Innflytjendur

Ja hérna, það hlaut að koma að því. Ég er í öllu sammála grein eftir Sverri Jakobsson.

Greinin heitir “Þegar sumir verða jafnari en aðrir” og fjallar um innflytjendalöggjöf í Danmörku og svo um nýlegt dæmi frá Íslandi. Hérna var víetnamskri konu hafnað um vegabréfsáritun vegna þess að hún var “ung og ógift” og þær típur eiga það víst til að ílengjast hér á landi, samkvæmt stjórnvöldum.

Þessi synjun er svo ótrúlega rasísk að ég á ekki orð yfir því að enginn skuli hafa talað um þetta mál opinberlega. Ég verð að játa það að ég skil ekki stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda. Af hverju er Ísland svona ofboðslega verndað?

Á þessari stóru eyju búa undir 300.000 manns. Hins vegar þá höfum við meira af náttúruauðlindum en flest önnur ríki. Ég er sannfærður um að hér á landi gætu búið yfir milljón manns við jafnmikla velmegun og þessar 300.000 hræður búa við í dag. Öll tækifærin eru til staðar.

Þess vegna skil ég ekki að íslensk stjórnvöld séu svona viljug til að reisa múra til að halda þessu fólki frá. Af hverju á ekki að leyfa fólki, sem vill virkilega búa á Íslandi, að koma hingað??

Ég er ekki að segja að við eigum að hleypa 700.000 manns inní landið í einni lotu. Hins vegar vildi ég sjá að stjórnvöld myndu marka sér þá stefnu að fjölga fólki hér á landi. Hleypa á ári hverju umtalsverðu magni af innflytjendum inní landið. Seinna meir myndi það bara auka velmegun á Íslandi og auka áhrif þessa lands í alþjóðlegu samstarfi.