« Til hamingju | Aðalsíða | Superbowl auglýsingar »

Djammið er dáið!

5. febrúar, 2006

Ég held að ég hafi komist nálægt því að gefast endanlega uppá íslensku skemmtanalífi í gær þegar ég fór með vini mínum á djammið í miðborg Reykjavíkur. Ég skemmti mér frábærlega, en það var ekki gæðum skemmtistaðanna að þakka, heldur frekar góðum félagsskap. Ég var að enda við að hætta í ör-stuttu sambandi og því fannst mér tilvalið að fara á djammið með vini mínum.

Við reyndum ansi marga skemmtistaði í gærkvöldi í leit að almennilegri blöndu af góðri tónlist, sætum stelpum og góðu andrúmslofti. Sú blanda virðist ekki vera til. Annaðhvort virðist tónlistin vera hryllingur, troðningur alltof mikill eða þá að 90% fólks inná stöðunum var 16-18 ára gamalt.

Þessa staði reyndum við:

Óliver

Byrjuðum á Ólíver. Það er ágætis staður. Flestir inná staðnum voru yfir tvítugt og var reyndar slatti af fólki vel yfir þrítugt. Það virðist vera sem svo að DJ-inn á Ólíver treysti á það að allir þarna inni séu eldri en 35. Allavegana virðist tónlistin vera miðuð við þann aldhurshóp. Á þeim rúmlega klukkutíma, sem við vorum inná Ólíver heyrði ég m.a.: Lag með Boy George, Wake me up before you go-go með Wham, Take on Me með A-Ha og einhver 2-3 Stuðmannalög. Þetta var orðinn svo mikill hryllingur að við gáfumst að lokum upp. Það var þó greinilegt að FULLT af fólki inná staðnum var að fíla tónlistina. Þessu fólki er ekki hægt að bjarga.

Plúsar og mínusar við Ólíver:

+ Mjög sætar stelpur
+ Fólk yfir tvítugt

- Hryllilegasta tónlistin í bænum.
- Troðningur á dansgólfi. Ekki það að ég hafi haft nokkra löngun til að dansa við Wham.

Vegamót

Löbbuðum yfir á Vegamót í vissu um að tónlistin yrði betri. Það reyndist rétt. Vegamót er fínn staður, einsog alltaf.... Eeeeen hins vegar, þá var reyklyktin og myrkrið að fara með mig. Ég sé lítið í svona myrkri og reyk og því get ég varla greint hvernig fólkið á næsta borði lítur út. Það er ekki gott. Nenni ekki að vera með gleraugu á djamminu. Einnig komu nokkur fáránlega asnaleg lög. Aldurs-samsetningin var ein sú besta á stöðunum, allavegana einsog ég vil hafa hana.

+ Skárri tónlist en á Ólíver
+ Fólk yfir tvítugt

- Myrkur og reykur - Troðningur (reyndar ekki í gær)

Prikið

Við ákváðum eftir Vegamót að reyna að fara á staði, sem við förum nær aldrei á. Fórum því á Prikið. Prikið er staður, sem ég hef aldrei skilið. Gærkvöldið breytti því ekki. Troðningurinn á Prikinu var nánast óbærilegur og svo var aldursamsetningin svipuð og á 3. bekkjarkvöldi í Verzló. Ég held að ég og vinur minn höfum verið svona 10 árum eldri en næst elstu einstaklingarnir þarna inni.

Prikið bauð hins vegar uppá langbestu tónlistina. Old skúl hip hop. Krakkarnir þarna inni voru sennilega enn í leikskóla þegar Doggystyle kom út. Það er magnað.

+ Frábær tónlist

- Viðbjóðslegur troðningur
- Að undanskildum okkur og barþjónunum var enginn þarna inni eldri en 18.
- Troðningur
- "Karlaklósettið" - það kann að vera að einhverjum finnist gaman af því að láta fólk horfa á sig pissa. Ég er ekki einn af þeim.
- Troðningur

Sirkus

Já, Sirkus. Við ákváðum að prófa að fara á Sirkus. Sú tilraun misheppnaðist hrapallega. Beisiklí, þá biðum við í óskipulögðustu biðröð á Íslandi í sirka 30-40 mínútur. Biðröð er í raun rangnefni, því þetta var biðhrúga. Ekkert skipulag. Þeir frekustu komust áfram. Dyravörðurinn var stelpa, sem er athyglisverð tilbreyting. Mér heyrðist tónlistin vera ágæt, en ég heyrði hana bara rétt þegar hurðin opnaðist á sirka fimm mínútna fresti.

Við gáfumst upp eftir 40 mínútur í rigningunni. Get ekki ímyndað mér að staðurinn sé virði lengri biðar.

