« Mið-Ameríkuferð 1: Ódeyjandi ást mín á Tacos al Pastor | Aðalsíða | Mið-Ameríkuferð 3: Skæruliðar, eldfjöll og rútuferð frá helvíti »

Mið-Ameríkuferð 2: Mexíkó og El Salvador

5. september, 2005

Ok, ég fíla El Salvador. Hef bara verið hérna í nokkra klukkutíma, en þetta hefur gerst:

  • Gaurinn í innflytjendaeftirlitinu sagði: Bienvenido a El Salvador! Ég hef aldrei heyrt einhvern í vegabréfaskoðun bjóða mig velkominn. ALDREI!
  • Einsog er vaninn í mörgum löndum, þá þarf maður að ýta á takka í tollaeftirlitinu. Maður ýtir á takkann og fær annaðhvort grænt ljós (maður má fara) eða rautt ljóst (tollarar skoða farangurinn). Ég lenti á rauðu ljósi, en hitti þar án efa yndislegasta tollvörð í heimi. Hann nennti mestlítið að skoða bakpokann minn, heldur byrjaði að forvitnast um hvað ég ætlaði að gera. Svo dásamaði hann náttúru El Salvador. Þegar hann var búinn sagði hann stoltur: Bienvenido a mi pais. Yndislegt alveg hreint
  • Ég kom mér svo hingað til Santa Ana, lítillar borgar rétt hjá Cerro Verde þjóðgarðinum, þar sem ég ætla að labba uppá eldfjall á morgun. Ég var með hausverk og fór í apótek til að kaupa lyf. Við hliðiná mér stóð maður, sem gekk uppað mér og byrjaði að nudda á mér gagnaugað! Hann bauðst svo til að nudda á mér hausinn. Ég veit að þetta hljómar illa, en þetta var bara svo yndislega vinalegt. Hann nuddaði á mér gagnaugað og sagði að ég væri of stressaður og eitthvað. Hausverkurinn lagaðist talsvert og kallinn tók í höndina á mér og kvaddi. Ég meina, hvar annars staðar gerast svona hlutir?
  • Fólkið á hótelinu er án efa vinalegasta hótelstarfsfólk, sem ég hef hitt. Ég hef gist á hótelum, þar sem herbergin kosta 400 dollara, en aldrei hef ég fengið jafn vinalega þjónustu og á þessu 12 dollara hóteli hér í El Salvador.

Maginn á mér gerði hálfgerða uppreisn í gær. Veit ekki hvort hann fékk loksins nóg af tacos al pastor, eða hvort þetta voru malaríu töflurnar, sem ég byrjaði að taka í gær. En allavegana, er skárri núna.

Flaug í dag frá Mexíkóborg til El Salvador. Breytingin var mikil. Hérna er allt skógi vaxið og hitinn er gríðarlegur. Samkvæmt mælinum er hitinn 34 gráður, en samkvæmt hausnum á mér er hitinn 79 gráður. Ég get labbað svona 5 metra án þess að byrja að svitna einsog Borgþór.

Talandi um Borgþór, þá sakna ég þess að hafa hann sem ferðafélaga hér í Ameríku. Hann hafði þann einstaka kost að allar flugur löðuðust að honum og því gátum við hinir sofið rólegir á meðan að flugurnar hökkuðu Borgþór í sig. Þar sem ég nýt ekki krafta hans hérna, þá þarf ég að spreyja mig hátt og lágt, þar sem ég er vanalega vinsælt skotmark hjá flugum.


En allavegana, ég veit ekki almennilega hvað ég á að gera hérna í Santa Ana í dag. Þetta er bara lítill bær með sætu torgi og kirkju. Ekki mikið að gera svosem. Ætli ég kíki ekki bara á krána, sem er við hliðiná hótelinu í kvöld og prófi El Salvadorskan (þetta getur ekki verið orð!) bjór.

Á morgun ætla ég að fara yfir í Cerro Verde þjóðgarðinn og labba uppað Izalco eldfjallinu – eða þá uppá það. Veit ekki almennilega hversu langt maður á að komast. Því næst er stefnan tekin á San Salvador, þar sem ég ætla aðeins að stoppa í nokkra klukkutíma eða mesta lagi einn dag. Ef það er eitthvað, sem ég lærði á síðasta ferðalagi um Suður-Ameríku, þá er það að eyða ekki of miklum tíma í borgum. Maður endar á því að gera það sama: Skoða kirkju, torg og svo byrjar maður að eyða tímanum í að versla eða einhverja aðra vitleysu, sem maður gæti gert heima hjá sér. Þess í stað ætla ég að eyða sem mestum tíma skoðandi náttúruperlur eða fornminjar. Það er mun meira gefandi heldur en borgaráp.

Frá San Salvador ætla ég til Perquin, smábæjar sem var einu sinni höfuðstöðvar FMLN skæruliðanna, sem börðust við stjórnvöld hér í landi. Þaðan mun ég svo koma mér yfir til Honduras.

Skrifað klukkan 17.32 í Santa Ana, El Salvador

Einar Örn uppfærði kl. 23:32 | 653 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (5)


Ég þekki þig nú ekki neitt en það er gríðarlega gaman að lesa þessar sögur frá þér - Ómissandi!

Djöfull öfundar maður þig :-)

Keep it up mate

Hjalti sendi inn - 06.09.05 01:57 - (Ummæli #1)

Vil endurtaka commentið hér að ofan :-)

Sigurjón sendi inn - 06.09.05 15:30 - (Ummæli #2)

Ja, folk i Sudurameriku er vist alveg indaelt… Hef ekki komid thangad sjalfur, langar rosa mikid til thess, aetladi eiginlega 2001 ad fara til Buenos Aires, en tha var rosa krisa thar med “public unrest” og laeti… Kann lika rosa vel vid spanverja, their eru svo cool and samt rosa lifandi folk :-)

Einar sendi inn - 07.09.05 08:53 - (Ummæli #3)

Já, endurtek commentið frá Hjalta ! Alveg ótrúlega gaman að lesa ferðasögurnar, ( reyndar líka bara bloggið ), endilega haltu áfram. Hef aldrei komið til Suður - Ameríku en langar svakalega mikið að fara. Þetta hljómar líka allt mjög vel :-) .

Vigdís sendi inn - 07.09.05 10:35 - (Ummæli #4)

Takk kærlega :-)

Einar Örn sendi inn - 11.09.05 18:14 - (Ummæli #5)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu