Bloggað í 3 ár!

Þótt ótrúlegt megi virðast þá er þessi bloggsíða mín nú þriggja ára gömul. Fyrsta færslan var skrifuð 22. apríl 2000. Þá var ég á öðru ári í hagfræði útí Chicago og mig langaði að prófa að skrifa vefleiðara einsog Björgvin Ingi og Geir Freyr höfðu verið að gera í nokkrar vikur.

Ég hafði haldið úti fremur dapri heimasíðu í nokkurn tíma en mér fannst hún ekki ýkja áhugaverð, þar sem hún var nánast aldrei uppfærð. Því fannst mér vefleiðaraskrif vera sniðug hugmynd.

Ég hef allavegana enst í 3 ár og eftir mig liggja einhverjar 800 færslur, allt frá stuttum færslum um bíóferðir og djamm í upphafi til lengri pistla um pólitík núna uppá síðkastið. Síðan hefur í gegnum tíðina breyst úr því að vera dagbók á meðan ég var erlendis í námi, til þess að fjalla meira um pólitík og íþróttir og minna um mitt einkalíf.

Ég ætla nú ekkert að monta mig en það eru nú ekki margir á Íslandi, sem hafa enst jafn lengi og ég án þess að stoppa. Oft hafa uppfærslurnar dottið niður en alltaf hefur eitthvað komið til, sem hefur endurnýjað áhuga minn á þessari síðu. Ég vonast til þess að mér takist að halda uppi áhuga mínum og lesenda áfram.