+ Held að þarna sé góð tónlist
+ Myndavélar eru bannaðar á staðnum. Það er frábær regla.

- Biðhrúgan
- Komumst actually ekki inn. Það var ókostur.

Hverfisbarinn

Á þessum punkti höfðum við fáar hugmyndir. Það var búið að loka Ólíver og við ætluðum að fara á 11, en þar voru hins vegar 50 manns í biðröð. Af hverju veit ég ekki. Við fórum því yfir á Hverfisbarinn, enda var enginn í biðröð þar. Þar inni eyddum við heilum 10 mínútur. Heyrðum allavegana eitt leiðinlegt lag.

+ Lang-sætustu stelpurnar af öllum stöðunum.

- Ekkert aldurstakmark. Ef það er aldurstakmark, þá er það sennilega 14 ára. - Troðningur á dansgólfinu. Hvernig á maður að dansa þegar maður þarf sífellt að vera að ýta fólki frá sér?
- Myndavélar. Ég held að ég hafi lent á einhverjum þrem myndum á staðnum. Það var ekki beint verið að taka mynd af mér, þó að ég haldi að eitt skiptið hafi myndavélinni verið beint að mér. Ég veit ekki hvort það þýðir að myndin lendi í fjölskyldualbúmi í Breiðholtinu eða á netinu. En ég þoli ekki þessar myndavélar á djamminu. Ég lít ekki vel út klukkan 4 á djamminu eftir 10 screw-drævera og hef engan áhuga á að fá myndir af mér birtar.

Kaffi Kúltúr

Æ heitir þetta ekki Kaffi Kúltúr, þarna kaffistaðurinn í Alþjóðahúsinu? Við heyrðum einhverja suðræna tónlist þegar við löbbuðum framhjá og ákváðum að fara inn. Tónlistin versnaði gríðarlega þegar inn var komið og einnig virtist ekki vera mikið af fólki þarna inni.

+ Eh, veit ekki

- Sá engar sætar stelpur
- Tónlistin ekki góð.

* * *

Þannig lauk þessu kvöldi. Niðurstaðan að enginn af þessum skemmtistöðum stóðst væntingar okkar. Ef ég ætti að velja þá væri Vegamót sennilega besti staðurinn. Ég stefni á að halda áfram að prófa nýja staði á næstunni. En ég er farinn að hallast að því að íslenskt skemmtanalíf bjóði ekki uppá staði, sem ég fíla. Ég skil ekki af hverju það er.

Af hverju er ekki hægt að biðja um svona stað:

  • Sæmilega stór staður, með flottum innréttingum.
  • Fleiri en einn bar
  • Aldurstakmark, sem fylgt er eftir. Það er allt í lagi að einhverjir staðir hleypi framhaldsskólafólki inn. En þurfa virkilega allir staðir á landinu að gera það? Stelpa, sem ég var að deita kvartaði yfir því að á Hverfisbarnum væri mikið af krökkum. Og hún er 21 árs! Hugsið ykkur: 21 árs stelpa kvartar yfir því að á skemmtistöðum sé of mikið af krökkum.
  • Góð tónlist. Blanda af þeirri tónlist, sem er vinsæl í dag og almennilegu hip-hopi eða danstónlist. Ekkert 80's crap eða Stuðmenn eða Grýlurnar eða Laddi eða önnur vitleysa.
  • Sætar stelpur (uppfært: Að innan sem utan! Já, og skemmtilegt fólk! Og fólk, sem ég þekki!)
  • Stórt dansgólf! Dansgólf þar sem maður hefur pláss og þarf ekki að rekast utan í fólk á 10 sekúndna fresti.
  • Engar myndavélar! Engar asnalegar fyllerísmyndir birtar á vefsíðum.
  • KLÓSETT SEM VIRKA! Og jafnvel fleiri en eitt klósett.

Ég hef farið inná svona staði í nánast öllum stórborgum, sem ég hef djammað í. Af hverju ekki í Reykjavík?

Einar Örn uppfærði kl. 12:15 | 1117 Orð | Flokkur: Dagbók



Ummæli (24)


Sammála. Það vantar svona stað. Frumkvöðull óskast. :-)

svansson.net sendi inn - 05.02.06 13:39 - (Ummæli #1)

Hvernig væri að þú myndir detta í skemmtanabransann og opna svona stað!!?? Held það væri prýðishugmynd. Átt veitingarstað fyrir og vinnur hjá stóru fyrirtæki svo þú ættir að hafa betra viðskiptavit en flestir aðrir…. styð nefnilega heilshugar þessar pælingar hjá þér. Það vantar nákvæmlega svona stað í miðborg Reykjavíkur!!

