« september 05, 2005 | Main | september 11, 2005 »

Mið-Ameríkuferð 3: Skæruliðar, eldfjöll og rútuferð frá helvíti

september 09, 2005

Ég ætla ekki að segja að rútuferð dagsins hafi verið versta rútuferð ævi minnar, en hún komst ansi nálægt því. Hafa ber í huga að í verstu rútuferð ævi minnar sat rútan föst í skurði í 12 klukkutíma á meðan að krakki í sætinu fyrir framan okkur vældi nærri stanslaust allan 18 klukkutímana, sem ferðin tók. Sú ferð var í Bólivíu, en ferðin í dag frá Perquin í El Salvador hingað til Marcala í Hondúras var ansi nálægt því að vera jafn slæm.

Einnig ber að hafa í huga að ég er sennilega að vinna með hægustu net-tengingu á jarðríki og þarf auk þess að berja af alefli á suma stafina til að fá þá til að virka, þannig að innsláttarvillur verða eflaust margar. Þessi hæga net-tenging gerir það líka að verkum að ég get ekki einu sinni svarað kommentunum við síðustu færslur, þar sem að tölvan gefst upp áður en síðurnar hlaðast inn.


Allavegana, síðast var ég víst að uppfæra frá Santa Ana í El Salvador. Ég prófaði salvadorkskan bjór það kvöldið (hann var léttur og góður) og daginn eftir fór ég í Cerro Verde þjóðgarðinn. Þar var ætlunin að klífa Volcan Izalco. Vegna fyrri vandræða, þá þarf maður að fara með guide í þá gönguferð auk þess sem að lögreglumenn fylgdu okkur. Í raun voru það tveir lögreglumenn og þeir voru líkt og ansi margir í El Salvador vopnaðir afskaplega vígalegum rifflum.

Allavegana, ég fór af stað með þessum þrem og nokkrum brottfluttum Salvadorum. Fyrst fórum við niður 600 metra af Cerro Verde. Eftir þann spöl gáfust Salvadorarnir upp og fóru tilbaka með einni löggunni. Því var hópurinn, sem eftir var: ég, guide og lögga. Guide-inn og löggan höfðu greinilega farið þessa ferð 100 sinnum, og þar sem karlremban í mér leyfir mér ekki að biðja mér vægðar sökum þreytu, þá kláruðum við 4 tíma ferð á 2 tímum og 45 mínútum. Fyrst niður 600 metra, svo upp 500 metra (þá meina ég 500 metra beint upp, sennilega um 1,5 kílómeters labb) og svo niður þá sömu 500 metra og upp aðra 600 metra. Þetta án þess að stoppa. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn uppgefinn.

En þetta var þess virði. Volcan Izalco gaus síðast 1960 en eldfjallið gaus samfleytt í yfir 100 ár. Uppá fjallið er enginn stígur, heldur klifum við upp möl og stórgrýti. En útsýnið yfir Kyrrahafið og Santa Ana eldfjallið (sem er enn mjög virkt) var ótrúlegt.

Frá Santa Ana tók ég svo kjúklingastrætó til San Salvador. Þegar ég kom þangað um kvöldið hitti ég strax nokkra krakka á hostelinu, sem ég kíkti á pöbbarölt með. Á leiðinni heim af einum barnum var: 1 - ráðist á okkur af snarbrjáluðum hundum 2- kastað í okkur glerflöskum (þrisvar) af einhverjum verulega skrýtnum krökkum og 3 - ráðist á okkur af geðveikasta betlara, sem ég hef nokkrum sinni hitt. Ekki mjög gaman, en það var samt gaman á barnum.


En allavegana, San Salvador nær í mínum huga þeim merka áfanga að vera geðveikasta borg, sem ég hef komið til. Ég var þarna bara í tæpan sólahring, en lætin, draslið, traffíkin og öll geðveikin var nóg til að gera mig hálf sturlaðan á þeim tíma, sem ég var þar. Ég labbaði aðeins um miðborgina og spjallaði heillengi við tvo Salvadora um stjórnmál og annað.

