Það besta sem…

Mikið afskaplega er *Viðrar vel til Loftárása* æðislegt lag.

Ég var að koma úr matarboði hjá mömmu og pabba og þegar ég kom heim þá kveikti ég ekki á tölvunni (sem er vanalega mitt fyrsta verk við heimkomu), heldur setti bara *Ágætis Byrjun* með Sigur Rós á og byrjaði á einhverri svakalegustu tiltekt seinni tíma.

Fékk skyndilega þörf til að hreinsa í kringum mig. Losa mig við óþægilega hluti, slæmar minningar og annað sem hefur angrað mig. Stundum þarf ég bara að gera þetta, byrja uppá nýtt. Henti öllum rúmfötum, slatta af bókum, öllum tímaritunum mínum, gömlum bréfum og hellingi af öðru drasli.

Núna líður mér betur.

* * *

Ég held að ég hafi aldrei farið yfir niðurstöður uppboðsins, sem ég hélt síðasta desember hérna á síðunni.

Allavegana, um jólin söfnuðust 200.000 krónur í uppboðinu (eða nálægt því, ég námundaði upp). Auk þess þá bað ég fólk um að gefa til Oxfam í stað afmælisgjafa í síðasta afmæli og þannig söfnuðust 100.000 krónur. Þannig að samtals gaf ég fyrir hönd lesenda þessarar síðu og þeirra sem mættu í afmælið mitt (þessir hópar skarast væntanlega all mikið) 300.000 krónur til Oxfam. Þetta er kannski ekki milljarður, en þetta er allavegana mitt framlag.

* * *

Annars var fundurinn með umhverfisráðherra mjög góður og skemmtilegur. Það er einmitt fullt sem mig langar til að skrifa um pólitík og umhverfismál á þessari síðu, en einsog svo margt annað þá verður það að bíða.

* * *

Fór með vinkonu minni á Veðramót á mánudaginn.  Sú mynd er nokkuð góð.  Kannski ekki alveg 4 stjörnu mynd, en samt mjög góð.  Mér leið afskaplega skringilega allt kvöldið eftir myndina.

4 thoughts on “Það besta sem…”

  1. Viðrar vel til loftárása er eitthvað besta lag sem ég veit um, fer á topplista allaveganna.

    Þessi partur þar sem línan það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur og lagið fer í hæstu hæðir hleypir sæluhrolli í mann. Ef það gerist ekki hjá fólki er slökkt á hjartanu í því.

Comments are closed.