Ingi sendi inn - 05.02.06 14:17 - (Ummæli #2)

er algjorlega 150% sammála þér, það er ekkert verra en að koma heim í frí og langa á djammið en finna engan stað sem er sæmilega skemmtilegur og með góða tónlist, endar með því að maður hættir að djamma langt fyrir aldur fram!! verð að koma með komment á Vegamót!! setja upp loftræstingu, fáránlegur mökkur alltaf þarna..

Oddný sendi inn - 05.02.06 15:14 - (Ummæli #3)

Tek undir þetta, þar sem þú ert hvorki tengdur eiturlyfjum eða Skjá einum ætti dæmið að ganga :-)

Svo myndirðu selja mexíkóskan mat í hádeginu og miðri viku.

Áfram Einar!

Ágúst sendi inn - 05.02.06 16:15 - (Ummæli #4)

úúú singúl aftur… þú mannst hvað ég sagði þegar ég spjallaði við þig síðast á msn :-)

majae sendi inn - 05.02.06 22:35 - (Ummæli #5)

Það er nú ansi bratt að óska eftir sætum stelpum þegar fólk getur ekki uppfyllt skilyrðinu ,,sætur strákur” Mættir adda því líka á listan þinn ! Fegurð kemur jafnt að utan sem innan, ansi shallow að það sé eini grundvöllurinn fyrir því að hitta klassa dömu sé aðeins fögur að utan. Myndi halda að fólk með þína menntun og starfsreynslu ætti að hafa meiri þroska en þetta. Sem sagt að segja að þú hafir verið að deita 21 árs krakka ! Þetta segir mikið um það hvað þú ert að leita eftir í fari kvenna.

Ps. vill taka það fram að ég þekki þig ekki, en rakst á síðuna þína og fannst ég eiga til með að opna augu þín fyrir því hvernig þú kemur fram fyrir umheiminum. En óska þér alls hins besta í að finna ,,hina einu réttu” því þú langt í land með þessu hugafari.

Laufey sendi inn - 05.02.06 22:46 - (Ummæli #6)

Ó plís, Laufey!

Má ég, sem “ekki sætur strákur” semsagt ekki óska eftir “sætri stelpu”? Gerir útlit mitt því það að verkum að ég má ekki láta mig dreyma?

ansi shallow að það sé eini grundvöllurinn fyrir því að hitta klassa dömu sé aðeins fögur að utan

Jamm, akkúrat.

Það má vel vera að ég sé “shallow”. Ég laðast fyrst að útliti kvenna. Það hefur verið fyrsta skrefið að öllu nema einu sambandi mínu við kvenfólk. Útlitið laðar mig fyrst að viðkomandi og svo kemst maður að því seinna hvort að hitt passar við mann. Ég gæti ekki verið í viku með leiðinlegri fegurðardís, þannig að það er auðvitað fráleitt að gruna það að útlitið eitt skipti mig máli. Það er hins vegar nánast ávallt það fyrsta, sem maður tekur eftir. Ef það er “shallow”, þá so be it.

Talandi um “shallow”, þá legg ég til að þú dæmir mig sem persónu ekki af einum frekar léttlyndum pistli um skemmtistaði Reykjavíkur. Ef þú ætlar að gera það, þá ertu meira shallow en ég. Ef þú ert æst í að dæma mig, þá myndi ég lesa aðeins meira af skrifum mínum áður en ég myndaði mér skoðun. Ég er líka alveg til í að hitta þig yfir kaffibolla og þú getur dæmt sjálf hvort ég sé jafn hræðilegur og þú vilt gefa í skyn.

Myndi halda að fólk með þína menntun og starfsreynslu ætti að hafa meiri þroska en þetta. Sem sagt að segja að þú hafir verið að deita 21 árs krakka!

Nei, ég er nefnilega minna þroskaður en jafnaldrar mínir. Mig langar ekki í börn og ekki að gifta mig. Mig langar ekki í nýja íbúð né nýtt parket. Starfsreynsla mín og menntun breytti þar engu um.

Þannig að ég er minna þroskaður en jafnaldrar mínir og á því meira sameiginlegt með yngra og óþroskaðara fólki. Ég get ekki séð hvað er að því. Er ekki alveg jafnslæmt að dæma fólk eftir aldri einsog útliti? Ha?

