« Mið-Ameríkuferð 11: Bandaríkin | Aðalsíða | ... »

Mið-Ameríkuferð 12: Ferðalok

4. október, 2005

Ég er kominn heim. Kom klukkan 6 í morgun. Fór beint í vinnuna úr fluginu, en gafst upp um 2 leytið vegna þreytu. Er búinn að sofa síðan þá.

Ferðin var æðisleg. Ég hef enga sérstaka þörf fyrir afslöppun í fríunum mínum. Hef aldrei séð sjarmann við það að liggja á strönd í þrjár vikur. Ég vil að fríin mín séu full af ævintýrum, upplifunum og látum. Afslöppunin felst í því að gleyma vinnunni og lifa lífinu á öðruvísi hátt í smá tíma. Þannig kem ég heim fullur af sögum og krafti. Það er mín hvíld.

Mér finnst ég vera á ákveðnum tímamótum í mínu lífi og ég gerði mér miklar væntingar um að þessi ferð mín myndi skýra hlutina og gera mér kleift að taka þær ákvarðanir, sem mér finnst ég verða að taka. Að vissu leyti gerði ferðin það, en að vissu leyti flækti hún hlutina líka. Þannig gerast hlutirnir einfaldlega, maður getur ekki hannað atburðarrásina fyrirfram.


Ég hef haft gaman af því að skrifa ferðasöguna og vona að þið hafið haft gaman af því að lesa hana. Það er öðruvísi að gera þetta hérna opinbert á móti því að skrifa ferðasöguna til vina og vandamanna. Aðallega saknaði ég þess að heyra ekkert frá vinum. Það vissu allir hvað ég var að gera, en ég vissi ekkert hvað hinir voru að gera. Það er kannski í lagi í svona tiltölulega stuttu ferðalagi, en á lengra ferðalagi þyrfti ég að skoða hvernig ég gæti haldið út þessari síðu, sem og persónulegu sambandi við mína vini.

En ég hef strax við heimkomu fengið hrós frá fólki, sem ég hafði ekki hugmynd um að læsu þessa síðu, fyrir ferðasöguna og mér þykir verulega vænt um það. Að vissu leyti er feedback-ið það, sem heldur manni við efnið. Mér þykir alltaf gríðarlega skemmtilegt þegar að fólk kommentar á sögurnar mínar og bætir jafnvel við sínum eigin sögum. Það gerir þetta allt skemmtilegra.


Fyrir ykkur, sem eruð að spá í einhverju svona ferðalagi, en finnið alltaf ástæður til að gera það ekki, þá hef ég bara eitt að segja: Þetta er ekkert mál!

Ef ég tek ekki með flugferðir í dæmið, þá má ætla að ég hafi eytt um 30 dollurum á dag á ferðalaginu. Dýrasta hótelið, sem ég gisti á var í Cancun og þar borguðum við 30 dollara fyrir herbergið, eða 15 dollarar á mann. Fyrir utan það, þá fór hótel eða gistiheimila kostnaður ALDREI upp fyrir 10 dollara á nótt, eða um 600 krónur. Auk gistingar, þá voru rútuferðir um 2 dollarar á dag og matur kannski um 14-15. Samtals, þá áætla ég að ég hafi eytt undir 30 dollurum á dag. Það gera 1800 krónur á dag, eða 54.000 fyrir heilan mánuð.

Flugin kostuðu mig 50.000 (reyndar var Flugleiðaflugið á frímiða), þannig að ferðin kostaði mig samtals um 105.000 krónur. Ég leyfi mér að fullyrða að Íslendingur á Mallorca í tveggja vikna ferðalagi þar sem hann gistir á sömu ströndinni og eyðir tíma í sömu sundlauginni í tvær vikur, eyðir meiri peningi en ég á mínu mánaðarferðalagi um 5 lönd Mið-Ameríku.

Auðvitað þarf maður að færa fórnir, en það er hluti af ævintýrinu. Ég hef gist í gistiheimilum fullum af kakkalökkum og flugum. Fyrir utan Cancun gisti ég aldrei á hóteli með loftkælingu, þrátt fyrir gríðarlegan hita. Ég ferðaðist með ódýrum rútum og borðaði á ódýrum veitingastöðum. En það að ferðast og lifa einsog fólk býr í þessum heimshluta er mikilvægur hluti af upplifuninni. Það er ekkert gaman að ferðast um þessa staði og skoða þá útum glugga á loftkældri risarútu, ofverndaður af íslenskum fararstjóra og með gistingu á lúxushóteli. Kannski er það í lagi þegar maður eldist, en í dag get ég ekki hugsað mér annað en að gera þetta á ódýra mátann. Gisting á ódýrum gistiheimilum er líka frábær leið til þess að kynnast fullt af skemmtilegu fólki.

Þannig að verðmiðinn ætti ekki að hindra fólk. Þá er bara að berja í sig kjark, kaupa Lonely Planet bók um svæðið, sem þig langar að heimsækja, og drífa þig af stað. Það er EKKERT mál að feraðst einn. Kostirnir eru ótal margir og þú átt eftir að kynnast fullt af fólki, sem er á svipuðu róli og þú. Ég er búinn að kynnast fleira fólki á þessum mánuði heldur en á Íslandi allt síðasta ár.


En allavegana, ég vona að þið hafið haft gaman af ferðasögunni. Ég hef haft gaman af að skrifa hana og ef ég hef kveikt hjá einhverjum löngum til ferðalaga, þá er það frábært. Takk fyrir mig.

p.s. myndin er tekin uppá stærsta píramídanum í Chichen Itza, Mexíkó.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur

Einar Örn uppfærði kl. 21:50 | 768 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (27)


Þessar ferðasögur hafa verið frábærar. Vin í eyðimörkinni þegar þreytan sækir að í vinnunni. Mig langar mikið til að gera eitthvað svipað en er þó ekki viss um að ég myndi tækla að það að ferðast einn í svona langan tíma. Kemst að vísu ekki að því nema að prófa.

Bjössi Guðmunds. sendi inn - 04.10.05 22:43 - (Ummæli #1)

Þessar ferðasögur hafa bara verið snilld. Hjálpuðu mér gegnum strembinn septembermánuð, ekki spurning. Velkominn heim. :-)

Kristján Atli sendi inn - 04.10.05 23:31 - (Ummæli #2)

mjög skemmtileg lesning eins og annað sem þú lætur frá þér.. fékk mig samt ekki til að langa að ferðast.. kann ekki að meta ferðalög :-)

velkominn heim!

katrín sendi inn - 04.10.05 23:58 - (Ummæli #3)

Takk fyrir þessa pistla. Er sjálfur að fara á flakk fram á vor í Mið- og S-Ameríku og var bent á bloggið þitt. Verður kannski frekar til þess að maður fer á kakkalakkahótelin og treystir sér til að ferðast EINN eftir að rykið hefur verið dustað af spænskunni. Þetta verður maður að prófa. :-)

Markús sendi inn - 05.10.05 00:24 - (Ummæli #4)

Takk fyrir ferðasöguna. Frábært hjá þér að fara í svona ferð, mig dreymir um Suður-Ameríkuferð einhvern tíma. Ætla þá að prófa að búa einhverjar vikur á hverjum stað og helst eins og heimafólk, ekki á hótelum eða túristastöðum.

Salvör sendi inn - 05.10.05 00:40 - (Ummæli #5)

Ferðasagan var frábær - ýtti undir löngunina ef eitthvað er. Kenni þér hins vegar um ef ég fer á endanum og eitthvað kemur fyrir - sér í lagi ef það er í rútu!!! :-)

Rök réttlætingar eru meira en góð. Það er einmitt ekki gaman að mæta á stað og lifa eins og Íslendingur. Allt í lagi að vera Íslendingur, en maður er á endanum kominn eitthvert annað til að kynnast og sjá nýja hluti - ikke?

Bíð spenntur eftir næstu ferð - verður það Asía næsta sumar?

kv, tobs

Tobbi sendi inn - 05.10.05 03:52 - (Ummæli #6)

Mikið er ég sammála þér með kakkalakkahótelin :-)

Já, og þetta var skemmtileg ferðasaga.

Sigga Sif sendi inn - 05.10.05 06:22 - (Ummæli #7)

LonelyPlanet er ekki nógu menningarlegir svo enn og aftur mæli ég með RoughGuides sem að mínu mati standa öðrum bókum töluvert framar í gæðum og upplýsingum.

Líka ágætt því það eru allir, og þá meina ég ALLIR sem maður mætir á ferðalögum með LonelyPlanet.

Ég ætla að fara hérn fram á brúninna og segja þér Einar að miðað við sögurnar og skoðarnirnar sem þú setur fram held ég að þér væri nær lagi að fara til Afríku en Asíu. En þetta er bara eins manns skoðun sem byggist á fordómum og þekkingarleysi :-)

Frábær saga eftir sem áður, eins og áður. Innblástur þó hans sé kannski ekki mikils þörf.

Daði sendi inn - 05.10.05 08:03 - (Ummæli #8)

Tek undir með öðrum og þakka frábæra ferðasögu. Held ég leggi ekki í kakkalakkahótelin samt, þrátt fyrir heillandi lýsingar.

Björn Friðgeir sendi inn - 05.10.05 08:30 - (Ummæli #9)

Frabaer ferdasaga, thetta var mjoeg fraedandi, og thu gafst mer aftur “inspiration” til ad gera eitthvad svipad. Thad eru ordin nokkur ar sidan ad eg hef farid i eitthvad meira flakk (2000 Ameriku, 2001 Hongkong og Astraliu) og mig langad aftur gifurlega ad gera eitthvad aftur (kannski Sudur-Amerika, kannski Kina, Russland eda Afriku…:-) Ja, ad ferdast aleinn er ekkert mal, kann lika agaettlega vid thad. Eg vona ad thad er ekki of mikid sjokk nuna fyrir thig ad byrja aftur ad vinna eftir 1 manud pasu… :-)

Einar i Lux sendi inn - 05.10.05 09:15 - (Ummæli #10)

Velkominn heim :-)

heidi sendi inn - 05.10.05 13:00 - (Ummæli #11)

Stórskemmtilegar ferðasögur þótt ég hafi lítið kommentað á þær. Þær kitluðu eitthverjar taugar í mér til að fara í svona ferðalag….en hvernig er það, myndirðu segja að maður verði að kunna tungumálið til að ferðast svona?

Birgir Steinn sendi inn - 05.10.05 14:20 - (Ummæli #12)

Takk öll!

Tobbi: Ekkert mál, þú mátt alveg kenna mér um ófarirnar, ég ábyrgist að skemmtilegu hlutirnir verða mun fleiri.

Og Daði, ég verð að segja það að ég var verulega pirraður útí LP í þessari ferð. Fannst vanta mikið af upplýsingum og þeir hafa stytt sögu kaflann um hvert land, þannig að hann er orðinn nánast gagnslaus. Einnig, þá eru auðvitað ALLIR með sömu bókina. Það er kostur í vissum tilfellum, þar sem maður hittir oft sama fólkið á mismunandi stöðum og getur því kynnst því fólki betur. Einnig er það kostur að fólk í svipuðum pælingum skuli hópast inná sömu stöðunum.

En ég hef prófað Footprint og fannst það drasl, gat aldrei notað kortin almennilega (sem LP gera þó vel). Hef aldrei kíkt á rough guides, en geri það kannski núna.

Og já, festist í LP Afríku bókinni og varð sæmilega heillaður. Gallinn er þó að fyrir utan Egyptaland, Suður-Afríku og Viktoríufossa er enginn svona “must-see” staður fyrir mig. Auðvitað er eflaust fullt af yndislegum stöðum, en ég er bara (þó eftir ansi litla skoðun) ekki með svo marga staði í hausnum, sem ég verð að sjá. Kannski þarf ég bara að lesa meira :-)

Og Birgir: Tungumálið hjálpar gríðarlega, en er alls ekki nauðsynlegt. Þó mæli ég alltaf með því að fólk reyni að tala eitthvað. Þegar ég var í Rússlandi gat ég sagt “takk, góðan daginn” og slíkt á rússnesku og það hjálpaði gríðarlega og gerðu það að verkum að innfæddir urðu mun vinalegri.

Einar Örn sendi inn - 05.10.05 15:09 - (Ummæli #13)

frábær ferðasaga - hef verið veik af öfund :-) og er 100% sammála þér að maður verði að upplifa staðina sem að maður er að fara til… annars gæti maður alveg eins keypt sé kynningamyndbandið. Maður á að borða úti á götu, fara á local pöbbinn, gista á gistiheimili og þar fram eftir götunum….

