Mín skoðun

Það lítur kannski fullmikið út einsog ég sé stuðningsmaður George Bush eftir skrif mín á síðunni. Þess vegna vil ég taka eftirfarandi fram:

  • Ég tel að George Bush sé einn alversti forseti, sem Bandaríkjamenn hafa haft yfir sér síðustu áratugi. Í fyrsta lagi hafa efnahagsaðgerðir hans verið fáránlega vitlausar (skattaívilnanir handa þeim ríkustu til að auka hagvöxt) og svo er utanríkisstefna hans ekkert til að hrópa húrra fyrir. Einnig er mannvalið í ríkisstjórninni afskaplega hæpið og íhaldsstefna hans í ýmsum málum er áhyggjuefni
  • George Bush er samt langt frá því að vera versti leiðtogi í heimi. Það er þó vissulega mjög margt vitlaust í stefnu hans og framkomu. Það er samt með ólíkindum hvað George Bush er klár í því að fá alla uppá móti sér. Á ferli sínum sem forseti hefur hann ekki gert mörg mistök í utanríkismálum (það efast fáir um að Afganistan er betur statt nú en fyrir tveimur árum) en samt hefur honum tekist að fá hálfan heiminn á móti sér.
  • Margir friðarsinnar fara afskaplega mikið í taugarnar á mér. Það byggist fyrst og fremst á því að þeir mótmæla eingöngu þegar að Bandaríkjamenn eða Ísraelar gera eitthvað af sér. Samkvæmt þeim er allt illt í þessum heimi komið til vegna Bandaríkjanna. Þannig komst Pinochet aðeins til valda í Chile útaf Bandaríkjunum og Saddam Hussein er bara svona vondur vegna þess að Bandaríkjamenn studdu hann fyrir 15 árum. Það er ekki nóg fyrir friðarsinna að enda alltaf setningarnar á “jú og svo er Saddam auðvitað vondur maður”.
  • Ég vil að alþjóðasamfélagið geri eitthvað til að hjálpa kúguðum þjóðum. Það þýðir að þjóðir utan Bandaríkjanna verða að gera eitthvað. Það er einföld staðreynd að leiðtogar Frakklands og Þýskalands bíða alltaf eftir því hvað Bandaríkjamenn gera. Þá geta þeir staðið á hliðarlínunni og gagnrýnt. Það er mun auðveldara heldur en að gera eitthvað. Þessir lönd virðast vera fullkomlega ófær um að gera eitthvað varðandi vandamál í stríðshrjáðum löndum (JÚGÓSLAVÍA!)
  • Ef að Evrópubúar vilja virkilega gera eitthvað í málefnum Sádi-Arabíu, Ísraels eða hvaða lands sem er, þá er það augljóst að þeir annaðhvort þora ekki að gera neitt, eða að þessi heimsálfa er alveg gersamlega getulaus í alþjóðamálum.
  • Ég er á móti stríði við Írak. Eina lausnin, sem ég er æskileg (að mínu mati) á þessu máli er sú að Saddam Hussein fari í útlegð. Stríð er ekki góð lausn og það er heldur ekki góð lausn að Saddam Hussein fái að sitja áfram í friði. Ég er hins vegar á því að mörg Evrópulönd, sem eru andvíg aðgerðum Bandaríkjanna, verði að leggja til lausnir á því hvergnig hægt sé að koma Saddam Hussein frá. Þrátt fyrir að leiðtogar Sádi Arabíu og fleiri landa séu slæmir, þá nálgast þeir fáir illmennsku Hussein, sem hefur notað efnavopn á landa sína.