Einar Örn sendi inn - 05.02.06 23:08 - (Ummæli #7)

Ert þú einn af þeim sem að sóttir djammið á Astró þegar það var uppá sitt besta? Var sæmilega stór staður með ágætis innréttingum, með 10 barþjóna á sömu vakt, ekki mikið af fólki undir aldri, dansvæn main-stream tónlist, píur með sílikon, flotta kroppa, gervineglur, fullkomið hár og þar fram eftir götunum, mörg klósett sem virkuðu, dansgólf kannski ekkert sérstaklega stórt en virtist virka. Staðurinn stóð ekki undir sér þrátt fyrir að það hafi alltaf verið pakkað þarna inni. Svona staðir virka ekki á Íslandi. Það hefur sýnt sig og sannað.
Ég er alls ekkert að dissa það sem að þú ert að skrifa hérna þó svo að það gæti hljómað þannig. Miðað við skrif þín þá ertu með rosalega útþrá og finnst allt betra utan Íslands, ég er eða var í svipuðum pakka, þar til að ég fluttist erlendis og sá hvað Ísland er ekkert svo hræðilegt. Erlendir ferðamenn ELSKA Reykvískt skemmtanalíf og í hvert sinn sem að ég hef tekið erlenda vini mína á djammið finnst þeim það geggjað. Ég hef djammað í ýmsum borgum í Evrópu og finnst það ekkert svo æðislegt.
Svo er líka það sem að þú hatar við íslenska skemmtistaði eitthvað sem að margir elska. Sértu ekki í stuði fyrir troðning og sveitt stuð til 6 um morguninn ferðu ekki á Vegó, Prikið, Sirkus eða Kaffibarinn:-) Óliver var bara skemmtilegur fyrstu 2 mánuðina. Hverfis, Hressó, Kúltúr og Sólon eru bara framhaldsskólaskemmtistaðir og hafa alltaf verið það og er það m.a. ein ástæða þess að ég sneiði hjá þeim stöðum. Hefurðu farið á Rex eða Nasa? Hljómar eins og þínir staðir:-) Nema hvað að Rex er kannski ekkert svo stór eða með stórt dansgólf. Já ég gæti gagnrýnt alla skemmtistaði í Reykjavík en held að ég segi þetta bara gott:-) Vonandi á samt eftir að opna einhvern stóran og flottan skemmtistað fyrir þig og þá sem að eru sömu skoðunar og þú:-) Smá komment í lokin, mér persónulega finnst ekkert athugavert við það að þú hafir verið að deita 21 árs gamla stelpu og ekki lýsa þér að neinu leyti. En ég ætla líka að bæta því við að þú ert nú svolítið shallow…haha…en mér finnst það samt eiginlega bara fyndið og algerlega vera þitt mál.. Kannski finnurðu hina einu sönnu til að giftast ekki og eignast ekki börn með þegar þú hættir að leita að sætri stelpu og ferð að litast um eftir áhugaverðri stelpu:-) Það er alveg fullt af þeim fyrir kláran og sætan strák eins og þig:-)

Spakmæli í tilefni dagsins: leyndarmál hamingjunnar er ekki að gera það sem að okkur líkar heldur að líka við það sem að við erum að gera:-)

Arna sendi inn - 05.02.06 23:51 - (Ummæli #8)

ég er nokkuð sammála þessum skemmtistaða lýsingum :-) en ég var t.d. á ölstofunni þetta sama kvöld, þar er fáránleg lýsing (mar sér eila ekki neitt), mikill mökkur, það var gengið inn á mig þar sem að ég var á klósettinu (lásinn pikkaður upp), töluvert eldra fólk en ég, tónlistin kom og fór, ekki hægt að dansa (ég elska að dansa) en þrátt fyriri alla þess mínusa skemmti ég mér samt frábærlega… kannski var það af því að ég var með skemmtilegum stelpum (held það sko) en held að það hafi ekki verið neitt sérstaklega mikið fegurðarlið þarna.. annars var ég ekki að pæla í því.
Mér finnst hins vegar rosa gaman þegar að þú leyfir lesendum að skyggnast inn í hugarheim þinn þegar að það kemur að kvenfólki og tek það fram að mér finnst það ekki grunnt að laðast að útliti… hverju svo sem maður laðast að fegurðardrottningum, bóhemtýpum, ungum, gömlum, rauðhærðum eða jakkafötum :-)

maja sendi inn - 05.02.06 23:56 - (Ummæli #9)

Fyndið að þegar maður segir “sætar stelpur”, þá fer alltaf fullt af stelpum í vörn og koma með komment einsog þetta:

píur með sílikon, flotta kroppa, gervineglur, fullkomið hár og þar fram eftir götunum, mörg klósett sem virkuðu, dansgólf kannski ekkert sérstaklega stórt en virtist virka

Hver segir að þetta sé mín hugmynd um sæta stelpu? Hver?

Miðað við skrif þín þá ertu með rosalega útþrá og finnst allt betra utan Íslands, ég er eða var í svipuðum pakka, þar til að ég fluttist erlendis og sá hvað Ísland er ekkert svo hræðilegt.

Halló!

Ég hef búið erlendis stóran hluta ævi minnar undanfarin ár, ef þú hefðir lesið aðeins lengra þá hefðirðu séð það og hef löngu áttað mig á því hvað ég elska við Ísland. Fjarveran hefur opnað augu mín fyrir fulltaf hlutum hérna heima.

Já, ég er með útþrá. Já, mér finnst sumir hlutir betri í Chicago en í Reykjavík. En mér þykir líka vænt um Reykjavík. Hér búa nánast allir mínir bestu vinir og ég vil borginni sem best. Ég held að útþráin mín hafi ekki skinið í gegn í skrifum mínum einsog eitthvað diss á Reykjavík. Langt því frá. Það er greinilega fulltaf hlutum að virka í reykvísku skemmtanalífi, en fyrir mig þá virðist enginn staður passa. Og samkvæmt kommentum við þessa færslu og fyrri svipaðar færslur hjá mér þá virðist þetta eiga við fleiri.

Nei, ég hef ekki farið á Rex og Nasa er svo sannarlega ekki minn staður. Ég hef aldrei getað ímyndað mér að Rex væri staður fyrir mig. Það má vel vera að ég komi í gegnum þessi skrif út einsog fastakúnni þar, en í rauninni finnst mér það vera fjarri sannleikanum. Þoli ekki staði með VIP herbergi eða VIP biðraðir.

þegar þú hættir að leita að sætri stelpu og ferð að litast um eftir áhugaverðri stelpu:-) Það er alveg fullt af þeim fyrir kláran og sætan strák eins og þig:-)

Er ekki hægt að fá bæði? Sæta og áhugaverða? Ég hef allavegana hitt nokkrar þannig í gegnum tíðina og átt með þeim ágætis sambönd.

Og svo til að svara upphaflegu spurningunni, þá: nei, ég var ekki á Astro. :-)

Einar Örn sendi inn - 06.02.06 00:08 - (Ummæli #10)

Það er sorgleg hræsni að segja að einhver sem þorir að segja upphátt að hann vilji eiga sætan maka sé grunnhygginn og misþroska.

Einar Örn er að tala um stelpur sem hann hefur aldrei hitt áður, og þekkir þarafleiðandi ekki. Heildarútlit, lykt, raddhljómur, orðalag og hreyfingar skipta öllu máli um hvort hann hafi áhuga á að hitta þessar stelpur aftur, hvað þá eyða orðum í hrópandi umræður undir dynjandi drasltónlist.

Það sama gildir ef hann væri að ráða fólk í vinnu. Hann myndi ekki fara eftir útliti eingöngu, en væri hinsvegar með tékklista yfir ideal starfsmanninn. Hor, úfið hár og glóðarauga kemur jafn illa út á vinnutékklistanum og sambandslistanum.

Laufey: ef þú værir svöng og að leita að veitingastað, hvaða skilyrði yrði staðurinn að uppfylla svo þú myndir ákveða að setjast þangað inn og vera tilbúin að setja matinn uppí munninn á þér og kyngja honum?

Staðurinn yrði líklega að vera hreinn, ágætlega innréttaður, ilma vel, og starfsfólkið hvorki skuggalegt né augljóslega með timburmenn eða hnausþykka sakaskrá.

Þetta er að sama skapi mjög grunnhyggin nálgun sem á sér bara stoð í því sem þú hefur “lært” í þjóðfélaginu, því ekkert af þessum atriðum þarf að gera með það hvort þér finnist maturinn góður eða hræðilegur — heldur bara hversu tilbúin þú ert að treysta viðkomandi stað til að gleðja þig.

Undantekningin frá þessari reglu er ef þú hefur borðað á þessum stað áður, og veist af persónulegri reynslu að þú munt labba glöð og södd útaf staðnum, án alvarlegra matareitranna.

Ókei, afhverju á Einar Örn að fara eftir einhverjum öðrum en sjálfum sér þegar hann lítur í kringum sig og skoðar þær stúlkukindur sem umkringja hann?

Það er í lagi að segja að bílar séu ljótir eða að skór séu púkó, sama hversu þægilegir og öruggir þeir eru. Hvers vegna er það svona hræðilegt að láta þetta gilda yfir allt?

Eina fólkið sem tönglast á innri fegurð eru fitubollur og ljótt fólk. Allir aðrir vita að þetta Á að fylgja pakkanum og það þarf ekki að taka það fram. Alveg einsog bílbeltastrekkjarar, rúðuþurrkur og tjakkur fylgja öllum bílum, og því óþarfi að taka það fram.

Halli sendi inn - 06.02.06 00:16 - (Ummæli #11)

Snilldar innlegg frá Halla :-) Sammála honum í alla staði…og sérstaklega í sambandi við síðasta punktinn…. það eru sjaldnast sætu stelpurnar/strákarnir sem tala um innri fegurð.

