Sverrir Jakobsson og Brasilía

Sverrir Jakobsson, sem skrifar á Múrinn og eigin heimasíðu fjallar um kosningarnar í Brasilíu og kvartar yfir því að Mogginn sé eitthvað á móti hinum endurfædda sósíalista Lula da Silva. Hann endar stutta færslu sína á þessum orðum. (ég vona að hann verði ekki fúll þótt ég vitni beint í hann:

Ég vona hins vegar að Lula nái kjöri og nái að sveigja efnahagsstjórnun í Brasilíu frá þeirri braut sem alþjóðastofnanir hafa þröngvað upp á landsmenn líkt og aðra íbúa þriðja heimsins. Ekki veitir af.

Ég hef nokkrar athugasemdir við þessa færslu:

Í fyrsta lagi var efnahagsstefna Hernando Cardoso vel heppnuð. Honum tókst að koma niður verðbólgunni og minnka að einhverju leyti fátækt í landinu. Hann bætti heilbrigðiskerfið og nú fara í fyrsta skipti nær öll brasilísk börn í skóla. Honum hefur tekist betur upp en nokkrum forseta landsins.

Í öðru lagi þá þröngvar Alþjóðabankinn ekki efnahagsumbótum uppá lönd. Hann kemur löndum, sem hafa komið sér í vandræði, til aðstoðar með lánum. Eðlilega setur Alþjóðabankinn skilyrði fyrir lánunum í stað þess að ausa peningum í óábyrga stjórnmálamenn. Þessi ráð hafa auðvitað reynst misvel enda eru hagfræðingar ekki fullkomnir frekar en sagnfræðingar.

Í þriðja lagi, þá var Lula kosinn fyrst og fremst vegna þess að hann er ekki eins róttækur og hann var. Hann hefur til að mynda lofað að hann muni ekki breyta efnahagsstefnu Cardoso. Það var fyrst og fremst útaf því, sem fólk treysti honum loks til að stjórna landinu.

Það sýnir líka árangur Cardoso að hann er ennþá mjög vinsæll í landinu. Hann gat þó ekki boðið sig fram aftur vegna takmarkana á setu forseta í embætti.

Það er vonandi að Lula verði farsæll í embætti en það mun honum aðeins takast ef hann heldur áfram á sömu braut og Cardoso í efnahagsmálum.