Við Hildur erum nú búin að vera hérna í Montreal í fjóra daga. Á morgun ;aetlum við að vakna snemma og keyra til Toronto. Þar ætlum við að vera í þrjá daga og fara svo til Niagara Falls.
Við erum búin að hafa það mjög gott hérna í Montreal, enda er þetta frábær borg. Ég skrifaði síðast á laugardag og síðan þá er fullt skemmtilegt búið að gerast.
Á laugardag fórum við á djammið. Við byrjuðum á brasilískum veitingastað, sem bauð uppá endalaust magn af alls kyns kjöti. Ég hef sennilega sjaldan borðað eins mikið. Eftir þau ósköp fórum við á milli bara hérna í aðal djammhverfinu. Mjög gaman.
Á sunnudag fórum við svo á aðal listasafnið hér í borg. Þar var einmitt síðasti dagur á sérsýningu, sem hét Picasso og erótík. Skemmtileg sýning. Við eyddum svo restinni af deginum á rölti um miðbæinn.
Um kvöldið fórum við svo út að borða á ítölskum stað. Eftir mat keyrðum við svo útá Ile Notre Dame eyjuna. Þar er nefnilega Casino de Montreal. Þetta er risastórt Casino, sem var alveg fáránlega troðfullt af fólki, sem henti peningunum sínum í ruslið með bros á vör. Við vorum náttúrulega alveg einsog hinir. Ég eyddi þó ekki miklu. Við spiluðum smá í spilakössum, en mestum tímanum eyddum við í rúllettu. Það gekk misvel. En þetta var rosalega gaman.
Í dag erum við svo búin að vera ýkt dugleg. Við byrjuðum á að labba uppá Mont Royal, sem er fjall á miðri eyjunni, sem að Montreal er á. Uppi á fjallinu er frábært útsýni yfir borgina. Svo seinni partinn í dag vorum við aðeins að versla föt fyrir veturinn.