« Til útlanda | Aðalsíða | Túristast um Varsjá »

Hótelherbergi í Varsjá

21. apríl, 2005

Ég veit ekki hvað það nákvæmlega er, en ég elska að gista á góðum hótelum! Sumir kvarta endalaust yfir því að þurfa að dvelja á hótelum, en mér finnst það alveg yndislegt. Sumir geta ekki sofið í hótelrúmum, en ég sef aldrei eins yndislega vært og í góðum hótelrúmum.

Kannski er það vegna þess að frá fyrri ferðalögum mínum er ég vanur að dvelja á alveg einstaklega viðbjóðslegum hótelherbergjum. Allt frá því að gista í fyrrum fangelsi í Perú til kakkalakkabæla í Venezuela og því að lenda í mýfluguárás í St. Pétursborg. Kannski að allt þetta fái mig til að meta góð hótel svo mikils og njóta verunnar á þeim.

Ég elska sápur í litlum pökkum. Ég elska að það sé tekið til eftir mig og ég elska að geta sett skyrturnar mínar í poka og fengið þær svo nokkrum tímum hreinar og straujaðar. Það er einhver sérstök tilfinning við að vera á hótelum.

Ég er semsagt núna á Marriott hótelinu í Varsjá. Nánar tiltekið á 21. hæð með stórkostlegt útsýni yfir Varsjá og “Palace of Culture”. Þrátt fyrir að Pólverjum þyki sú bygging hræðileg (sennilega vegna tengingarinnar við Sovétríkin) þá þykir mér hún æðisleg. Kannski hef ég svona skrítinn smekk, en mér þykja þó líka systurnar hans Stalíns í Moskvu vera ótrúlega sjarmerandi byggingar.


Stundum getur lífið verið ótrúlega skrítið og fullt af einkennilegum tilviljunum, sem beina manni á ákveðna staði á ákveðnum tímum. Aldrei hefði mér til dæmis dottið í hug að ég myndi eyða miðvikudagskvöldi á pólskum sportbar, styðjandi Manchester United. En þetta gerðist í gær.

Ég kom hingað til Varsjár með flugi frá Svíþjóð (eftir að hafa látið mér leiðast á flugvellinum í Stokkhólmi í 7 klukkutíma). Þegar ég kom uppá hótelherbergi sá ég að það var sportbar á neðstu hæðinni, sem var að sýna frá enska boltanum. Þannig að ég hljóp auðvitað niður og fékk mér bjór yfir boltanum. Ég treysti á sigur Manchester United, þar sem það hefði komið vonum Liverpool um Evrópufótbolta vel. En auðvitað, loksins þegar ég hélt með viðbjóðinum í Man U, þá töpuðu þeir. Alveg gjörsamlega típískt og óhætt að segja að óbeit mín á því liði hafi ekki farið minnkandi við þetta.


Er búinn að sinna vinnunni í mest allan dag. Fyrst útí bæ og svo hérna heima á hótelherbergi, þar sem ég er með net aðgang. Held að ég sé kominn nógu langt svo ég megi eiga von á því að geta aðeins túristast á morgun.

Skrifað í Varsjá, Póllandi klukkan 22:15

Einar Örn uppfærði kl. 20:15 | 414 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (1)


Hótel eru æði! Sérstaklega þegar maður er búinn að vera að bakpokast í einhverja mánuði, gistandi á sjabbí stöðum og fær svo tækifæri til að vera á 5 stjörnu hóteli (og náttla enn betra ef það er frítt :þ)!!

Hef lent í því - algjör draumur að komast í almennilega sturtu, hrein handklæði og mjúkt rúm… hahaha og sjónvarp! Meiri lúxusinn!

Pálína sendi inn - 23.04.05 11:47 - (Ummæli #1)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu