Dásamlegt

Bara ef að allir dagar á Íslandi væru einsog gærdagurinn, þá væri sko gaman að lifa.

Ég tók vinnuna með mér heim og var því búinn með öll verkefni um 4. Ákvað þá að fara í göngutúr (notaði stuttbuxurnar mínar í fyrsta skipti síðan ég kom heim frá USA!). Labbaði upp Hofsvallagötuna og yfir á Vesturgötu, þar sem ég kíkti í fornbókabúðina. Ég skoðaði mig um þar í smá tíma en keypti svo loks Ástin á tímum Kóleru eftir Garcia Marques (ég gafst uppá ensku þýðingunni) og Hús Andanna eftir Isabellu Allende.

Labbaði svo um bæinn og skellti mér inní Eymundson í Austurstræti. Þar ákvað ég að kaupa mér Lonely Planet bók um land, sem ég er að spá í að heimsækja seinna í sumar. Mér finnst alveg ótrúlega gaman að hanga í bókabúðum og skoða ferðabækur. Ég fæ alltaf í magann við tilhugsunina um ferðalög. Núna er ég að spá í að heimsækja borg og land, sem mig hefur dreymt um síðustu 5 árin.

Í gærkvöldi sat ég svo í góðum félagskap á Austurvelli og sötraði Tuborg. Svona á lífið að vera.