegnum gríðarlega harkalegar formannskorsningar. Haldiði að flokkurinn standi þetta af sér.

Björgvin: já já…

Illugi: Já, ég átti von á því að þú myndir segja þetta. he he heheheh

Í fyrsta lagi, þá er Illugi ekki fyndinn og það væri til góðs fyrir þáttinn ef hann áttaði sig á því. Í öðru lagi, ef menn vita svarið fyrirfram, þá geta þeir sleppt því að spyrja. Ef viðkomandi vill hinsvegar spyrja, þá er við hæfi að leyfa viðmælendanum að svara án þess að gera strax grín að svari hans.


Áfram:

Illugi: Já já, flokkurinn [Samfylkingin] á nú ekki að vera svo hár, ætti að vera í svona 20- 25% fylgi .

Já, akkúrat. Hvað veit Illugi um það? Er fólkið, sem kaus Samfylkinguna í síðustu kosningum á einhverjum villgötum? Merkti það við vitlausan flokk í kjörklefanum? Hvernig er hægt að segja að flokkur, sem fékk yfir 30% fylgi í kosningum og er stöðugt yfir þeim mörkum í skoðanakönnunum eigi í raun að vera með 20-25% fylgi?

Einnig:

Illugi: Ég ætla nú að sleppa því að segja að mér finnst þetta vera algjör klysja.

Nei, Illugi, þú slepptir því ekki að segja að þetta væri klisja. Þú sagðir akkúrat að þetta væri klisja. Ef ég myndi segja: “Ég ætla að sleppa því að segja að mér finnst Natalie Portman vera sæt”, sleppti ég í raun að segja það? Hverslags bull tal er þetta?


Og enn heldur Illugi áfram

Illugi: [Glottandi] Ég ætla nú að sitja á mér og segja ekki hvað mér finnst um málefnin ykkar sko.

Illugi má alveg sitja á sér fyrir mér, en hins vegar væri gaman að sjá hvað honum finnst svona hræðilegt við stefnu Samfylkingarinnar. Sjálfstæðismenn eiga nefnilega afskaplega bágt með að gagnrýna stefnu flokksins, heldur kjósa þeir heldur að gaspra um “stefnuleysi” eða einhverja ámóta lélega frasa til að gera lítið úr þessum stjórnmálaflokki, sökum eigin rökþrota.

Já, en Illugi átti spil uppí erminni. Ingibjörg Sólrún sagði nefnilega eitthvað slæmt um samkeppni fyrir 20 árum. Það breytir engu fyrir Sjálfstæðismenn að hún hafi skipt um skoðun, nei, aðalmálið er að einu sinni var ISG meira vinstra sinnuð en hún er í dag.

Ég er svo sem vanur því að Sjálfstæðismenn séu fastir í fortíðinni og kjósi að líta á alla, sem skilgreina sig vinstra megin við þá, sem komma. Ég hélt að þetta væri fast við einhverja framhaldsskóla lógík, en þetta virðist vera alveg jafn áberandi hjá eldri mönnum.

Sennilega er þetta vegna þess að það er auðveldara fyrir Sjálfstæðismenn að gagnrýna kommúnisma heldur en skoðanir okkar í dag. Það er svo yndislegt að geta bara sagt: “Já, en vinstri stefnan virkar ekki. Þegar vinstri menn réðu árið 82 þá var sko brjáluð verðbólga.” Og “vinstri menn kunna ekki að fara með peninga”.

Þetta er náttúrulega tóm þvæla og á ekkert við stjórnmálamenn í dag. Hvað með það þótt Ingibjörg hafi einu sinni verið herstöðvarandstæðingur og hafi fyrir 20 árum sagt einhver misgáfuleg komment um samkeppni? Ég fílaði einu sinni New Kids on The Block og studdi Sjálfstæðisflokkinn. Það segir hins vegar ansi lítið um mig í dag.

Af hverju megum við ekki bara dæma fólk af þeim skoðunum, sem það hefur í dag. Sjálfstæðismenn hafa allir skipt um skoðanir síðustu 20 ár. Allir! Hver einn og einasti. Hjá þeim er það nokkurs konar eðlileg þróun að þeir breytast úr frjálshyggjumönnum yfir í íhaldsmenn eftir því sem þeir eldast og fitna. Ég dæmi þá þó af þeim skoðunum, sem þeir halda uppi í dag, en ekki af því, sem þeir sögðu fyrir 20 árum. Er það til of mikils ætlast að þeir haldi uppi svipuðum standard fyrir vinstri menn?

819 Orð | Ummæli (8) | Flokkur: Stjórnmál

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33