La Carrera Asombrosa

Jibbí, þá er uppáhaldsraunveruleikasjónvarpsþátturinn (er þetta lengsta orð í heimi?) minn, Amazing Race, byrjaður.

Ætli það sé ekki ástríða mín af ferðalögum, sem geri það að verkum að ég held svona mikið uppá þennan þátt. Allavegana fer mig alltaf að dreyma um að heimsækja staðina, sem verið er að keppa á.

Keppendurnir virtust sæmilega athyglisverðir. Skrítnastir voru án efa par, sem hafði verið saman í 12 ár án þess að hafa stundað kynlíf. Alveg magnað. Það stóð líka alltaf á skjánum þegar þau komu: “Dating 12 years / Virgins”. Sennilega þurfa þau að kynnast betur áður en þau giftast eða prófa að sofa saman.

Annars er makalaust hvað sjónvarpið hérna heima er leiðinlegt. Það virðist vera bannað að sýna fleiri en einn góðan þátt á kvöldi. Í gærkvöldi var til dæmis ekki einn skemmtilegur þáttur. Frasier finnst mér fúll þáttur og svo er Survivor ekkert voðalega skemmtilegur. Á miðvikudögum er nánast ekkert (fyrir utan Meistaradeildina). Fimmtudagarnir eru skástir með Atvinnumanninn, Bachelor og Sex & the City. Á föstudögum er það svo bara The Simpsons, á laugardögum ekki neitt og svo ekkert á sunnudögum (allavegana þangað til að 24 byrjar aftur).