Ég ákvað svo að síðasta stoppið mitt í El Salvador yrði Perquin, lítill bær nálægt landamærunum við Hondúras. Perquin var áður höfuðustöðvar FMLN, skæruliðana sem börðust við stjórnvöld í El Salvador í borgarastríðinu. Það þarf ekki mikið til að í mér vakni smá vinstri-maður þegar ég kem aftur hingað til rómönsku Ameríku. Mis-skiptingin er svo svakaleg að meira segja í landi einsog El Salvador, sem er best komið af öllum Mið-Ameríkulöndunum, er manni fljótt misboðið. Í sumum hlutum San Salvador er allt fullt af bandarískum keðjum, flottum alþjóðlegum fatabúðum og slíku, en á sama tíma þá dóu 7 manns á þriðjudaginn vegna þess að það rigndi svo mikið í borginni að húsin þeirra hrundu, þar sem þau eru byggð utan í hæðir, þar sem að smá rigning getur valdið skriðum.

Þess vegna má maður ekki setja alla skæruliðahópa í sama flokk. Flest lönd í Mið- og Suður-Ameríku hafa upplifað vopnaðar uppreisnir, en niðurstöðurnar hafa verið misjafnar. FARC skæruliðarnir í Kólumbíu eru t.a.m. í dag lítið meira en eiturlyfjasmyglarar, sem lesa Marx, og árangur þeirra skæruliða, sem hafa komist til valda er misjafn. Sandínistar í Níkaragva drápu endanlega niður slæman efnahag landsins, en þeir minnkuðu þó ólæsi úr 50% niður í 13% og dreifðu landi til landlausra bænda.

En allavegana, það er ekki erfitt að gera sér grein fyrir því hvað fær menn útí vopnaða baráttu, þegar maður skoða lönd þeirra. FMLN skæruliðarnir í El Salvador byrjuðu sína baráttu vegna þess að þeim ofbauð slæmt ástand bænda og almennings í landinu og hvernig stjórnvöld höfðu barið niður mótmæli. Árið 1981 byrjuðu þeir árásir gegn stjórnvöldum. Bandaríkin studdu hægri sinnuð stjórnvöld og þjálfuðu hermenn. Ítrekað var reynt að lýsa FMLN sem hryðjuverkasamtökum, en fátt studdi það viðhorf. Hins vegar þá beitti Salvadorski herinn og hægri sinnaðir contra-skæruliðar oft hörmulegum aðferðum gegn FMLN og meintum stuðningsmönnum.

Einn hræðilegasti atburður borgarastríðsins gerðist akkúrat stutt frá Perquin þegar að hermenn réðust inní lítinn bæ. Þar lugu hermenn að bæjarbúum og sögðu að þeir myndu hlífa þeim, sem yrðu eftir, en handtaka þá, sem reyndu að halda til fjalla. Þegar að hersveitirnar komu, þá drógu þeir fólkið útúr húsunum. Karlmenn voru drepnir strax, en konum og börnum var safnað saman í hópa, þar sem þau voru drepin. Fallegustu konurnar voru teknar til hliðar, þeim nauðgað ítrekað og þær síðan drepnar. Alls voru um 900 bæjarbúar drepnir.


Ég kom til Perquin með kjúklingarútu um 7 leytið þegar það hafði byrjað að dimma. Upphaflega ætlaði ég að gista í San Miguel, borg sutt frá, en ég hitti bandaríska stelpu, sem var sjálfboðaliði stutt frá og sýndi mér hvar ég ætti að fara. Allavegana, ég sagði bílstjóranum hvað gistiheimilið héti og hann lét mig fara út þar. Rútan rauk síðan af stað. Þegar hún var farin fyrir hornið áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hugmynd um hvar gistiheimilið væri. Það var algjört niðamyrkur og ég sá ekki neitt - auk þess heyrði ég þrumur í fjarska. Ekki langt frá sá ég smá ljós og ég labbaði þangað. Sá þar einhverja stráka og spurði hvort þetta væri gistiheimilið. Þeir hlógu að mér, en buðust til að labba með mér þangað.

Við löbbuðum af stað, en eftir smá stund sá strákurinn tvo kalla labba rétt hjá okkur, svo hann stoppaði og sagði: “vont fólk, vont fólk!” Ég fraus alveg því að kallarnir stoppuðu um leið og við stoppuðum. Ég hugsaði með mér: plís, ekki láta mig vera drepinn af einhverjum skæruliðum - ég er einn af góðu gaurunum. En strákurinn greip í mig og leiddi mig aftur að húsinu sínu. Við tókum svo aðra leið og fundum loks gistiheimilið. Ég komst þar inn rétt áður en rigningin byrjaði. Ég var svo rétt kominn inní herbergi þegar að rafmagnið fór af öllu húsinu, sennilega vegna eldingar. Þannig að eina, sem ég gat gert var að læsa herberginu mínu og fara að sofa.


