Crash

Ég fékk í dag hringingu frá Aco Tæknivali og fékk loks þær fréttir, sem ég hafði óttast undanfarið. Harði diskurinn minn er algerlega ónýtur.

Fyrir jól ætlaði ég nefnilega að setja inn nýjan disk í tölvuna mína, svo ég gæti klárað að setja alla geisladiskana mína inná einn harðan disk með MP3 skrám. Mitt í þessu brambolti tókst mér að eyðileggja upphaflega diskinn úr tölvunni. Það er einmitt sá diskur, sem innihélt öll þau gögn, sem mér var annt um.

Þeir hjá Tæknivali eru að sögn búnir að reyna allt en ekkert gengur, svo ég verð að sætta mig við að öll gögnin eru týnd. Það þýðir að allur tölvupóstur síðustu fjögurra ára er horfinn. Auk tölvupóstins er svo heill hellingur, sem tapaðist. Allt frá ástarljóðum til hagfræðiritgerða. Það tekur smá tíma að komast yfir það að hafa týnt þessu öllu, því mér þykir mjög vænt um mörg þau email og margar þær skrár, sem ég hef safnað síðustu árin.

Ég er búinn að eyða kvöldinu í að sætta mig við þetta og reyna að endurbyggja hluti einsog símaskrár og slíkt. Þetta er nú meira vesenið. En maður lærir víst af reynslunni. Ég segi bara einsog Gummi Jóh: Tækinorð ársins verður BACKUP