« ágúst 22, 2005 | Main | ágúst 24, 2005 »

Ferðaplan

ágúst 23, 2005

Ég fæ engin verðlaun fyrir það að vera skipulagður í ferða undirbúningnum mínum. Er eiginlega búinn að vera of busy í vinnu til þess að klára hlutina og skipuleggja.

Var að raða ofaní minningarkistuna mína þegar ég sá allt í einu bólusteningarskírteinið mitt og fattaði að ég steingleymdu að láta bólusetja mig. Gulu sprautan er orðin 10 ára gömul og eitthvað annað var útrunnið. Hringdi því og grátbað konuna á símanum um að redda mér tíma. Sem hún og gerði. Þvílíkt yndi. Þannig að á morgun ætla ég að láta sprauta mig fullan af einhverjum viðbjóði. Vona bara að ég sé ekki inná malaríu-svæðum, svo ég þurfi ekki að taka hryllings-malaríutöflurnar, sem allir tala svo illa um.

Svo hérna heima eftir Liverpool leikinn, þá fór ég að pæla í flugum frá Washington til Mið-Ameríku. Ég ákvað með Genna að það væri betra að við myndum hittast á heimleiðinni og því ætla ég að reyna að fljúga beint til Mexíkóborgar án stopps í Washington og fljúga svo á bakaleiðinni frá Guatemala borgar til Washington og heimsækja Genna og Söndru í tvo daga.

Ég fór svo að hugsa með mér áðan…. heimsækja Genna og Söndru… hhmmmmm… Washington… hmmmm……. Hólí sjitt, þau búa í Bandaríkjunum og ég er með gamalt vegabréf. Þannig að núna þarf ég að redda mér nýju (DAMN you, Osama!) vegabréfi og þarf að fá sérstaka flýtimeðferð, sem þýðir að ég þarf að borga 10.000 kall. Ég er ekki sáttur, því ég elska vegabréfið mitt. Ég fékk það einmitt útí Mexíkó vegna þess að því gamla var rænt af mér á lestarstöð í Mexíkóborg fyrir 8 árum.

En vegabréfið mitt er svo uppfullt af gömlum stimplum (í vegabréfinu eru stimplar frá Guayana, Argentínu (2 stk), Chile, Uruguay, Kúbu, Kólumbíu, Ekvador, Perú, Venezuela, Paragvæ, Tékklandi, Póllandi (2stk), Bandaríkjunum (10 stk), Bólivíu, Tyrklandi og Kanada), sem ég verð aldrei þreyttur á að fletta í gegnum þegar ég er að bíða eftir flugi á leiðinlegum viðskiptaferðalögum. Stimplarnir vekja alltaf upp skemmtilegar minningar. En svona er þetta nú, ég verð víst að fá mér nýtt vegabréf og byrja að safna stimplum uppá nýtt.

349 Orð | Ummæli (11) | Flokkur: Ferðalög

Borgin

ágúst 23, 2005

Hallgrímur Helga er snillingur. Ég mæli með þessu: 101 Reykjavík

10 Orð | Ummæli (3) | Flokkur: Almennt

Össur í World Class

ágúst 23, 2005

Mig minnir að ég hafi einhvern tímann skrifað um það að ég óskaði þess að ungir þingmenn myndu tala (og hugsanlega blogga) einsog þeir væru í alvöru ungir, en ekki sextugir karlar í dulargervi. Mig langaði í blogg þar sem einhver þingmaður myndi viðurkenna að hann horfði á O.C. eða fyndist stelpan á hlaupabrettinu í World Class vera sæt.

Þetta er ekki alveg að gerast. Unga fólkið í pólitík heldur áfram að rembast við að vera fullorðið. Hins vegar er Össur Skarphéðinsson orðinn alvöru bloggari. Ekki svona leiðinlegur þingmannabloggari, sem bloggar bara um frumvörp og R-listann, heldur skemmtilegur bloggari sem segir frá þessu litla og skemmtilega í sínu lífi.

Hvaða þingmaður annar en Össur myndi til dæmis þora að skrifa svona snilld?

Í gær kom svo ég í World Class og sá að menn hópuðust á brettin fyrir aftan vörpulegan mann. Hann hafði valið sér ysta hjólið til að láta bera sem minnst á sér. Loksins- hugsaði ég spenntur. Ég var algjörlega viss um að Clint væri mættur á staðinn.

Ég kannaðist við vangasvipinn á manninum. Mér fannst ég örugglega þekkja limaburðinn. Hjartað í mér sló hraðar. En það var einhver tilvistarangist sem speglaðist í augum hans - sem maður sá aldrei hjá Clint í gamla daga.

Þá sá ég að þetta var enginn annar en Geir Haarde. Hann var búinn að missa svona 15 kíló og orðinn að kyntrölli! Angistarsvipurinn á honum var bara einsog svipurinn á sjálfum mér þegar ég er rekinn í strangt aðhald! Geir var ekki með gleraugun svo hann gat látið sem hann sæi mig ekki þegar ég vinkaði kumpánlega - til að liðið í kring sæi að ég þekki líka frægt fólk.

(via)

Það er einsog Össur hafi frelsast þegar hann tapaði kosningunum í sumar. Bloggið er fullkominn miðill fyrir menn einsog hann. Menn, sem nenna ekki að vera alvarlegir á öllum stundum og þora að segja það sem þeim finnst. Húrra fyrir honum!

Annars, þá sé ég aldrei Clint Eastwood í World Class. En það er sennilega enginn betri staður til að hitta fræga fólkið en í salnum í Laugum.

347 Orð | Ummæli (1) | Flokkur: Stjórnmál

Prentari

ágúst 23, 2005

Já, ég veit að ég á ekki að nota þessa síðu fyrir smá-auglýsingar.

En allavegana, mig vantar ódýran prentara. Sjá auglýsinguna mína hér. Væri ágætt ef þetta væri svart/hvítur laser, en er svo sem opinn fyrir öllu.

37 Orð | Ummæli (4) | Flokkur: Tækni

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33