Inga Lilja sendi inn - 05.10.05 15:09 - (Ummæli #14)

Sammála flestum hérna, nema Daða!

Ég ákvað að kaupa Rough Guide til tilbreytingar um daginn þegar ég var í Japan… og vá hvað það var meira ruslið! Maður fékk enga almennilega yfirsýn yfir neitt, og líka mjög léleg uppsetning að mínu mati…. varð fyrir miklum vonbrigðum! (býst ekki við að kaupa guide hjá þeim aftur).

Þannig að ég gerði í því að fá LP lánaða hjá fólki á gistiheimilinum sem ég var á… svo miklu miklu betri, þrátt fyrir að vera 2 árum eldri!

…og já frábærar ferðasögur hjá þér Einar! (amk það af því sem ég hafði tíma að lesa!) Maður hálf skammast sín yfir að vera svona latur í blogginu á ferðalögum… kannski maður bæti sig núna!

Pálína Björk sendi inn - 05.10.05 16:26 - (Ummæli #15)

Mér finnst öll blogg (nema Liverpool-blogg :-) ) snilld frá þér. Ég veit ekki af hverju, mér bara finnst það :-)

Sigurjón sendi inn - 05.10.05 23:54 - (Ummæli #16)

Mjög skemmtileg ferðasaga, og fékk mig sannarlega til að langa að leggja land undir fót!

einsidan sendi inn - 05.10.05 23:55 - (Ummæli #17)

Er ekki Indland bara naest? Otrulegt land. Endalaust ad sja. Margbreytileg menning. Eg for einmitt til Indlands i 20 manna hopi i luxusrutu a luxushotelum og daudlangadi alltaf til thess ad komast ut ur rutunni og rolta um goturnar sjalf. Thu faerd svo lika pottthett fullt af athygli fyrir ljosa harid.

Sammala thvi ad Rough Guide er erfid bok ad nota ef madur er ad ferdast um okunnar slodir og tharf mikid af praktiskum upplysingum. Lonely Planet er best i slikum malum. En eg er lika sammala thvi ad Rough Guide er betri thegar kemur ad menningarlega hlutanum, itarlegri umfjollun um sogu og menningu.

Alfheidur sendi inn - 06.10.05 01:24 - (Ummæli #18)

Takk aftur kærlega. Gaman að heyra að maður hefur kveikt smá neista hjá einhverjum.

Varðandi LP vs. Rough Guide, þá verð ég að kíkja á Rough Guide, þar sem sögu og menningarkafli LP er orðinn algjörleag gagnslaus, allavegana í Shoestring bókunum. Hins vegar er sögukaflinn í bókum fyrir hvert land ennþá mjög góður.

Einar Örn sendi inn - 06.10.05 10:13 - (Ummæli #19)

Mjög skemmtileg ferðasagan öll, sjaldan sem maður bíður spenntur eftir uppfærslum á bloggi hjá fólki sem maður þekkir ekki neitt. Ég vildi óska að ég gæti farið í svona ferð (og þá meina ég ekki peningalega heldur að þora því :D )

DaðiS sendi inn - 06.10.05 10:55 - (Ummæli #20)

Pálína: Leitt að heyra með RoughGuide.

Þegar ég var í Perú og Mexíkó með LonelyPlanet var ég að verða vitlaus á henni,svo illa fjallað um náttúru, sögu og menningu lands að ég hreinlega gat ekki notað þær.

Þær voru mjög öflugar í að benda mér á ódýrustu gistinguna og hvar ég ætti að hitta flesta bakpokaferðalenga en ekki hvar ég myndi upplifa mest.

Einar: Varðandi Afríku þá hefur hún ekki fallegar kirkjur, torg né áhugaverðar byggingar eins og Tikal eða Chitzen en engu að síður skilur ótrúlega mikið eftir sig. Held að maður sem sé að eltast við að upplifa hlutina og verzla sem minnst auk þess að hafa smá ferðareynslu yrðu heillaðir.

Staðir eins og Joburg hafa lítið upp á að bjóða en afríka er heillar mig svo ótrúlega. Vona að Tíbet og Víetman geri hið sama fyrir mig innan tíðar.

