Múrinn og USA. Enn aftur…

Ég veit að ég ætti sennilega ekki að vera að pirra mig á Múrsskrifum um Bandaríkin. Hatur þeirra á Bandaríkjunum virðist vera ótakmarkað. En samt, þá verð ég að mótmæla því, sem er skrifað í dag. Í grein, sem heitir Hausinn af! skrifar Katrín Jakobsdóttir þegar hún talar um hugsanlega árás Bandaríkjanna á Írak:

Þá er við hæfi að rifja upp litla sögu. Einu sinni var maður við völd í Evrópu. Lífsspeki hans gekk út á að þjóð hans væri betri en aðrar þjóðir og ætti þess vegna að ráða mestu. Honum tókst að vekja almenna móðursýki með þjóðinni þannig að hún stóð með honum. Svo fór hann að leggja undir sig ríki en fyrst bara í Austur-Evrópu því að þá gat hann verið viss um að Vestur-Evrópu-þjóðirnar myndu láta hann í friði. En hann lét ekki staðar numið þar.

Þessi saga gæti minnt á núverandi ástand. Hegðun vestrænna þjóða virðist benda til þess að þeim sé sama um það að arabaþjóðir séu skotnar í tætlur. Þetta gæti stafað af djúpstæðum ótta við það sem er framandi og öðruvísi.

Það að líkja Bandaríkjunum og væntanlega George Bush við Hitler er ótrúlega lágt lagst. Það væri í raun fáránlegt fyrir mig að vera að telja upp ástæður fyrir því af hverju það er slappt að líkja Bush við Hitler.

Ég er ekki búinn að gera upp hug minn á því hvort ég sé fylgjandi árás á Írak. Ég, einsog sennilega margir Múrsmenn tók þátt í nokkrum mótmælum gegn viðskiptabanninu á Írak fyrir nokkrum árum. Ljóst er að það bann hefur aðeins styrkt Saddam Hussein í sessi. Þeir á Múrnum eru mér eflaust líka sammála um það að Hussein er hræðilegur forseti og að íbúar Íraks myndu vera mun betur af án hans. En þá er spurning hvað hægt sé að gera til að hjálpa saklausu fólki í Írak? Er árás kannski eina lausnin?