Það er eðli allra dýra að leita eftir því besta sem í boði er….það á að sjálfsögðu við um okkur líka….ef maður hefur tvo möguleika í boði, sem báðir eru sambærilegir að öllu leiti nema annar er “fallegri” þá velur maður þann fallegri/betri/sætari/flottari…..ef maður myndi ekki gera það þá væri eitthvað að :-)

P.s finnt að þú ættir að opna skemmtistað sem stæðist þessar lýsingar. Þrátt fyrir að ég hafi róast á djamminu þá er hluti af ástæðunni sennilega sá að skemmtistaðirnir eru ekki nógu spennó….góð tónlist og gott pláss er samt aðalmálið….

Svanhvít sendi inn - 06.02.06 00:39 - (Ummæli #12)

Vá ég bara varð að kommenta hérna án þess að þekkja nokkurn sem að hér á í hlut.

Ég hlýt að vera svona hrikalega yfirborðskennd eins og eigandi þessara síðu þar sem að mér myndi ekki detta í hug að gefa mig á tal við einhvern mann sem ég myndi ekki laðast að líkamlega..Hans innri maður á þeim tímapunkti sem ég sé hann fyrst er ekki til fyrir mér því ég þekki hann ekki..skiptir mig engu máli hvort hann sé dýravinur eða friðarsinni…

Ég skammast mín heldur ekkert fyrir það að segja að ég set kröfur í sambandi við karlmenn og ég tel mig sko alveg hafa efni á því að setja standardinn hátt.. Á það ekki annars að vera þannig?? Hver og einn setur sinn standard..greinilegt bara að fólk setur hann mishátt og hefur misjöfn gildi. Ég laðast ekki að ljótum strákum ekkert frekar en eigandi síðunnar laðast að ljótum stelpum… Við erum ekkert yfirborðskennd, við vitum bara greinilega hvað við viljum.

:-)

P.s Eftir að hafa skoðað myndirnar af honum á síðunni þá finnst mér hann alveg uppfylla “sætu stráka” skilyrðin…

ljóma sendi inn - 06.02.06 01:00 - (Ummæli #13)

Ég verð nú að blanda mér inn í þessa umræðu fannst hún eitthvað svo áhugaverð,,ég held ekki að skemmtistaðirnir eru orðnir svona leiðinlegir heldur kannski aldurinn er byrjaður að segja til sín! Frá minni reynslu þá var djammið lífið skemmtilegast annað hvort maður hafði engan aldur til þess að fara inn þessa staði eða nýkomin með aldur! Hjá mér núna er miklu skemmtilegra að vera í góðum vinahópi í partýi eða í einhverju matarboði í stað þessa að fara í örtröðina niður í bæ! Kannski er þetta frekar þú hefur breyst í stað þess að skemmtistaðirnir hafa eitthvað breyst! Því að það er alltaf sami pakkinn á öllum þessum skemmtistöðum ár eftir ár! Þú ert ekkert shallow,,þú ert bara strákur,,strákar horfa á fallegar stelpur,,alveg eins og stelpur horfa á fallega stráka,,svo er þetta bara! :-)

Hulda Katrín sendi inn - 06.02.06 03:26 - (Ummæli #14)

kommon! það eru allir að leita að einhverjum sætum stelpum og sætum strákum. um þetta snýst lífið. Það er samt ekki svo einfalt að allir hafi sama smekk yfir hverjir eru sætir og hverjir eru ljótir, hversu leiðinlegt væri það!?

Ég hef hundrað sinnum upplifað það að finnast einhver ótrúlega sætur en vinkonur mínar hrista hausinn. og öfugt. vonandi verður það svoleiðis áfram.

Hvernig getur maður verið shallow að vilja frekar horfa á og tala við þá sem manni finnst vera sætur? það er bara eðlislægt. Væri ekki frekar shallow að hætta að tala við gaurinn ef hann ætti ekki íbúð og engan bmw? það finnst mér.

Heiða Björk sendi inn - 06.02.06 09:11 - (Ummæli #15)

Mjög svo skemmtilegar umræður. Miklu skemmtilegra að tala um stelpur en pólitík :-)

Svarið frá Halla er náttúrulega frábært og ánægjulegt að aðrir séu jafn “shallow” og ég. Ég held að Heiða hafi líka komið með ágætis punkt:

Ég hef hundrað sinnum upplifað það að finnast einhver ótrúlega sætur en vinkonur mínar hrista hausinn. og öfugt. vonandi verður það svoleiðis áfram.

Nákvæmlega! Þetta var það, sem ég hefði viljað bæta við punktinn þegar ég var að svara Örnu. Held einhvern veginn að fulltaf stelpum geri ráð fyrir því að þegar strákar tali um “sætar stelpur”, þá séu þeir alltaf að tala um einslitan hóp, sem er einfaldlega ekki rétt.

Það að ég óski eftir sætum stelpum inná skemmtistað þá þýðir það alls ekki að ég sé að óska eftir einhverjum einslitum hóp, eða að þær falli inní eitthvað eitt form.



Varðandi aldurinn, þá er það rétt hjá Huldu að áhuginn dofnar auðvitað eitthvað með aldrinum. Ég nenni t.d. ekki að djamma tvo daga í röð einsog ég var ávallt tilbúinn til í Verzló. En hins vegar ef maður fer á djamm í öðrum stórborgum, þá eru nákvæmlega engar líkur á að helmingur skemmtistaðanna sé undirlagður af framhaldsskólakrökkum, heldur er flest fólkið 22-35 ára.

Þetta helst líka allt í hendur, því ég hef á tilfinningunni að fulltaf fólki í kringum mig haldi sig heima um helgar vegna þess að staðirnir eru herteknir af yngsta hópnum um helgar. Það er náttúrulega fáránlegt og slæmt fyrir staðina þegar það er að gerast. Ég hlýt að teljast í hópi draumakúnna fyrir skemmtistaðina því ég stunda þá oft og er nógu vel stæður til að kaupa mér fjölda drykkja, ólíkt því sem var þegar ég var t.d. í framhaldsskóla. Því er furðulegt að ekki fleiri staðir skuli gera meira út á fólk milli 22-30 ára.

Svanhvít, sem er sú eina, sem ég þekki af þeim sem kommenta hér, er 24 ára og segist vera komin með leið á djamminu. Er það virkilega svo að hún sé komin á “aldur”? Það finndist mér allavegana fáránlegt. Já já, ég veit að persónulegar ástæður breyta löngun fólks til að djamma, en ég er samt sannfærður um að ef staðirnir væru betri, þá myndi samsetning fólks á djamminu verða meira í líkingu við það, sem maður sér erlendis.

Einar Örn sendi inn - 06.02.06 10:46 - (Ummæli #16)

Já nú veit ég ekki alveg hvað ég á að segja en ég var nú samt ekkert að fara í vörn þegar að ég talaði um hina ,,fullkomnu” konu. Ég henti þessu nú bara fram í smá djóki…en sorry:-) Astró þótti samt voðalega heitur á sínum tíma og allar glamúrgellurnar sóttu staðinn og sýndist mér karlpeningnum ekkert þykja það neitt leiðinlegt.

Nei útþrá þín hefur ekkert virkað á mig sem eitthvað diss á Reykjavík endilega, enda var ég aðallega að tala um það í sambandi við skemmtistaðaumfjöllunina.

Ég hef lesið síðuna þína í næstum ár núna og hef haft gaman af þrátt fyrir að vera ekkert alltaf sammála þér og veit að þú ert ekki fastakúnni á Rex. Datt bara í hug að þér gæti þótt gaman þar:-) aftur sorry.

Jú það er hægt að fá bæði sæta og áhugaverða stelpu en fyrir mér verður fólk ekki sætt fyrr en að það verður áhugavert. en ég dæmdi þig kannski of hart. enn og aftur sorry:-)

En þetta átti alls ekki að vera leiðindakomment og leiðinlegt að þú skyldir taka því sem algeru dissi:-) Passa mig næst:-)

Arna sendi inn - 06.02.06 12:43 - (Ummæli #17)

Arna, ég tók kommentinu þínu alls ekki illa, þú tókst það líka fram að þú meintir það ekki þannig. Og þú þarft því ekkert að biðjast afsökunnar.

En mér fannst ég samt tilneyddur til að leiðrétta nokkra hluti, sem mér fannst geta valdið misskilningi.

Jú það er hægt að fá bæði sæta og áhugaverða stelpu en fyrir mér verður fólk ekki sætt fyrr en að það verður áhugavert.

Þetta er athyglisvert. Við erum greinilega ólík hvað þetta varðar. :-)

Einar Örn sendi inn - 06.02.06 14:23 - (Ummæli #18)

Sama hvort að komment eru diss eða ekki, verð ég að vera sammála þér í afskaplega mörgu, mér finnst fátt leiðinlegra en að fara inn á staði þar sem að ég er laaang elst, ég fékk alveg minn skerf af menntaskólaböllum og þarf ekkert meira af þeim.

Á Óliver er afskplega mikið af fólki sem að finnst það sjálft æði, horfir svolítið niður nefið á sér á alla hina, en sorglegt en satt þá virðist þetta vera staðurinn sem að fólk fer á til að dansa og einmitt eins og þú segir dansa við Ladda lög eða eitthvað álika og finnast það ótrúlega fyndið og flippað.

Mér finnst meira vera af stöðum til að sitja og æpast á þar sem að tónlistinn er yfirleitt aðeins og há, heldur en af stöðum til að fara að dansa.

Það vantar stað sem að sameinar þetta, mér skildist þegar að óliver opnaði að sá staður væri komin en hef nú komist að raun um að svo er ekki.

Í sambandi við fallega fólkið, sem að betur fer er smekkur fólks misjafn og verð ég að vera sammála þeirri sem að segir að ofan að vinkonur hennar hristi hausinn yfir einhverjum sem að henni finnst sætur. Nú tel ég mig ekkert sérstkalega grunnhyggna manneskju en mér hefði aldrei dottið í hug að labba upp að einhverjum á djamminu og byrjað að kjafta því að hann leit út fyrir að vera svo áhugaverður.

Svana sendi inn - 06.02.06 14:50 - (Ummæli #19)

Mig grunar að skemmtistaðirnir hér heima glími við svipaðan vanda og útvarpsstöðvarnar; þeir eru að reyna að höfða til svo margra að útkoman verður hvorki fugl né fiskur. Vandinn kristallast kannski í því hversu ólíkar hugmyndir okkar um draumaskemmtistað eru. Ég vil knæpu sem selur góðan bjór og viský á viðráðanlegu verði, er reyklaus og snyrtileg (líka klósettin), og spilar lágværa tónlist sem hægt er að spjalla saman yfir án þess að brýna raustina. Dansgólf þarf ekki að vera til staðar og mér er nokk sama um útlitið á innanstokksmunum og gestum, svo lengi sem það er ekki mjög subbulegt. Samt erum við báðir í menntaða, sæmilega fjáða 22-30 ára markhópnum.

Finnbogi sendi inn - 06.02.06 18:58 - (Ummæli #20)

já sem betur fer þá erum við ekki öll eins :-)

Arna sendi inn - 07.02.06 10:25 - (Ummæli #21)

Eins og Finnbogi og Einar (einu sem ég kannast við af þessum fjölda sem hefur skrifað hér) þá tilheyri ég sama markhópi… minn uppáhaldsstaður hefur lengi verið 22, þar eru þrjár hæðir, hægt að sitja og spjalla á þeirri neðstu, dansa á þeirri næstu og einnig sitja og kjafta á þeirri efstu (ef hún er opin). Það sem er þó best við þann stað er tónlistin númer 1, 2 og 3. Ég vil almennilegt rokk og ról takk :-) Nú eru eigendur (eða fv eig.?) Ólívers búnir að kaupa 22 og eru að gera einhverjar “endurbætur”. Ég, ásamt flestum mínum vinum, erum virkilega uggandi um staðinn. Vonandi verður sama tónlistin spiluð þar. Síðan er annað, aldur gestanna á 22 er eldri en á flestum hinum stöðunum…

Eitt í viðbót :-) Þú varst að spá í af hverju það væri röð á 11, því er auðvelt að svara: Frábær tónlist sem er spiluð þar. Og á laugardagskvöldið var varla líft þar inni vegna troðnings (sem ég held að sé að miklu leyti vegna þess að 22 er lokaður). :-)

Soffía sendi inn - 07.02.06 14:25 - (Ummæli #22)

ég ræði alltaf við hvern einn og einasta pung inná skemmtistað sem ég er stödd á áður en ég tek ákvörðun um hver mér finnst sætastur út frá því hver þeirra er áhugaverðastur

:-)

katrín sendi inn - 07.02.06 22:13 - (Ummæli #23)

:-)

Einar Örn sendi inn - 08.02.06 17:51 - (Ummæli #24)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Ég áskil mér allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart mér sjálfum eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar? -


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Nýjustu Flickr myndirnar

Scriptless Flickr Badge
Scriptless Flickr Badge

Á þessum degi árið

2004 2003 2002

Leit:

Síðustu ummæli

  • Einar Örn: :-) ...[Skoða]
  • katrín: ég ræði alltaf við hvern einn og einasta pung inná ...[Skoða]
  • Soffía: Eins og Finnbogi og Einar (einu sem ég kannast við ...[Skoða]
  • Arna: já sem betur fer þá erum við ekki öll eins :-) ...[Skoða]
  • Finnbogi: Mig grunar að skemmtistaðirnir hér heima glími við ...[Skoða]
  • Svana: Sama hvort að komment eru diss eða ekki, verð ég a ...[Skoða]
  • Einar Örn: Arna, ég tók kommentinu þínu alls ekki illa, þú tó ...[Skoða]
  • Arna: Já nú veit ég ekki alveg hvað ég á að segja en ég ...[Skoða]
  • Einar Örn: Mjög svo skemmtilegar umræður. Miklu skemmtilegra ...[Skoða]
  • Heiða Björk: kommon! það eru allir að leita að einhverjum sætum ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.33

.