Serrano – mexíkóskur veitingastaður

SerranoÉg hef lítið sagt frá mínu lífi undanfarið á þessari síðu. Aðal ástæða þess er að ég hef verið mjög upptekinn og lítið komist nálægt tölvu. Ég er nefnilega, ásamt Emil félaga mínum, að fara að opna mexíkóskan veitingastað í Kringlunni í næstu viku.

Staðurinn heitir Serrano og verður hann í húsnæðinu, sem Popeye’s var í, við hliðiná McDonald’s. Þessi staður mun selja úrvals mexíkóskan mat. Á matseðlinum verða burritos, tacos (harðar og mjúkar) og nachos auk eftirrétta. Viðskiptavinir munu geta valið sér innihaldið í burritos eða tacos. Hægt verður að velja úr fjölmörgum tegundum af kjöti, grænmeti, salsa sósum, guacamole, osti og fleiru.

Þannig að þessa dagana erum við á fullu við að gera staðinn tilbúinn. Núna eru iðnaðarmenn að smíða veggi, mála, setja upp kæla og fleira því tengt. Ef allt gengur upp, þá stefnum við að því að opna staðinn 1. nóvember, sem er á föstudag eftir viku. Þessi dagsetning er þó ekki opinber, þar sem við vitum ekki alveg hvenær sum tæki koma til landsins. Vonandi gengur það þó eftir.