Femínismi og dómstóll götunnar

Þessar pælingar áttu upphaflega að birtast sem komment hjá Má en ég ákvað að setja þetta bara á þessa síðu. Þetta eru því viðbrögð við þessum skrifum hjá Má og þessum hjá Svansson.net.

Mér finnast þessir draumar femínistans Gyðu vera alveg ótrúlega magnaðir (ég hvet alla til að lesa draumana). Ég vil fyrst og fremst setja STÓRT spurningamerki við Veru drauminn:

Mig dreymdi Veru. Veru var boðið út að borða og í leikhús af Kunningja sínum. Kunningi bauð Veru síðan í kaffi heim til sín þar sem hann nauðgaði Veru. Vera fór upp á bráðamótttöku í leigubíl, öll rifin og tætt.

Þar hringdi hún í Ofbeldisvarnarhóp FEMÍNISTAFÉLAGSINS. Þau fóru saman heim til Kunningja og límdu miða á bílrúðurnar á bíl Kunningjans. Á miðunum stóð: SVONA GERIR MAÐUR EKKI?. Kunningi átti í mestu vandræðum með að ná miðunum af; þurfti að þola illt auga nágrannanna; á meðan hann skrapaði og skrapaði. Kunningi þurfti einnig að útskýra seinkun sína í vinnuna.

Þau biðu líka nokkur úr Ofbeldisvarnarhópi FEMÍNISTAFÉLAGSINS fyrir utan vinnustaðinn eftir að vinnutíma lauk. Kunningi komst ekki hjá því að sjá þau. Þau sögðu ekkert, horfðu bara á hann og hann vissi að þau vissu. FEMÍNISTARNIR voru viss um að skömmin og niðurlægingin hefði fundið sinn heimastað. Vera sat eftir með reiðina sem hún nýtti sér á uppbyggilegan hátt. Vera gekk til liðs við Ofbeldisvarnarhóp FEMÍNISTAFÉLAGSINS.

Þarna finnst mér á afar óábyrgan hátt vera að gefa það í skyn að konur eigi að taka lögin í sínar eigin hendur. Þarna er verið að hvetja til þess að þær ráðist á kynferðisafbrotamenn og reyni að niðurlægja þá á opinberum vettvangi.

Ok, áður en einhverjir bjánar telja mig vera að verja nauðgara þá vil ég náttúruega setja þann fyrirvara að svo er auðvitað ekki.

Jafnvel þótt að réttarkerfið sé ekki alltaf réttlátt þá er það ótrúlega óábyrgt í siðuðu þjóðfélagi að hvetja almenning til andlegs ofbeldi til þess að refsa mönnum fyrir gjörðir þeirra. Réttara væri að berjast fyrir úrbótum í réttarkerfinu.

Það er verið að fara útá mjög hálan ís þegar ákveðnir hópar í þjóðfélaginu telja sig hafa einhvern rétt til þess að dæma menn og deila út refsingum, sem þeir (þær) telja við hæfi.