« apríl 07, 2005 | Main | apríl 11, 2005 »

Hvað á barnið að heita?

apríl 10, 2005

Það má segja að gærkvöldið hafi markað ákveðin tímamót í mínu lífi. Í fyrsta skiptið var ég staddur í strákapartýi með vinum mínum, þar sem talað var um barnanöfn!!! Þegar þetta rann upp fyrir mér bað ég viðkomandi vinsamlegast að hætta og reyndi að skipta um umræðuefni. Í partýinu var líka gerð tillaga að ferðalagi, sem átti að fara í eftir 15 ár, það er eftir að börnin eru vaxin úr grasi.

Er ég orðinn svona gamall? Eða eru vinir mínir bara orðnir svona gamlir? Ég veit ekki. En samt, þá var gærkvöldið frábært. Fékk góða vini í heimsókn, við grilluðum og drukkum til miðnættis þegar við fórum niður í bæ. Enduðum á Vegamótum, þar sem var verulega fínt. Ég var kominn ágætlega í glas fyrir Vegamót en inni á staðnum var verið að hella Captain Morgan í allt fólkið, svo það varð ekki til að bæta ástandið. En samt frábært. Alltof langt síðan ég hef farið í bæinn. Alltof langt! Það var þó greinilegt að prófin eru að byrja því það var lítið af fólki og sætum stelpum á Vegmótum. Held þó alveg örugglega að þessi gaur hafi verið á efri hæðinni í gær.


Annars barst talið að Suður-Ameríku í gær. Ég man að á Vegamótum fékk ég alveg einstaka löngun til að fara á ekta Suður-Amerískt djamm. Sat á Vegamótum mestallan tímann. Ég elska djammið einsog það var í Suður-Ameríku, þar sem var dansað allt kvöldið. Og ekki bara þessi hópdans, sem er stundaður á íslenskum stöðum, heldur bauð maður stelpum upp til að dansa salsa. Allt kvöldið. Ég verð að finna mér kærustu, sem finnst gaman að dansa og helst að búa í borg, sem er nógu stór til að geta haldið uppi almennilegum salsa klúbb.

Fór skyndilega að hugsa um gamalt djamm, veit ekki nákvæmlega af hverju, en skyndilega fannst mér Vegamót ekki vera spennandi í samanburðinum. Djammið, sem ég rifjaði upp var þegar ég hélt uppá tvítugsamfmælið mitt í Mexíkó. Ég og kærastan mín á þeim tíma, Gabriela, ákváðum að eyða afmælishelginni í Acapulco, sem er um 6 tíma keyrslu frá Mexíkóborg, þar sem ég bjó á þeim tíma.

Kvöldið, sem ég átti afmæli fórum við á stærsta klúbbinn í Acapulco. Við tókum leigubíl þangað og þegar við stigum útúr leigubílnum var lengsta röð, sem ég hef séð fyrir utan skemmtistað á ævinni. Við vorum þó varla stigin útúr bílnum þegar að dyraverðir staðarins veifuðu á okkur og hleyptu okkur fram fyrir alla. Ástæðan var sennilega blanda af því að Gaby var sæt og að ég var ljóshærður. Það að vera ljóshærður getur gert ýmsa hluti fyrir mann í þessari heimsálfu.

Staðurinn sjálfur var algjört æði með útsýni yfir Acapulco frá dansgólfinu. Einsog á flestum skemmtistöðum í Mexíkó voru allir drykkir innifaldir í miðaverðinu. Við fengum okkur því bara sæti, gáfum þjónustustelpu smá þjórfé og eftir það kom hún með eins mikið tekíla og við gátum í okkur látið. Síðan dönsuðum við allt kvöldið.

Það var það eina, sem þurfti uppá hið fullkomna djamm; góður skemmtistaður, æðisleg stelpa, smá tekíla og salsa.

507 Orð | Ummæli (10) | Flokkur: Dagbók

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33