Sigurður Kári og Írak

Ja hérna, ég held að Sigurður Kári sé að breytast í minn uppáhaldsstjórnmálamann. Það er allavegana alveg ótrúlega gaman að horfa á hann í sjónvarpi. Hann virðist vera gjörsamlega ófær um að beita rökum og virðist mæta í sjónvarp í þeim eina tilgangi að verja stjórn Sjálfstæðisflokksins með öllum mögulegum ráðum.

Á Stöð 2 áðan tók hann meðal annars að sér að gera lítið úr þeim hörmungum, sem Agusto Pinochet olli með mannréttindabrotum sínum. Flosi Eiríksson, Samfylkingarmaður bar saman stjórn Saddam Hussein og Agusto Pinochet, þegar var verið að tala um stríðsáætlanir Bandaríkjamanna. Þar þuldi Flosi upp að Pinochet hefði látið pynta samlanda sína og að þúsundir manna hafi horfið. Sigurði Kára fannst þetta bara sniðugt og það eina, sem hann gerði var að hlæja alveg þangað til að þáttastjórnendur breyttu um umræðuefni og fóru að tala um handbolta.

Annars var annað, sem fór í taugarnar á mér í þessum þætti. Það var að Flosi beitti einhverjum meingölluðustu rökum gegn stríðinu í Írak. Það eru sú rök að það séu voðalega margir aðrir einræðisherrar í þessum heimi, sem Bandaríkjamenn gera ekkert gegn og þess vegna ættu Bandaríkjamenn ekki að ráðast á Írak. Þetta er náttúrulega algjört bull. Þetta er einsog að segja að lögreglan ætti ekki að handtaka morðingja vegna þess að það séu svo margir aðrir morðingjar, sem gangi lausir.

Það er líka eitt, sem vantar algjörlega inní málflutning friðarsinna. Það er, hvað við á Vesturlöndum getum gert til að hjálpa fólki í Írak? Er það ekki skylda okkar að hjálpa þessu vesalings fólki, sem á svo sannarlega ekki skilið illmenni einsog Saddam Hussein yfir sér. Vilja friðarsinnar bara að við látum sem ekkert sé, svo Saddam geti haldið áfram að kvelja landa sína? Hverjar eru tillögur þeirra?