Daginn eftir í Perquin skoðaði ég safn, sem var sett upp til minningar um borgarastríðið. Þar fylgdi mér í gegn bóndi, sem barðist með FMLN. Eftir safnið fór ég síðan uppá fjall þar nálægt, þar sem sáust sprengjugígar (herinn varpaði nokkrum sprengjum á Perquin) og skotgrafir. En einnig var þar stórkostlegt útsýni yfir Perquin og alveg yfir til Hondúras. Í raun var með ólíkindum að hugsa sér að á þessum friðsæla og fallega stað hafi geisað borgarastríð fyrir aðeins 13 árum. En núna er þarna allt rólegt og FMLN eru orðnir að stjórnmálaflokk, sem naumlega tapaði síðustu kosningum.

Eftir safnið fékk ég mér sundsprett í litlum læk þar nálægt og ákvað svo að drífa mig yfir til Hondúras. Til þess tók ég rútu.


Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa rútuferðum hér í Mið-Ameríku. Ég hélt að þær væru svipaðar ferðum í Suður-Ameríku, en munurinn er nánast óbærilega mikill. Rúturnar hérna eru nær allar gamlir skólabílar frá Bandaríkjunum. Það þýðir þrennt: Fyrir það fyrsta eru engir demparar á rútunum, í öðru lagi eru rúturnar að minnsta kosti 30 ára gamlar og í þriðja lagi þá voru rúturnar hannaðar fyrir börn. Börn! Ekki fullorðið fólk! Það þýðir að á milli sæta eru sirka 20 sentimetrar, sem fyrir mann einsog mig er hreinlega ekki nóg. Ég er um 180 sentimetrar, sem telst nú ekkert sérstaklega mikið á Íslandi, en hérna er ég nánast risi.

Eitt er það, sem að bílstjórar þessara rúta hafa þó eytt peningum sínum í að bæta: Nefnilega hljómflutningstækin. Allar rúturnar eru með geislaspilara, kraftmikla hátalara og magnara, sem er með treble stillt á hæstu mögulegu stillingu. Þessir sömu bílstjórar hafa svo nánast undantekningalaust versta tónlistarsmekk í heimi. Byrjið á að ímynda ykkur leiðinlegustu kántrítónlist, sem þið getið hugsað ykkur. Ok, þegar við tölum um mexíkóskt kántrí, þá má margalda þá hörmung með 50. Allir virðast þessir bílstjórar elska mexíkóskt kántrí. Það er stórkostleg hörmung. Ég get svo svarið það, að ég myndi frekar vilja hlusta á sírenuvæl heldur en Tigres del Norte eða aðrar jafn stórkostlegar sveitir.

Þegar að bandaríkjamenn reyndu að svæla Manuel Noriega útúr einhverju sendiráði, þá notuðu þeir háværa rokktónlist til að gera alla geðveika. Ef einhver þarf einhvern tímann að pynta mig, þá þyrfti sá hinn sami einingis að spila mexíkóskt kántrí í nokkra klukkutíma og þá væri ég fúslega tilbúinn að viðurkenna að börnin mín væru að starfa með Al-Kaída.

Semsagt, rútuferðin frá El Salvador til Hondúras var 5 klukkutímar. Það eftir malarveg í demparalausri rútu (stanslaus hristingur allan tímann), með 20 sentimetra fyrir lappirnar mínar og mexíkóskt kántrí á hæsta styrk allan tímann. Jesús almáttugur hvað þetta var slæmt.


En núna er ég kominn til Marcala, smábæjar mitt á milli landamæranna og Tegucigalpa. Er kominn með lítið hótelherbergi á krúttulegasta hóteli í heimi. Eigendurnir eru búnir að bjóða mér í mat og litla stelpan þeirra (sem er að ég held fallegasta barn í heimi) labbaði með mér alla leið hingað á þetta netkaffi til að ég myndi ekki villast.

Í fyrramálið ætla ég svo að fara til höfuðborgar Hondúras, Tegucigalpa.

Skrifað í Marcala, Hondúras klukkan 19.36

1707 Orð | Ummæli (12) | Flokkur: Ferðalög

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33