Hagfræði og Írak

Á Múrnum í dag er grein um Írak. Þar segir meðal annars:

Stríðið í Írak snýst nefnilega ekki um að Saddam Hussein sé vondur maður sem George Bush og Halldór Ásgrímsson segja að hafa drepið barnabörn sín (ætli Bush sé heimild Halldórs fyrir því?). Það snýst um að Bandaríkjastjórn vill fara í stríð við einhvern. Hún vill vígvæðingu til að mala gull fyrir hergagnaframleiðendur og önnur stórfyrirtæki sem komu henni til valda. Hún vill líka auka vinsældirnar heima fyrir og taka eins lítið tillit og unnt er til málfrelsis og mannréttinda.

Trúir greinarhöfundur því virkilega að Bandaríkin séu að fara útí stríð bara til að geta gefið hergagnaframleiðendum meira að gera?

Allavegana, samkvæmt þessum tilgátum Ármanns þá er það eina, sem Bandaríkjastjórn þarf, góður hagfræðingur.

Þessi hagfræðingur gæti í fyrsta lagi sagt Bush að það væri mun sniðugara að styrkja hergagnaframleiðendur beint. Það væri miklu hagkvæmara en að fara í stríð, því þá myndu sparast ótal vinnustundir, mannslíf, eldsneytiskostnaður og slíkt. Hergagnaframleiðendur væru alveg jafn vel settir en Bandaríkjastjórn myndi spara á öðrum sviðum.

Þessi sami hagfræðingur gæti svo frætt Bush að vinsældir hans væru alveg feykinógar til að halda honum í sessi eftir næstu kosningar. Hann gæti minnt hann á það að pabbi hans tapaði sínum kosningum ekki útaf stríði heldur útaf efnahagsmálum.

Þessi sami hagfræðingur gæti sagt Bush að það að fara útí stríð væri að öllum líkindum mjög þjóðhagslega óhagkvæmt (hann gæti svo líka fengið hann til að hætta við skattalækkanir handa þeim ríkustu). Ef að Bush myndi hlusta á hagfræðinginn myndi efnahagurinn vænkast og Bandaríkjamenn yrðu mun ánægðari með forsetann, því að langflestir kjósa eftir því hvernig efnahagsástandið er.

Já, heimurinn yrði betri ef að allir hlustuðu á hagfræðinga.