90% lán, kynlíf og brjáluð loforð

Skrítið að enginn virðist hafa spáð í þessu loforði framsóknarmanna um 90% húsnæðislán fyrr en eftir kosningar. Fyrir kosningar hafði fólk aðallega áhyggjur af því að auglýsingarnar fyrir lánin væru of fyndnar eða væru að hvetja til kynlífs hjá ungu fólki.

Ég verð að játa að ég hafði lítið spáð í því hversu vitlaus þessi hugmynd framsóknarmanna væri fyrr en núna. Jón Steinsson, sem ber af öðrum greinarhöfundum á Deiglunni skrifar í dag um þessa hugmynd:

Með þessum tillögum virðist félagsmálaráðherra algerlega hafa misst sjónar á tilgangi hins opinbera húsnæðiskerfisins. Á það virkilega að vera hlutverk hins opinbera að tryggja það að fólk geti keypt 20 milljón króna fasteignir? Nei! Tilgangur húsnæðiskerfisins á að vera að hjálpa ungu og efnalitlu fólki að eignast sína fyrstu fasteign. Kerfið á að ýta undir almenna húsnæðiseign, ekki almenna einbýlishúsaeign.

Nákvæmlega!! Af hverju fattaði þetta enginn fyrir kosningar?