« október 06, 2005 | Main | október 16, 2005 »

Köfun

október 07, 2005

Ég, á 18 metra dýpi við næst-stærsta kóralrif í heimi.

Gaman gaman.

12 Orð | Ummæli (12) | Flokkur: Myndir

= >

október 07, 2005

Ég er að fara út í fyrramálið. Á sýningu í Köln og svo fer ég yfir til Englands á fund seinna í vikunni.

Ég hef varla getað andað vegna vinnu síðan ég kom heim úr fríinu og því nenni ég varla að fara strax út, en kvarta samt ekki. Verð auðvitað með tölvuna með mér, enda í vinnunni og mun reyna að uppfæra þessa síðu.

65 Orð | Ummæli (0) | Flokkur: Ferðalög

Me gusta la Gasolina!

október 07, 2005

Ef mér leiðist eitthvað meira en að strauja skyrtur, þá er það að þurfa að éta stór orð.

Í Mið-Ameríku er eitt lag alveg fáránlega vinsælt og hefur verið það undanfarið ár. Allir rútubílstjórar elska lagið, það er spilað á öllum klúbbum, veitingastöðum og í öllum verslunum. Það er hreinlega fullkomlega ómögulegt að losna við þetta lag.

Þegar ég og Anja vorum í einhverri rútunni byrjaði ég að bölva laginu. Hún sagðist þá fíla lagið og að þetta lag hefði verið ýkt vinsælt í Þýskalandi í allt sumar. Ég hló og sagði að þetta staðfesti það að Þjóðverjar væru skrýtnir.

Ég hélt því svo fram að Íslendingar væru svo hipp og kúl að þetta lag yrði aldrei vinsælt á Íslandi. Við hefðum betri smekk en svo.

En svo kem ég heim og hvað gerist: Jú, lagið er í brjálaðri spilun á Íslandi! Og ekki nóg með það, heldur þá erum við langt á eftir Þjóðverjum í spilun á laginu. Það er lágmark að ef við byrjum að spila hallærisleg lög, þá ættum við að gera það á undan öðrum löndum. En við virðumst bara lepja upp poppið löngu á eftir þjóðum, sem við höldum að séu hallærislegar. Ef þetta er ekki áfellisdómur yfir Íslandi, þá veit ég ekki hvað er. Semsagt, Þjóðverjar eru kúl, við ekki.

En allavegana, lagið er hið magnaða “Gasolina” með Puertó Ríkanum Daddy Yankee (sjá mynd). Þetta lag hefur verið fáránlega vinsælt um alla rómönsku Ameríku og er núna orðið vinsælt í Bandaríkjunum, Evrópu og loks á Íslandi. Lagið er fáránlega óþolandi, en einhvern veginn hef ég smá veikan blett fyrir því. Aðallega vegna þess að það minnir mig á plássleysi, loftleysi, predikara og feita sölumenn í rútum í Mið-Ameríku.

Textinn er náttúrulega stórkostlegt afrek í textasmíði. Viðlagið hljómar svona:

A ella le gusta la gasolina (dame mas gasolina!)
Como le encanta la gasolina (dame mas gasolina)

Eða á íslensku

Hún fílar bensín (gefðu mér meira bensín)
Já, hún elskar bensín (gefðu mér meira bensín)

Jammm, vissulega snilld.

En fyrir ykkur, sem hlustið ekki á FM957 eða álíka gæðastöðvar, þá ætla ég að gera ykkur þann stórkostlega greiða að bjóða uppá þetta lag, allavegana næstu tvo daga.

Gasolina - Daddy Yankee - 4,41 mb - MP3

Njótið og hugsið svo hlýlega til mín þegar að þið byrjið að heyra “me gusta la gasolina” í hausnum á ykkur allan daginn.

Ekkert að þakka!

396 Orð | Ummæli (8) | Flokkur: Tónlist

Íslenski bachelor-inn: Fyrstu þrír þættirnir

október 07, 2005

Hvar á ég að byrja?


Ok, fyrir það fyrsta svo það sé á hreinu, þá er fólkið sem skráir sig í þennan þátt náttúrulega hetjur. Það veit að það verður gert grín að því og í raun með því að taka þátt í þessum þætti, þá er það að bjóða uppá ákveðin skrif og skot á sjálft sig.

Ég hefði aldrei þorað að fara í þennan þátt og því er þetta fólk hugrakkara en ég hvað það varðar.

En þetta fólk er jú komið í þáttinn og þetta er íslenskt raunveruleikasjónvarp og ég er vanur því að skrifa um raunveruleikasjónvarp á þessari síðu. Þannig að þessu tækifæri get ég ekki sleppt. Ég er búinn að horfa á þrjá fyrstu þættina af þessum þætti og ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja.


Ok, til að byrja með nokkrir punktar úr lausu lofti.

Fyrir það fyrsta: Bachelor-inn býr um rúmið sitt á hótelherbergi. Hvaða karlmaður gerir svona lagað? Kannski er hægt að finna mann, sem býr um sig heima hjá sér (mamma, sá maður er þó vandfundinn!!!), en að búa um rúmið sitt á hótelherbergi er annaðhvort merki um geðveiki eða þá að hann var að reyna að heilla alþjóð fyrir framan myndavélarnar.

Í öðru lagi: Hvað er málið með einstæðar mæður á Íslandi? Þegar ég skrifaði fyrst um þennan þátt, þá efaðist ég um að framleiðendur þáttarins myndi finna 25 einhleypar íslenskar stelpur til að taka þátt. Ég hafði rétt fyrir mér. Ég gat aldrei talið þær nákvæmlega, en stelpurnar í þættinum voru ekki fleiri en 15. Þannig að það er greinilegt að framleiðendurnir fækkuðu stelpunum í þáttunum, væntanlega vegna þess að ekki nógu margar stelpur buðu sig fram. Ástæðan er einfaldlega sú að það eru (einsog ég hef áður bent á) allar stelpur á Íslandi á föstu. Þær, sem eru ekki á föstu og eru komnar yfir tvítugt eru svo ansi margar orðnar einstæðar mæður.

Ég átta mig í raun ekki alveg á þessu. Ég held að í bandarísku þáttunum hafi ekki ein einasta stelpa átt barn, en í íslenska þættinum virðist helmingurinn af stelpunum eiga lítinn krakka. Af hverju er þetta? Eigum við eitthvað met í fjölda einstæðra mæðra? Ganga sambönd ekki upp á Íslandi?

Í þriðja lagi: Í guðs bænum, hættið að kalla þennan þátt “Íslenski bachelor-inn”. Fyrir það fyrsta er “piparsveinn” fínt orð. Það notar enginn orðið “bachelor” yfir piparsvein, ekki einu sinni ungt fólk. Auk þess er það alveg stórkostlega hallærislegt að fallbeygja orðið “bachelor”. Þetta er svo bjánalegt að ég kemst varla yfir það. Ekki að ég sé neinn íslensku fasisti, en samt.


Ég veit ekki hvað ég á að segja um þáttakendurna. Egill Helgason skrifar um þáttinn í pistli sínum í kvöld

Umhverfið er ekkert sérstaklega fallegt; fólkið ekki heldur. Ungar konur að drekka bjór og gosbjór af stút í heitum potti. Sjónvarpsstöðin sýnir auglýsingar á fimm mínútna fresti.

Allt er þetta sérlega kauðskt og sveitalegt. Eins og fólkið sé á árshátíð á Kópaskeri eða Breiðdalsvík – eða bara í Grafarvoginum. Sem eru auðvitað bara ágætt. Smiður og einstæð móðir – það væri ekki amaleg útkoma úr íslenska bachelornum.

Fyrir það fyrsta, þá efast ég um að margar stelpur á Íslandi eigi eftir að hengja upp veggspjöld í svefnherberginu með hinum íslenska “bachelor”. Þetta er eflaust ágætis strákur, en þetta er bara venjulegur strákur. Smiður frá Akureyri. Ef stelpur vilja hitta þannig mann, þá geta þær farið á hvaða bar sem er í bænum og hitt 100 svona stráka á hverju föstudagskvöldi.

Fyrir þáttinn var lögð áhersla á að “bachelor-inn” yrði að vera rómantískur og myndarlegur maður í góðri stöðu. Hann átti á einhvern hátt að bera af íslenskum piparsveinum. Ég átti von á einhverjum, sem væri frægur eða þá í stjórnunarstöðu með góð laun. En niðurstaðan er önnur, þrátt fyrir að piparsveinninn græði ábyggilega fínt á því að vera smiður.

Piparsveinarnir voru líka allir feitir. Allir fjórir. Ekkert alvarlega feitir, en allavegana þá var enginn þeirra í góðu formi. Einsog netkærastan mín sagði:

finnast stelpum þessir gaurar samt spennandi? ég myndi ekki líta tvisvar á neinn þeirra.. sérstaklega ekki eftir að mar sá þá alla bera að ofan he he he..

Sennilega eru þessir gaurar nálægt því að vera meðalgaurar á Íslandi með nokkur aukakíló. Það er nefnilega málið. Þessir gaurar voru ekkert ljótir eða leiðinlegir, heldur bara venjulegir gaurar. Til þess að 15 stelpur tapi sér yfir og vilji keppa um einhvern strák þá þarf að hann að vera meira en venjulegur. Hann hefði þurft að vera óvenju myndarlegur (ein stelpan sagði að piparsveinninn væri “huggulegur”, sem ég myndi seint taka sem miklu hrósi. Önnur sagði að hann væri “sætari en hún bjóst við”.), eða óvenju frægur, eða í óvenju góðri stöðu. Ef það hefði verið staðreyndin þá mætti eiga von á baráttu um hylli hans.

Ég er ekki að segja að ég sé eitthvað meira en “venjulegur”, en ég átti hins vegar von á að í þættinn myndi veljast einhver, sem bæri af á einhverju sviði.


Varðandi stelpurnar, þá eru þær misjafnar. Engin heillar mig allavegana. Að mínu mati var Íris sætust. Þessi virkaði einna skemmtilegust. En annars eru þetta bara ósköp venjulegar íslenskar stelpur. Engin sem ber svo af að maður þurfi heilan sjónvarpsþátt til að kynnast henni.


En aðalvandamálið við þáttinn er samt einfaldlega það að hann er hundleiðinlegur. Kynnir þáttarins nær engum tökum á honum. Hann þylur upp endalausar, hátíðlegar ræður um ástina og rómantíkina og virðist taka þessu alltof alvarlega.

Þátturinn er langdreginn, viðtölin eru teygð og svo virðast ekki vera hljóðnemar á hverjum keppanda, þannig að samtöl verða ekki greinileg. Í erlendu þáttunum eru samtöl á milli keppanda mikið notuð til að krydda upp á þættina. Annaðhvort var fólkið í þessum þáttum svona leiðinlegt eða þá að engin almennileg samtöl náðust á teip. Þess vegna er algjörlega stólað á viðtöl við keppendur, sem eru afskaplega einhæf.

Í upphafsþáttunum voru þessi viðtöl t.a.m. orðin gjörsamlega óþolandi, uppfull af bjánalegum heimspeki spurningum: “Hvað er rómantík”, “Hvað er hamingja” og svo framvegis.

Svo vantar einfaldlega allan glæsileika við þennan þátt. Ég veit að allur samanburður við bandaríska þáttinn er ósanngjarn, þar sem budget-ið þar er margfalt hærra, en óneitanlega leitar maður alltaf samanburðar í þeim þáttum. Íslenski þátturinn er tekinn á einhverju kuldalegu sveitahóteli og stelpurnar drekka bjór í flösku en ekki hvítvín eða kampavín í glösum einsog í erlendu þáttunum. Það vantar einhvern veginn einhvern klassa yfir þetta, þarf eitthvað meira en bara síðkjóla í rósa afhendingunni.


Að lokum, þá var magnað að hlusta á viðtölin varðandi stefnumótamenningu (sem Katrín minnist á). Flestar kvörtuðu stelpurnar yfir því að hún væri ekki til á Íslandi. Hvaða bull er þetta? Hún er alveg til og ef hún er ekki til, þá eiga þær bara að skapa hana. Ef þær eru skotnar í strák þá geta þær bara boðið honum út að borða. Búmmm! komið stefnumót. Ég gerði þetta síðast rétt áður en ég fór út. Komst reyndar að því að ég var talsvert meira skotinn í stelpunni en hún í mér. En það er önnur saga. En ég fór allavegana á stefnumót, þannig að þetta er hægt.

Þetta er munurinn á íslenskum stelpum og stelpum frá öðrum löndum í hnotskurn. Íslenskar stelpur gera ekki neitt nema blindfullar inná skemmtistöðum. Erlendis eru talsvert meiri líkur á að þær geri eitthvað utan skemmtistaðana. Það er allavegana mín reynsla. Punkturinn er bara sá að ef þær vilja stefnumótamenningu, þá geta þær reynt að skapa hana sjálfar. Það er ekkert í loftinu hérna á Íslandi, sem gerir slíka menningu ómögulega.

Ein stelpan kvartaði svo yfir því að karlmenn á Íslandi föttuðu ekki hvenær væri verið að daðra við þá. Ég veit ekki hvort ég geti talað fyrir hönd allra íslenskra karlmanna, en ef að stelpa, sem stráknum líst vel á, er að daðra við hann, þá tekur það hann ekki “marga klukkutíma” að fatta það. Ef að hann hins vegar fílar ekki stelpuna, þá getur hún daðrað dögum saman án viðbragða.


En einsog ég sagði, þá er það fínt að þetta fólk hafði kjark í að skrá sig og mæta í þáttinn. Flestir virtust passa sig á því að segja ekki neitt asnalegt, eða haga sér asnalega. Fyrir bragðið varð þetta kannski full passíft og það er kannski ein ástæðan fyrir því að þátturinn varð ekki skemmtilegri. Kannski að það batni í næstu þáttum.

Vonandi…

Kannski hljóma ég full neikvæður. Málið er bara að það væri vel hægt að gera skemmtilegan þátt úr þessu efni. Það vantar bara svo mikið í þennan þátt til þess að þetta verði áhugavert. Ég ætla þó að gefa þessu fleiri sjensa og vonandi batnar þátturinn með tímanum.

1431 Orð | Ummæli (17) | Flokkur: Sjónvarp

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33