Heiða og listin að vera ein(n)….og Twin Peaks

Ég rakst inná síðu hjá Heiðu, sem ég þekki ekki neitt. Hún skrifar ansi skemmtilegan pistil um hvernig á að njóta þess að vera einn.

Þar talar Heiða um það hvernig henni finnst oft skrítið að fara ein út. Það er vissulega ekki á hverjum degi, sem maður fer einn á tónleika eða kaffihús. Maður þarf að vera mátulega hugaður til að gera það.

Ég man þegar ég bjó í Mexíkó að fyrsta mánuðinn þekkti ég nánast engann. Ég vann með eldra fólki og ég bjó hjá einhverju leiðinlegu fólki, sem ég nennti ekki að hanga með. Þar, sem ég vildi ekki að hanga heima, fór ég smám saman að drífa mig út einn. Ég fór oft og fékk mér að borða einn á Taco Inn, þar sem ég las bara Newsweek í rólegheitunum og skrapp síðan einn í bíó. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en ég kunni bara ágætlega við þetta á endanum. Samt sem áður var lífið þó mun skemmtilegra þegar ég kynntist stelpunni, sem ég var með þar úti.

Hérna heima er þetta dálítið öðruvísi. Ég fór til að mynda í fyrsta skipti einn á tónleika þegar ég sá Maus á Grandrokk. Ég vissi að vinir mínir myndu ekki nenna að horfa á Maus og í stað þess að missa af tónleikunum ákvað ég bara að skella mér einn og ég sá ekki eftir því. Samt leið mér skringilega og ég var alltaf að spá í hvað aðrir væru að hugsa, líkt og Heiða talar um. Ég veit sjálfur að maður dregur ákveðnar ályktanir þegar maður sér fólk, sem er eitt að skemmta sér.

Annars talar Heiða (ég var í fyrsta skipti að sjá síðuna hennar) líka um að hún sé Twin Peaks aðdáandi. Ég elskaði Twin Peaks þegar þættirnir voru sýndir á Stöð 2 en ég man að ég var ávallt skíthræddur við að horfa á þá. Fyrir nokkru keypti ég mér fyrstu seríuna á DVD. Nóttina áður en ég ætlaði að byrja að horfa á þættina aftur fékk ég þá svakalegustu martröð, sem ég hef fengið lengi. Killer Bob var að ráðast á mig og einhvern veginn blönduðust aðrar David Lynch persónur saman við þetta. Eftir þessa martröð var ég bara hálf tregur við að horfa á seríuna og er ekki ennþá byrjaður á henni. Það fer samt að koma að því.