Daði sendi inn - 06.10.05 12:30 - (Ummæli #21)

Ég var að ferðast um Nýja Sjáland síðasta vetur og var með Rough Guide bók sem var alveg frábær. Var einmitt að ferðast með fólki sem var með LP bókina og það var ótrúlegt hvað Rough Guide var miklu betri. RG bókin var með mikið af svona trivia upplýsingum um alla staði og “prófið að kíkja þangað” og oftar en ekki þá voru frábærir staðir sem var ekki einu sinni talað um í LP bókinni. Reyndar verð ég að gefa LP það að “Tramping in NZ” er mjög góð en sú bók er eingöngu um helstu gönguleiðir í NZ.

Marý sendi inn - 06.10.05 15:34 - (Ummæli #22)

Ætli maður verði ekki bara með tvær bækur á næsta ferðalagi til að bera þetta saman. :-)

Einar Örn sendi inn - 06.10.05 22:11 - (Ummæli #23)

Og DaðiS, takk. Og Álfheiður: Jú, Indland kemur sterklega til greina fyrir næsta ferðalag. Ég held að ég sé allavegana búinn með Ameríku í bili að minnsta kosti.

Einar Örn sendi inn - 06.10.05 22:14 - (Ummæli #24)

Bestu þakkir fyrir skemmtilega og fræðandi ferðasögu. Við erum tvö á leið á sömu slóðir seinna í vetur (Guatemala og Roatan) og fékk því ábendingu um bloggið frá samstarfskonu minni og skólasystur þinni, Önnu. Eftir að hafa lesið pistlana þína höfum við öðlast hugrekki :-) til að ferðast á eigin vegum. Vorum áður að skoða pakkaferðir á vegum vestrænna ferðaskrifstofa sem rukka himinháar upphæðir :-) fyrir tiltölulega einfalda þjónustu. Það er óneitanlega betri tilhugsun að skipta við innfædda frekar en stór alþjóðleg fyrirtæki (hef þó ekkert á móti þeim), spara sér pening og fá betra tækifæri til að kynnast fólkinu í landinu.

Einnig mjög gagnlegt að fylgjast með ferðabókaumræðunni. Erum búin að kaupa LP Guatemala, Belize og Yucatan og mér virðist hún vera bara nokkuð góð, þó kannski ekkert að marka fyrr en að á reynir. Er hægt að blaða e-s staðar í Rough Guide í bókabúðum hér eða verður maður bara að panta að utan?

Hildur sendi inn - 07.10.05 11:45 - (Ummæli #25)

Gaman að heyra þetta, Hildur. Mæli 100% með að þið gerið þetta ein, þetta er ekkert mál - jafnvel án tungumálakunnáttu og þetta er svo miklu meira gefandi svona.

Auk þess, þá eru sjálfstæðir ferðalangar oft að koma með mun meiri peninga inní þjóðfélögin en alþjóðlegu skrifstofurnar. Þessir sjálfstæðu borða á hverfis veitingastaðnum, gista hjá heimamönnum og svo framvegis í stað skrifstofufólksins, sem gistir á Marriott eða einhverjum ámóta keðjum og fær allt uppí hendurnar.

Ég veit ekki með Rough Guide. Langbest að kíkja bara niðrí miðbæ og skoða hvort þær séu til. :-)

Einar Örn sendi inn - 07.10.05 20:12 - (Ummæli #26)

Hildur og Einar:

Ég hef aldrei séð Rough Guide til í bókabúð á íslandi þó næstum allar aðrar og töluvert lakari ferðabæku að mínu mati hafa ratað hér heim á klakann, t.d. Fodors og Fromers auk Eye Guide (minnir mig, gæti verið I see guide) og klasíkarinnar Turen Rejser til …. sem er skemmtilegt merki um að við séum ekki alveg tilbúinn að slíta okkur frá Nýlendu herrunum.

Því miður hef ég ekki ferðast mið-ameríku og á því ekki Rough Guide bók um svæðið en á LP Mexiko frá því að ég leit á Chitzen Itza og var fullur í Cancun í 5 daga sem mér líkaði illa við, bókin það er að segja, ekki að vera fullur. Annars hefði ég getað leyft þér að líta á þær ef þær finnast ekki í miðbænum og taka meðvitaða ákvörðun um bók.

Daði sendi inn - 08.10.05 06:09 - (Ummæli #27)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu